Laugardaginn 23. febrúar fór fram firma- og hópakeppni knattspyrnudeildar Hamars. Hér á árum áður var firmamót knattspyrnudeildar Hamars árlegur viðburður en hefur mótið legið niðri um hríð, þar til síðasta laugardag. Stærsta breytingin frá gömlu firmamótunum er auðvitað sú að nú er leikið í hinni stórglæsilegu Hamarshöll og því hægt að leika á tveimur völlum í einu við bestu aðstæður. 

Þátttaka í mótið var mjög góð og tóku tíu lið þátt, lið allt frá Sandgerði austur að Hvolsvelli. Leikið var í tveimur fimm liða riðlum og því hverju liði tryggðir að minnsta kosti fjórir leikir en sex leikir fyrir þau tvö efstu sem kæmust í undanúrslit. Sólin frá Sandgerði

Umjörð og skipulag mótsins tókst með ágætum og var til fyrirmyndar. Þá var á staðnum glæsileg veitingasala sem var í umsjón forráðamanna- og kvenna yngri flokka knattspyrnudeildar, pössuðu þau upp á að hinir hátt í eitthundrað þátttakendur og tugir áhorfenda héldu orku og athafnasemi sinni í hámarki yfir daginn með góðum og glæsilegum veitingum. 

Allar tegundir tilþrifa sáust yfir daginn, glæsileg, sérkennileg, vandræðaleg og umfram allt skemmtileg. Riðlakeppnin var æsispennandi á köflum, heitt var í kolunum í sumum leikjanna á meðan í öðrum var léttleikinn í fyrirrúmi. 

Til undanúrslita léku annars vegar lið SS frá Hvolsvelli og Steypustöðvarinnar og hins vegar Sólin frá Sandgerði og Kjörís. Eftir mikla baráttu og spennu voru það Sólin frá Sandgerði og Steypustöðin sem tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum, þar stóð Sólin frá Sandgerði uppi sem sigurvegari á meðan SS sigraði Kjörís í leiknum um þriðja sætið. Sigurvegararnir fengu afhendan bikar og verðlaunapeninga ásamt glaðningi frá Café Rose. Liðin í öðru og þriðja sæti fengu verðlaunapeninga og gjafabréf frá Kjörís, þá fengu allir þátttakendu tilboðsmiða á tveir fyrir einn tilboð af matseðlinum hjá Café Rose og var brjálað að gera hjá Gulla langt fram eftir kvöldi.  

Umsjónarmenn firma- og hópakeppninnar vilja þakka liðunum og hópunum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá þau öll aftur í næsta keppni. Þá vilja umsjónarmenn einnig þakka aðstandendum yngri flokka knattspyrnudeildarinnar fyrir þeirra aðkomu og svo sérstaklega Ingþóri, Ingimari, Tómasi, Óla Jó, Bjarnþóri og Indriða fyrir dómgæslu og reddingu.    

urslit