|
|
Strákar og stelpur úr 9. og 10. flokk Hamars tóku sér á hendur langþráð ferðalag þann 4.júlí sl. og heimsóttu Spán. Tilgangurinn var tvíþættur, að taka þátt í körfuboltamóti sem haldið var í smábænum Llore de Mar rétt norðan við Barcelona og svo að njóta sólar og skemmtunar í kaupbæti.
Viljum við þakka sérstaklega öllum þeim sem styrktu okkur til ferðarinnar gegnum safnanir síðustu 3ja ára.
Ferðin gekk í flesta staði vel og vel hægt að segja að 3ja ára söfnun og undirbúningur hafi þjappast saman í innihaldsríka ferð með fullt af skemmtilegum og eftirminnilegum atvikum sem sum hver reyndu á andlegan og líkamlega styrk þeirra sem fóru. Krakkarnir voru félaginu til sóma og uppskáru á endanum ekki bara verðlaunabikara heldur einnig nýja félaga, þekktu hvort annað aðeins betur og þekktu einnig áhrif sólar og hita mjög vel eftir þessa viku á Spáni.
Ferðalagið hófst formlega við íþróttahúsið í Hveragerði laugardaginn 4.júlí og ferðin sóttist vel út. Smá bras var á hótelinu fyrstu nóttina en komum við um kl. 2 á hótelið og næturvörðurinn kunni ekki alveg að innrita og virkja lykla á herbergi, en allt endaði þetta í kærkominni hvíld.
5.júlí var mætt í morgunmat fyrir kl. 10 og dagskráin að laga herbergismál og nærast, skoða ströndina og höllina sem átti að keppa í, en í henni voru 2 vellir og allir leikir spilaðir seinnipart og fram að miðnætti. Eitthvað skildum við þetta ekki í fyrstu en sáum fljótlega að í 33-40°C er ekki vit að spila yfir miðjan daginn og þó svo að leikirnir hafi ekki verið spilaðir í einhverjum kulda þá var þó skárra að hafa BARA 27-30°C á leiktíma. Strákarnir unnu sinn fyrsta leik um kvöldið en stelpurnar töpuðu og allir komnir með smjörþefinn af að spila í svona miklum hita.
6.júlí var ekki beðið með hlutina heldur haldið til Barcelona í verslunarferð kl 9:00. Eitthvað var lengra til Barcelona en fararstjórarnir höfðu gert sér í hugarlund fyrir ferðina en rútuferð og lestarferð í metró skilaði hópnum í stóra verslunarmiðstöð þar sem allir fengu frían tíma til innkaupa (5 tíma) áður en haldið var heim aftur og komum loks upp á hótel um 19:30 . Strákarnir áttu leik hálf ellefu en stelpurnar frí. Strákarnir töpuðu naumlega (4 stigum) fyrri heimamönnum í æsispennandi leik.
7.júlí, Gunnar Karl átti afmæli tók við gjöfum og hamingjuóskum fram eftir degi. Leikir beggja liða voru á sama tíma (17:20), hlið við hlið og fylgdarliðið átti í mesta basli með að fylgjast með báðum leikjunum. Bæði lið töpuðu en það var ekki málið heldur krafturinn og dugnaðurinn í okkar krökkum sem flest voru eitthvað löskuð og þreytt en gáfust aldrei upp. Endirinn var þó meiri plástur, bindi, kælisprey og hitakrem. Alexander meiddist á hné, fór með fararstjóra á sjúkrahús í myndatöku en betur fór en á horfðist. Alex með tognuð liðbönd en húmorinn ennþá á sínum stað hjá drengnum þrátt fyrir allt.
8.júlí var rólegur dagur framan af degi en átti eftir að verða viðburðarríkur á margan hátt. Mótstjórn reddaði okkur hjólastól fyrir Alex, sólar-exem og smá sólbruni leit dagsins ljós, búningar fóru í þvott fyrir átök dagsins, göngutúr, billiard, sundlaugarsprell og fl. en allir duglegir að nærast. Frekar heltist úr lestinni í leikmannahópnum en Andri og Katrín voru bæði meidd og spiluðu ekki þennan dag, auk Alexanders. Strákarnir spiluðu um kl. 17 og rétt töpuðu í spennandi leik þar sem skotin voru ekki að detta. Leikurinn hjá stelpunum var öllu sögulegri þar sem tæknivillur flugu á bæði lið og ein útilokun hjá andstæðingnum leit dagsins ljós. Okkar stelpur miklu betri en gestgjafarnir framan af og unnu að lokum eftir spennu og drama 40-47 þar sem andstæðingarnir enduðu 4 inn á. Leikurinn var spilaður undir miðnætti og í þvílíkri stemmningu þökk sé strákunum okkar, foreldrum og ítölskum strákum sem voru á okkar bandi.
9. júlí. Dagurinn tekinn snemma og allir klárir frá hótelinu klukkan 10 og rennibrautar garðurinn heimsóttur. Sólbruni hjá nokkrum eftir daginn og sólarexem. Þar sem var spáð skýjuðu á einhverjum vefmiðlum sem reyndist klár blekking og hitinn rétt undir 40°C allan daginn. Eftir heimkomu gerðu stelpurnar sig klárar fyrir síðasta leikinn og strákarnir áttu frí en komu að horfa. Stelpurnar áttu ekki góðan leik og hittu illa en unnu samt 21-20 eftir vítaskot á síðustu sekúndum leiksins. Þessi sigur skilaði þeim í úrslitaleikinn sem verður að teljast frábært miðað við öll meiðsli, exem og bruna.
Strákarnir fengu leik um 3-4. sætið sem var verðskuldað eftir jafna og spennandi leiki hjá þeim.
10.júlí var vel mætt í morgunmat og allir búnir að taka fæðið á hótelinu í sátt enda fjölbreytt og gott úrval. Einhverjir smökkuðu kanínukjöt sem dæmi og fannst bara gott. Dagurinn fór í frjálsan tíma sem flestir nýttu við sundlaugina á hótelinu og eins niður í bæ og við ströndina. Úrslitaleikirnir voru svo klukkan 17:20 hjá stelpunum og rúmlega 21 hjá strákunum. Allt var gefið í leikina hjá báðum liðum og allir með (utan Alex). Stelpurnar stóðu sig frábærlega en töpuðu fyrir klárlega besta liðinu í mótinu. Strákaleikurinn var öllu sögulegri en þeir kepptu aftur við Lloret de Mar strákana og mikill hiti í Spánverjunum sem endaði með smá riskingum og naumu tapi 35-32 þar sem keppt var við klárlega eldri stráka og stæðilega. Okkar strákar spiluðu flottan bolta en hittu frekar illa. Allir sáttir í lokin og mikið rætt um leikina. Kvöldið tekið í að pakka í töskur og gera herbergin klár fyrir brottför daginn eftir.
11.júlí var vaknað í morgunmat fyrir klukkan 10 og svo átti að vera búið að tékka út af hótelinu um kl. 10. Fengum að geyma töskur á hótelinu. Afmælisbarn dagsins, Silja var heiðruð með tertu og söng við sundlaugarbakkann. Krakkarnir létu daginn líða við sundlaugarbakkann eða í sundlauginni og fóru í síðustu skoðunarferðir (kaupa) um bæinn. Eitt vegabréf týndist og varð úr smá stress kvöldið áður. Það reddaðist þó og varð að flýta ferð til Barcelona til 17:00 þannig fararstóri komst til ræðismanns í Barcelona sem útbjó nýtt vegabréf með snatri og allir komust í flug um kvöldið Lending í Keflavík um um klukkan tvö um nóttina. Það voru þreyttir og sáttir krakkar sem komu heim um miðja nótt reynslunni ríkari.
Ber að þakka krökkunum fyrir frábæra ferð og við fararstjórarnir eigum margar góðar minningar úr ferðinni sem var í senn eftirminnileg og strembin, sérstaklega út af hitanum. Einnig var ómetanlegt að hafa svona marga foreldra með til að hjálpa okkur með allt saman og eiga þeir þakkir fyrir.
Nokkrar myndir úr ferðinni HÉR
Fyrir hönd ferðahópsins alls; Anton Tómasson, Kolbrún Vilhjálmsdóttir og Anna María Friðriksdóttir.
Þann 30.apríl var haldið HSK mót í 10.flokk stráka og stelpna í Hveragerði. Hamar, Hrunamenn, Hamar B og Þór Þorlákshöfn tóku þátt í þessu móti en Hamar B er sameiginlegt lið stúlkna frá Hamri og Hrunamönnum.
Þetta var síðasta körfuboltamót vetrarins í þessum flokki þannig ekki vantaði keppnina þó svo að mótið sjálft sé fyrst og fremst upp á gamanið gert.
Hamar varð HSK meistari 10.flokks drengja eftir að sigra Hrunamenn og síðan Þór Þorlákshöfn í algjörum úrslitaleik sem endaði með 61-57 sigri Hamars í tví framlengdum leik þar sem spennan var mikil og leikmenn sýndu glæsilega takta undir mikilli pressu.
Mótið endaði síðan á því að grillaðar voru pulsur í sumarveðrinu og fóru allir heim með bros á vör eftir skemmtilegt mót og skemmtilegan körfubolta vetur.
Hrunamenn urðu HSK meistarar í 10.flokki stúlkna eftir að hafa unnið leik sinn á móti Hamri nokkuð þægilega. Hinsvegar var mun meiri spenna í leik Hrunamanna og Hamars B þar sem lokastaðan var 30-24 Hrunamönnum í vil. Myndin er hinsvegar af okkar frábæru stúlkum í Hamari.
Herrakvöld Hamars verður haldið laugardaginn 2.maí 2015 á Hótel Örk. Húsið opnar klukkan 19:00 og verður glæsilegt hlaðborð að hætti Hótels Arkar í boði.
MIÐAVERÐ 6.800 KR. ATH GILDIR LÍKA SEM HAPPDRÆTTISMIÐI
Uppboðið verður einnig á sínum stað!
FORSALA
Miðasala í Shell í Hveragerði og Hamarshöllinni
EINNIG HÆGT AÐ PANTA MIÐA HJÁ
Steina 899-8898
Lárusi 660-1618
Matta 865-8712
Hjalta 896-4757
Laugardaginn 21. mars 2015 fór fram fyrsta HSK mót vetrarins í Míkróbolta. Þetta er fyrir þá sem ekki vita, körfuknattleiksmót fyrir krakka í 1.-4. bekk og eru ekki talin stig heldur er megin keppikeflið að allir hafi gaman að því að spila. Mótið var vel sótt og komu rétt um hundrað keppendur frá fjórum félögum, Hrunamönnum, Þór, Fsu og Hamri. Körfuknattleiksdeild Hamars hafði nýlega fjárfest í tveimur auka körfum þannig að hægt var að spila á þremur völlum í einu og tók því mótið ekki lengri tíma en fjórar klukkustundir og náðu flestir keppendurnir að klára sitt mót á þremum klukkustundum sem er fínn tími fyrir þennan aldurshóp. Líkt og áður sagði eru ekki talin stig og fá allir keppendur verðlaunapening í lok móts þannig að allir fóru sáttir heim og sannfærðir um eigin sigur og ágæti eða alveg eins og það á að vera J
Á ársþingi Hérðaðssambands Skarphéðins sem haldið var að Flúðum sunnudaginn 15. mars 2015 voru þrír einstaklingar sæmdir Starfsmerki UMFÍ. Starfsmerkið er veitt fyrir framúrskarandi dugnað og starf fyrir íþrótta og ungmennafélög á íslandi, Lárus Ingi Friðfinnsson var sæmdur þessari flottu viðurkenningu og er hann vel að henni kominn. Lárus Ingi hefur verið formaður Körfuknattleiksdeildar Hamars frá stofnun deildarinnar árið 1992 og á þessum tíma verið driffjöður í starfi deildarinnar aukin heldur að hafa þann einstaka hæfileika að fá fólk til að starfa með sér til hagsbóta fyrir körfuboltann í Hveragerði.
Á aðalfundi Hamars, sunnudaginn 22. febrúar 2015, voru heiðraðir íþróttamenn deilda og íþróttamaður Hamars fyrir árið 2014. Eftirfarandi aðilar hlutu viðurkenningu:
Hrefna Ósk Jónsdóttir, badminton.
Ragnheiður Eiríksdóttir, blak.
Anna Sóldís Guðjónsdóttir, fimleikar.
Vadim Senkov, knattspyrna.
Sóley Gíslína Guðgeirsdóttir, körfuknattleikur.
Sverrir Geir Ingibjartsson, hlaup.
Dagbjartur Kristjánsson, sund.
Sóley Gíslína hlaut titilinn íþróttamaður Hamars fyrir árið 2014.
Á aðalfundinum var bryddað uppá þeirri nýbreytni að veita gullmerki Hamars fyrir störf í þágu félagsins og hlaut Valdimar Hafsteinsson þá viðurkenningu. Valdimar hefur setið í aðalstjórn Hamars í 20 ár samfleytt, verið formaður í knattspyrnudeild og blakdeild ásamt því að vera í stjórn Laugasports. Valdimari er þökkuð góð störf í þágu félagsins.
Á aðalfundinum var Hjalti Helgason endurkjörinn formaður. Og auk hans skipa stjórnina Friðrik Sigurbjörnsson gjaldkeri, Álfhildur Þorsteinsdóttir, Erla Pálmadóttir og nýr í stjórn er Daði Steinn Arnarson.
Hveragerðisbær heiðraði milli jóla og nýárs íþróttamenn úr bæjarfélaginu sem staðið hafa sig vel á árinu 2014. Ragnar Nathanealson og Kristrún Rut Antonsdóttir fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur á körfuboltavellinum sl. ár.
Kristrún Rut hefur verið fastamaður í Hamarsliðinu í Dominosdeildinni 2014 og hlaut viðurkenningu fyrir það og fyrir knattspyrnuiðkun sína þar sem Kristrún Rut, ásamst liði Selfoss, náði í bikarúrslitin 2014. Kristrún var fastamaður í liði Selfoss í Pepsídeild líkt og í Dominosdeildinni með Hamri.
Ragnar hefur verið áberandi á vellinum allt síðasta ár. Hann hefur verið það öflugar með Þór Þorlákshöfn í Dominosdeildinni að atvinnumennskan var handan við hornið og spilar Ragnar í dag með Sundsvall Dragons í Svíþjóð. Ragnar var fastamaður í A-landsliðinu okkar sem vann sér rétt til þátttöku í úrslitum evrópukeppninnar, sem frægt er orðið. Systir Ragnars tók við viðurkenningu fh. bróður síns og er á myndinni ásamt Kristrúnu.