Helgina 18.-20. september lögðu 9. flokks strákarnir í liðinu „Hamar/Hrunamenn“ land undir fót og skelltu sér í höfuðstað Norðurlands. Mikil tilhlökkun var í hópnum enda fyrsta mót vetrarins fram undan og spiluðu strákarnir í B riðli þar sem 6-10 sterkustu lið landsins spila og því ljóst að um erfiða leiki yrði að ræða. Fyrsta markmið helgarinnar var að halda sér í riðlinum og nýta þá reynslu sem kæmi um helgina til frekari verka í vetur. Nokkur fjöldi foreldra kom með í ferðina og var lagt af stað um miðjan dag á föstudegi. Fyrsti leikur var svo snemma á laugardagsmorgun gegn Grindavík. Leikurinn var nokkuð jafn allan tíman þó voru okkar drengir aðeins á undan stærstan hluta leiksins, lokatölur voru 57:48 okkar mönnum í vil. Næsti leikur var um hádegisbil á laugardag og andstæðingurinn var gamla stórveldið úr Reykjavík, Ármann. Það lið hefur verið á meðal fimm bestu liða undanfarinn tvö ár og því ljóst að erfiður leikur var fram undan. Drengirnir af Suðurlandinu mættu samt sem áður vel gíraðir í leikinn og tóku forustu strax á upphafs mínútum og litu aldrei í baksýnisspegilinn, lokatölur 75:50 og áframhaldandi sæti í B riðli tryggt. Leikjum laugardagsins var því lokið og við tók pizza hlaðborð, sundferð og bíósýning. Allir í gírnum og þjálfarinn gjörsamlega bugaður og byrjaður að dotta um áttaleytið. Ró komst þó á liðið á skikkanlegum tíma og var allt komið í ró um ellefuleytið og því náðu drengirnir góðri hvíld fyrir leiki sunnudagsins. Fyrri leikur seinni dags mótsins var gegn heimamönnum sem hafa á að skipa stórum og sterkum strákum sem létu vel finna fyrir sér, okkar menn stóðust þó prófið og unnu nokkuð öruggan sigur 63:56. Við tók því hreinn úrslitaleikur við Stjörnuna B sem voru nýkomnir úr A riðli og ljóst að spennustigið yrði nokkuð hátt í þeim leik. Drengirnir byrjuðu vel og leiddu allan leikinn. Á loka mínútunum hleyptu þeir þó óþarfa spennu í leikinn með því að klikka á tveimur vítum og tapa boltanum. Sigur vannst þó 53:51 og okkar menn á leið í A riðil og á næsta mót. Það verður án vafa mun erfiðara en þó við hæfi að leyfa drengjunum aðeins að njóta 😊
https://www.hamarsport.is/wordpress/wp-admin/post.php?post=6846&action=edit
Stigahæstu leikmenn
Lúkas Aron Stefánsson 47 stig
Tristan Máni Morthens 60 stig
Birkir Máni Daðason 67 stig