Posts

Dagbjartur Kristjánsson, hlaupari, var kjörinn íþróttamaður Hamars fyrir árið 2016 á aðalfundi félgasins sem haldinn var þann 27. febrúar s.l. Dagbjartur var tilnefndur af skokkhópi Hamars en hann hefur hlaupið með hópnum á undanförnu ári. Hann hefur náð afar góðum árangri í lengri hlaupum og á vafalaust mikið inni. Dagbjartur sem áður stundaði sund af kappi hefur nú hafið æfingar með frjálsíþróttadeild ÍR.

Eftirtaldir voru kosnir íþróttamenn sinnar deildar:
*Badmintondeild : Hrund Guðmundsdóttir
*Blakdeild : Hilmar Sigurjónsson
*Fimleikadeild: Erla Lind Guðmundsdóttir
*Knattspyrnudeild: Tómas Aron Tómasson
*Körfuknattleiksdeild: Snorri Þorvaldsson
*Sunddeild: Guðjón Ernst Dagbjartsson
*Hlaupari ársins: Dagbjartur Kristjánsson

Aðalfundi Badmintondeildar Hamars lauk í kvöld og hefur ný stjórn tekið við. Eftirtalin voru kosin í stjórn: Þórhallur Einisson formaður, Halldóra G. Steindórsdóttir gjaldkeri og meðstjórnendur voru kosin Helga Björt Guðmundsdóttir, Hákon Fannar Briem og Þórður K. Karlsson.  Ólafur Dór Steindórsson og Bjarndís Helga Blöndal gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og er þeim þakkað kærlega fyrir þeirra framlag á yfirstandandi ári. Þau hafa þó blessunarlega gefið kost á sér í ýmsa vinnu með stjórninni sem ber einnig að þakka sérstaklega. 

1. fundur nýrrar stjórnar var haldinn í kjölfarið og var meðal annars ákveðið að:

  • Næsta dósasöfnun deildarinnar verður haldin miðvikudaginn 7. júní nk. kl. 17:00 og eru iðkendur og foreldrar þeirra beðnir um að taka þennan tíma frá.
  • Laugardaginn 10. júní nk. mun deildin halda uppskeruhátíð / óvissuferð og eru iðkendur og foreldrar þeirra beðnir um að taka daginn frá, meira um þetta síðar.
  • Badmintonbolir munu verða innifaldir í námskeiðsgjaldi fyrir þá sem hefja iðkun hjá deildinni næsta haust. Einnig mun deildin útvega skó/stuttubuxur/spaða og annan varning á kostnaðarverði frá heildsöluaðila fyrir iðkendur deildarinnar.

Samningur var undirritaður nýverið á milli Íþróttafélagsins Hamars og Hveragerðisbæjar.  Samningurinn gildir út árið 2018 en í honum er fjallað um gagnkvæmar skyldur aðila á tímabilinu.  Samningnum er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda í Hveragerðisbæ og íþróttafélagsins og tryggja öflugt íþrótta-, forvarna- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni í Hveragerði. Með samningnum fær íþróttafélagið 22,6 m. kr. á tímabilinu frá Hveragerðisbæ.  Auk þess fær íþróttafélagið íþróttamannvirki bæjarins til endurgjaldslausra afnota og er sá styrkur metinn á 83,5 mkr. Í samningunum kemur fram að um sé að ræða rekstrarstyrki til barna og ungmennastarfs, framlag vegna meistaraflokka, fjárveiting í ferða- og tækjasjóð og rekstrarstyrkur vegna íþróttasvæða.

Íþróttafélagið Hamar býður flóttafjölskyldu frá Sýrlandi velkomna til Hveragerðis, um leið hefur aðalstjórn Hamars ákveðið að bjóða ungmennum innan fjölskyldunnar að æfa íþróttir hjá Hamri á árinu 2017. Það er von aðalstjórnar að þetta hjálpi ungmennum innan fjölskyldunnar að aðlagast nýjum aðstæðum hér í Hveragerði.

Sunnudaginn 18. Desember fór fram bikarleikur í 9. Flokki karla. Valur tók þá á móti sameiginlegu liði Hamars og Þórs, spilað var í OgVodafone höllinni og fyrirfram var búist við frekar erfiðum leik gestanna þar sem heimaliðið er jú ríkjandi íslandmeistarar. Leikurinn byrjaði þó nokkuð jafn og að loknum fyrsta leikhluta leiddu heimamenn með sex stigum, 21-15, og gaf þessi byrjun gestunum byr í seglin og trú á verkefnið. Valsmenn voru þó ekkert endilega á því að vera eitthvað að leyfa gestunum að komast inní leikinn og bættu við forskotið þannig að í hálfleik leiddi Valsmenn með 21 stigi. Þessi munur hélst svo út leikinn þannig að þótt gestirnir hafi verið nokkuð ánægðir með að veita íslandsmeisturunum keppni verður að hafa það bak við eyrað að vissulega var heimaliðið með öruggu forustu allan seinnihálfleik. Leikurinn var þó fínasta skemmtun þar sem ungir leikmenn fengu að spila á aðalvelli OgVodafone hallarinnar og virtust bara njóta þess að fá að vera aðalstjörnur þessa sunnudagskvölds þar sem boðið var uppá skemmtilegan körfubolta. Stigahæstir heimamanna voru Ástþór Svalason 34 stig og Ólafur Gunnlaugsson 18 stig. Hjá Hamri/Þór var Sæmundur Þór Guðlaugsson með 23 stig og Arnar Dagur Daðason með 23 stig

 

Fimmtudaginn 1. September var haldin íþróttadagur Hamars, hátiðinn var haldinn í íþróttahúsinu í Dalnum og þar voru allar deildir Hamars með kynningu á starfi sínu ásamt því að boðið var uppá skemmtiatriði auk andlitsmálnigar og íspinna frá Kjörís. Dagurinn heppnaðis í alla staði vel og er án vafa langfjölmennasti kynningardagur sem Íþróttafélagið Hamar hefur staðið fyrir.

 

Björn Ásgeir Ásgeirsson hefur verið valin í 16 manna landsliðshóp drengja fæddir 2000 í körfuknattleik. Þetta eru frábærar fréttir fyrir körfuboltan í Hveragerði og sínir hvaða árangri er hægt að ná með dugnaði og elju, Björn Ásgeir er þarna að uppskera árangur þess að hafa verið einstaklega duglegur að æfa undanfarinn ár bæði með liðsfélögum og með miklum aukaæfing. Til hamingju Björn Ásgeir og körfuknattleiksdeild Hamars.

Hjalti

Árið sem senn er að líða hefur að flestu leyti verið farsælt fyrir Íþróttafélagið Hamar. Mikil gróska er í starfi deildanna og hefur heildarfjöldi iðkenda aukist á árinu. Sunddeild Hamars hefur aðeins átt undir högg að sækja, en það er von okkar að úr rætist enda fara fyrir starfi deildarinnar öflugir einstaklingar sem eru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að vinna að framgangi sundíþróttarinnar í Hveragerði. Full ástæða er til að hvetja sem flesta til að mæta á æfingar hjá sunddeildinni en þjálfari deildarinnar er hin geðþekki og reynslumikli Magnús Tryggvason.

Talsverð umræða hefur verið að undaförnu um kostnað foreldra við íþróttaiðkun barna. Þessi umræða er að mörgu leyti réttmæt, enda er oft á tíðum um að ræða veruleg fjárútlát af hendi foreldra, ofan á það bætist vinna við fjáraflanir o.fl. Bæjarstjórn Hveragerðis tók á árinu ákvörðun um að innleiða frístundastyrk. Með styrknum skuldbinda bæjaryfirvöld sig til að greiða 12.000 krónur með hverju barni undir 18 ára aldri sem iðkar íþrótta-, lista-og tómstundarstarfsemi. Íþróttafélagið Hamar fagnar þessari ákvörðun og er það von okkar að þessi aðgerð létti undir með foreldrum. Mjög mikilvægt er að deildir Hamars stilli hækkunum á æfingargjöldum í hóf svo að styrkurinn nýtist sem best.

Það þurfti hvorki meira né minna en tvær helgar undir jólamót Knattspyrnudeildar Hamars. Áætlaður fjöldi iðkenda á mótinu var 1.600 manns. Jólamót Kjörís er orðin stærsti einstaki viðburðurinn innan deilda Hamars og er mótið gott dæmi um þau gríðarlegu umskipti sem Hamarshöllin hefur haft fyrir Íþróttafélagið, bæði hvað varðar aðstöðu og ekki síður möguleika til tekjuöflunar. Samstillt átak foreldra, stjórnar og styrktaraðila gerir þennan glæsilega viðburð að veruleika.

Hjá Hamri fer fram öflugt sjálfboðaliðastarf þar sem foreldrar og aðrir aðstandendur leggja mikið á sig til fjáraflana, ferðalaga og annarra starfa sem tilheyra starfi iðkenda. Tæknin hefur í seinni tíð komið sterk inn í allt íþróttastarfið. Foreldrar og þjálfarar nýta sér samskiptamiðla í auknum mæli til að skipuleggja starfið. Kostir t.d Facebook eru ótvíræðir til að koma skilaboðum fljótt og vel áfram. Eins og gefur að skilja geta skoðanir á hinum ýmsu hlutum er tengjast starfinu verið misjafnar. Mjög mikilvægt er að við sýnum hvort öðru kurteisi og virðingu í öllum samskiptum og metum störf hvors annars að verðleikum. Við erum jú þegar á hólminn er komið öll í sama liðinu, það frábæra lið heitir Hamar

Fyrir hönd stjórnar Hamars vil ég þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og sendi okkar bestu óskir um gleðileg jól, farsæld og hamingju á nýju ári

Áfram Hamar!

Hjalti Helgason, formaður Hamars