Posts

Við minnum á æfingarnar í sunddeildinni:

Æfingatímar 2022 – 2023:

Flugfiskar (1. og 2. bekkur) æfir á föstudögum kl. 12:45 – 13:30

Selir (3.- 5. bekkur) æfir á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 16:00-16:45 og á föstudögum kl. 13:30 – 14:30.

Höfrungar (6. bekkur og eldri) æfir á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 16:30-18:00 og á föstudögum kl. 13:30 – 14:30.

Auðvitað eru æfingarnar fyrstu tvær vikurnar í september opnar, svo öll börn geta komið og prófað sundið.

Skráning í sunddeildina er hafin hér inni á Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/hamar/sund

Þar er hægt að skrá börnin í allt tímabilið, frá ágúst og út júní, eða fram til áramóta.

Ekki er komin skráning fyrir 1. og 2. bekk þar sem Íþróttafélagið Hamar sér um þá skráningu. Það er von á henni von bráðar inn í Sportabler.

Þeir sem eru ákveðnir í því að æfa sund í vetur geta skráð sig þar núna.

Hlökkum til að sjá sem flesta í sundi 🙂

Bestu kveðjur frá stjórn og þjálfara.

Inngangur

Íþróttafélagið Hamar hefur nú verið án Hamarshallarinnar síðan í febrúar á þessu ári. Síðan þá hefur Íþróttafélagið Hamar unnið með bæjaryfirvöldum að því verkefni að sambærileg aðstaða eða betri yrði komið á legg eins fljótt og auðið er, því við erum í kapphlaupi við tímann ef við ætlum ekki að sjá fram á stórlega skaðað íþróttastarf í Hveragerði næstu árin. 

Það er samfélagsleg ábyrgð okkar, Hamars og Hveragerðisbæjar, að halda uppi íþróttastarfi fyrir bæjarbúa og hjá Íþróttafélaginu Hamri starfa hundruðir sjálfboðaliða sem hafa lagt sitt af mörkum til að svo sé í dag. 

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir lýðheilsu íbúa Hveragerðis að við fáum upp viðunandi aðstöðu sem fyrst, að uppbygging á íþróttaaðstöðu haldi áfram og verði bæjarfélaginu til sóma.  Hveragerði hefur lagt mikið upp úr að vera heilsueflandi samfélag en í dag er erfitt að halda uppi þeim stimpli þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar er tekin aftur um 10 ár með falli Hamarshallarinnar. Þannig verður staðan þangað til Hamarshöllin rís aftur og því lengur sem hún liggur niðri, því erfiðara verður fyrir okkur að koma starfinu á sama stall aftur. Margir hagsmunahópar sitja nú eftir með sárt ennið þar sem Hamarshöllin þjónustaði mjög fjölbreyttan hóp á öllum aldri en auk Íþróttafélagsins Hamars var aðstaða fyrir golfiðkun, gönguhópa, eldri borgara auk þess sem ýmsir viðburðir skiluðu tekjum fyrir deildir Hamars og aðra í okkar nærumhverfi. 

Íþróttafélagið Hamar á sér langa sögu í okkar samfélagi en félagið fagnar 30 ára afmæli á þessu ári. Í stað þess að fagna og vera stolt af okkar aðstöðu þá er félagið nú á óvissutímum. Engar fregnir berast af því hverjar áætlanir nýs meirihluta eru varðandi uppbyggingu íþróttastarfs þótt sóst sé eftir því. Horfa verður bæði til skamms og langs tíma í senn, nú er tíminn til að reisa Hamarshöllina eins fljótt og auðið er jafnframt því sem við þurfum að vinna í stefnumótun og byggja upp íþróttastarfið til framtíðar. Samráð og samtal þarf að eiga sér stað og vonumst við til að farsælt samstarf bæjarfélagsins og íþróttafélagsins haldi áfram að vaxa og dafna. Íþróttafélagið Hamar telur 6 deildir og áhyggjur deildanna snúa að okkar iðkendum, þjálfurum og sjálfboðaliðum sem stóla á félagið því án aðstöðu í haust/vetur mun íþróttastarfið okkar bera stóran skaða, sjálfboðaliðum mun fækka, þjálfarar hverfa og iðkendur hætta eða fara í önnur félög.

Íþróttafélagið biður um svör við eftirfarandi spurningum:

  1. Í nýjum málefnasamningi meirihlutans kemur fram: “Skoða kosti varðandi uppbyggingu Hamarshallarinnar og annarra íþróttamannvirkja” Má skilja þetta sem svo að nýr meirihluti hafi ekki tekið ákvörðun um viðbrögð vegna falls Hamarshallarinnar ennþá? Ef svo er, hvenær megum við eiga von á því að sjá einhverja niðurstöðu í því?
  2. Mun Hamarshöllin rísa aftur í haust/vetur? Ef svo er, hvernig er áætlunin um endurreisn hennar? Ef  svo er ekki, þá biðjum við um að fá upplýsingar hið fyrsta hvert planið er svo við getum skipulagt okkur skv. því.
  3. Íþróttafélagið Hamar hefur óskað eftir fundi með nýjum meirihluta síðan úrslit kosninga voru ljós. Hvenær á Íþróttafélagið von á því að fá fundi með nýjum meirihluta og beina aðkomu að málefnum Hamarshallarinnar og Íþróttafélagsins eins og óskað hefur verið eftir?
  4. Íþróttafélagið Hamar er stærsti einstaki hagsmunaaðili í Hveragerði þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Mun nýr meirihluti forgangsraða verkefnum sem snerta það beint í samráði við Íþróttafélagið (sjá greinargerð fyrir neðan)?
  5. Munu fulltrúar frá Íþróttafélaginu Hamri fá sæti í nefnd íþróttamála á þessu kjörtímabili?

Greinargerð um afstöðu Íþróttafélagsins Hamars til aðstöðu til skemmri og lengri tíma:

Aðalstjórn Íþróttafélagsins Hamars er einhuga um knýja fram eftirfarandi forgangsröðun verkefna Hveragerðisbæjar í þágu félagsins, (staðfest á fundi aðalstjórnar í apríl og maí 2022)

  1. Koma upp aðstöðu eins og deildir Hamars höfðu fyrir hrun Hamarshallarinnar með úrbótum sem Íþróttafélagið hefur komið á framfæri við bæjaryfirvöld (áætlaður kostnaður vegna endurreisn Hamarshallarinnar í töluvert endurbættri mynd er um 300 milljónir kr eða ca 200m+ nettó). Þetta er mjög mikilvægt til þess að:
    1. Sporna við brottfalli iðkenda, þjálfara og sjálfboðaliða hjá Knattspyrnudeild og Fimleikadeild sökum aðstöðuleysis.
    2. Sporna við brottfalli iðkenda, þjálfara og sjálfboðaliða hjá öðrum deildum Hamars sökum fækkun tíma í íþróttahúsi. Ef nýtt hús er ekki komið upp í haust erum við að horfa á rúmlega 50% fækkun á tímum sem mun bitna beint á jafn yngri iðkendum og afreksstarfi. 50% fækkun á tímum þýðir t.d. æfingar annan hvern dag í staðinn fyrir daglegar æfingar hjá meistaraflokkum félagsins. 50% fækkun þýðir líka fækkun á æfingatímum og stytting í æfingatímum hjá yngri iðkendum félagsins (badminton/blak/karfa/fimleikar/fótbolti)
  2. Bæta rekstrarskilyrði fyrir sunddeild í Laugaskarði, m.t.t. hitavandamála.
  3. Vinna með bæjaryfirvöldum að því að móta hvernig staðið skuli að uppbyggingu framtíðaraðstöðu fyrir fimleika, badminton, körfubolta og blak, með sérstaka áherslu á fimleika fyrst ef ekki er hægt að byggja upp aðstöðu fyrir allar þessar deildir samtímis.

Við óskum eftir því að svör berist Íþróttafélaginu eins fljótt og auðið er, það er mikilvægt að allri óvissu sé eytt sem fyrst svo við getum byrjað að skipuleggja okkur og undirbúa fyrir þann veruleika sem tekur á móti okkur í haust.

Áfram Hamar!

F.h. Aðalstjórnar Íþróttafélagsins Hamars,

Þórhallur Einisson, formaður.

Ragnar Ingi Axelsson er Íþróttamaður Hamars 2021. Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í Úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu, vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari í vor. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri Úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu. 

Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður Úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð. 

Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Ragnar Ingi Axelsson

Íþróttamenn deilda Hamars 2021 voru að þessu sinni:

Íþróttamaður Badmintondeildar Hamars 2021
Úlfur Þórhallsson
Íþróttamaður Blakdeildar Hamars 2021
Ragnar Ingi Axelsson
Íþróttamaður Knattspyrnudeildar Hamars 2021
Brynja Valgeirsdóttir
Íþróttamaður Körfuknattleiksdeildar Hamars 2021
Helga María Janusdóttir

Birgir hefur verið máttarstólpi íþróttastarfs í Hveragerði síðan löngu áður en Íþróttafélagið Hamar verður til. Birgir spilaði stöðu línumanns í handbolta á sínum yngri árum með KR og flutti til Hveragerðis þegar hann hóf nám hér í Garðyrkjuskólanum. Hann hélt síðan út til Jótlands í framhaldsnám og þjálfaði handbolta með Stige meðan á náminu stóð. Þegar hann flutti aftur heim til Hveragerðis var eitt af hans fyrstu verkum að stofna Handboltadeild hér í Íþróttafélagi Ölfus og Hveragerði sem varð mjög vinsæl og starfaði í fjölmörg áráður en hún lagðist af sökum þess að ekki var hér löglegan handboltavöll að finna til keppnisleikja.

Birgir vann ötullega fyrir Ungmennafélag Ölfus og Hveragerði og eitt af verkefnum þess var skafmiði (svokallaður Ferðaþristur) þar sem ágóðinn átti m.a. að fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Þetta verkefni fór mjög illa, kostnaður þess var langt umfram tekjur og varð þess valdandi að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Birgir var einn af ábyrgðarmönnum félagins og þurfti hann persónulega að greiða skuldir félagins. Aðrir aðilar sem voru í persónulegri ábyrgð urðu gjaldþrota sem gerði það að verkum að Birgir var gerður persónulega ábyrgur fyrir þeim skuldum sem aðrir ábyrgðarmenn áttu að taka. Erfitt er að setja sig inn í þær aðstæður sem voru uppi þarna og það óréttlæti sem fólst í því að gera Birgi ábyrgan fyrir gjaldþroti félagsins en hann lét engan bilbug á sér finna, vann sig út úr þessu og hélt áfram að vinna ötullega að íþróttastarfi í Hveragerði.

Sama ár og Ungmennafélag Ölfus og Hveragerði verður gjaldþrota er Íþróttafélagið Hamar stofnað, nánar tiltekið 28. mars 1992. Fljótlega eftir stofnun þess fór Birgir að láta til sín taka fyrir Körfunattleiksdeildina. Upphafið af því má rekja til þess þegar hann og Lárus Ingi formaður hittust og Birgir nefndi að deildin ætti að skoða það að fara að selja inn á leikina. Eftir smá umhugsun sagði Lárus; Það er fínasta hugmynd, þú sérð bara um þetta Biggi minn. Þar með var það fest í sögubækurnar því eins og allir vita segir enginn nei við Lárus.

Síðan hefur Birgir verið einn öflugasti bakhjarl Körfuknattleiksdeildarinnar og er það enn. Okkur er það mikill heiður að fá að sæma hann gullmerki Íþróttafélagsins Hamars.

Aðalfundur Íþróttafélagsins Hamars verður haldinn þriðjudaginn 15. mars nk. kl 20:00 í Grunnskólanum í Hveragerði

FUNDARBOÐ
Íþróttafélagið Hamar heldur aðalfund í Grunnskólanum í Hveragerði þriðjudaginn 15. mars 2022 kl. 20.00

Fundarefni:

  1. Formaður setur fundinn.
  2. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
  3. Formaður flytur ársskýrslu félagsins.
  4. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar.
  5. Umræður um skýrslu formanns og gjaldkera og reikningar félagsins bornir upp til
    samþykktar.
  6. Tillögur lagðar fyrir fundinn.
  7. Ávörp gesta.
  8. Verðlaunaafhending og lýst kjöri íþróttamanns Íþróttafélagsins Hamars.
  9. Kaffihlé
  10. Umræður og afgreiðsla tillagna
  11. Lagabreytingar.
  12. Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun aðalstjórnar til samþykktar og deilda til
    staðfestingar.
  13. Ákveðin árgjöld félagsins og deilda
  14. Stjórnarkjör
  15. Kosnir tveir skoðunarmenn.
  16. Önnur mál.

Verið velkomin
Stjórnin

Mikið mæðir á íþróttastarfi um þessar mundir og kappkosta allir við að fylgja reglum um sóttvarnir og um leið finna leiðir til að gera íþróttir sem öruggastar fyrir alla iðkendur félagisins. Við látum þó ekkert stoppað okkur (nema að einhverju leiti reglugerðir).

Undirrituð og Aðalstjórn Hamars eru í mikilli undirbúnings- og rannsóknarvinnu er lítur að þjónustu og framtíðarsýn félagsins. Þar sem miklar hömlur eru á samkomum og viðburðum höfum við þurft að fresta í tvígang svokölluðum “þjóðfundi”, en okkur þykir mikilvægt að fá bæjarbúa með okkur í lið til að vinna að enn bjartari framtíð félagsins. Við erum aftur á móti afar bjartsýnn hópur fólks og hlökkum til að geta hitt alla!

Einnig höfum við sett af stað könnun í samstarfi við Hveragerðisbæ og höfum við nú þegar fengið góða svörun frá foreldrum, takk fyrir það! Við viljum með þessu nálgast foreldra og opna línu milli okkar og ykkar. Við stefnum á að sú könnun verði framkvæmd árlega til að fá enn betri sýn á starfið og nýtum það verkfæri til að bæta okkur, með hjálp frá ykkur.

Starfið hefur farið af stað með ágætum þetta haustið og lágmarks truflun hefur verið á almennri starfssemi deilda. Við höfum þó að sjálfsögðu fundið fyrir því að takmarkanir eru settar á áhorfendur leikja meistaraflokka en ég held að liðin finni þó alltaf fyrir stuðningi bæjarbúa. Þar sem flestir iðkendur hafa fundið sinn stað í félaginu höfum við farið yfir skráningar og sjáum að einhverjir foreldrar/forráðamenn eiga eftir að ganga frá skráningu en við höfum fulla trú á að það gerist fljótt og örugglega á næstu dögum.

Breytingar og aukning hefur orðið á meistaraflokkum okkar á árinu en stofnaður var meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu, meistaraflokkur karla í blaki og meistaraflokkur kvenna í körfu hóf samstarf við Þór í Þorlákshöfn. Meistaraflokkar karla í knattspyrnu og körfuknattleik halda að sjálfsögðu ótröðir áfram að venju. Við gætum ekki verið stoltari af öllum okkar meistaraflokkum – áfram Hamar! Það gefur auga leið að meistaraflokkar eru frábærar fyrirmyndir fyrir iðkendur í yngri flokka.

Mig langar að taka smá pláss í þessum pistli til að færa þakkir þangað sem þær eru einnig verðskuldaðar. Þakkir til foreldra/forráðamanna, þakkir til sjálfboðaliða, þakkir til velunnara. Án óeigingjarns starfs og stuðnings ykkar væri íþróttastarfið ekki nærri því jafn öflugt og það er. Það á við um öll íþróttafélög á landinu og erum við sannarlega ekki undanskilin. Við hlökkum til að halda áfram samvinnu og horfum björtum augum til framtíðarinnar.

Sandra Björg Gunnarsdóttir

Framkvæmdastjóri

Helgina 18.-20. september lögðu 9. flokks strákarnir í liðinu „Hamar/Hrunamenn“ land undir fót og skelltu sér í höfuðstað Norðurlands. Mikil tilhlökkun var í hópnum enda fyrsta mót vetrarins fram undan og spiluðu strákarnir í B riðli þar sem 6-10 sterkustu lið landsins spila og því ljóst að um erfiða leiki yrði að ræða. Fyrsta markmið helgarinnar var að halda sér í riðlinum og nýta þá reynslu sem kæmi um helgina til frekari verka í vetur. Nokkur fjöldi foreldra kom með í ferðina og var lagt af stað um miðjan dag á föstudegi. Fyrsti leikur var svo snemma á laugardagsmorgun gegn Grindavík. Leikurinn var nokkuð jafn allan tíman þó voru okkar drengir aðeins á undan stærstan hluta leiksins, lokatölur voru 57:48 okkar mönnum í vil. Næsti leikur var um hádegisbil á laugardag og andstæðingurinn var gamla stórveldið úr Reykjavík, Ármann. Það lið hefur verið á meðal fimm bestu liða undanfarinn tvö ár og því ljóst að erfiður leikur var fram undan. Drengirnir af Suðurlandinu mættu samt sem áður vel gíraðir í leikinn og tóku forustu strax á upphafs mínútum og litu aldrei í baksýnisspegilinn, lokatölur 75:50 og áframhaldandi sæti í B riðli tryggt. Leikjum laugardagsins var því lokið og við tók pizza hlaðborð, sundferð og bíósýning. Allir í gírnum og þjálfarinn gjörsamlega bugaður og byrjaður að dotta um áttaleytið. Ró komst þó á liðið á skikkanlegum tíma og var allt komið í ró um ellefuleytið og því náðu drengirnir góðri hvíld fyrir leiki sunnudagsins. Fyrri leikur seinni dags mótsins var gegn heimamönnum sem hafa á að skipa stórum og sterkum strákum sem létu vel finna fyrir sér, okkar menn stóðust þó prófið og unnu nokkuð öruggan sigur 63:56. Við tók því hreinn úrslitaleikur við Stjörnuna B sem voru nýkomnir úr A riðli og ljóst að spennustigið yrði nokkuð hátt í þeim leik. Drengirnir byrjuðu vel og leiddu allan leikinn. Á loka mínútunum hleyptu þeir þó óþarfa spennu í leikinn með því að klikka á tveimur vítum og tapa boltanum. Sigur vannst þó 53:51 og okkar menn á leið í A riðil og á næsta mót. Það verður án vafa mun erfiðara en þó við hæfi að leyfa drengjunum aðeins að njóta 😊  

https://www.hamarsport.is/wordpress/wp-admin/post.php?post=6846&action=edit

Stigahæstu leikmenn

Lúkas Aron Stefánsson  47 stig

Tristan Máni Morthens  60 stig

Birkir Máni Daðason  67 stig

Til hamingju kæru foreldrar!!! Badmintondeild Hamars var að vinna Foreldrastarfsbikar HSK 2019 fyrir öflugt foreldrastarf. Þið eigið sérstakt hrós skilið. Þið fylgið börnunum á mótin með hittingi og kaffi á Shell oft eldsnemma á morgnana. Aðstoðið yngstu keppendurna að telja stigin sín á völlunum, setjið upp Kjörísmótið okkar, mannið sjoppuvaktirnar, smyrjið brauð og bakið vöfflur. Mætið svo í fjölskyldutíma og spilið með börnunum ykkar eða mætið sum í lok æfingar og takið þátt í runu eða skotbolta. Mætið svo í fullorðinstímana ef þið viljið kynnast íþróttinni betur og svo keppum við öll saman í HSK mótinu á vorin í öllum aldursflokkum. Án ykkar væri deildin ekki eins öflug og hún er í dag. TAKK!!

Eitt silfur kom með í Hveragerði eftir helgina. Íslandsmeistaramótinu var frestað síðan í vor og gátu því ekki allir keppendur úr Hamri verið með sem höfðu ætlað sér það. Íslandsmeistarar í tvenndarleik A-flokki eru Gústav Nilsson og Guðbjörg Jóna Guðlaugsdóttir bæði úr TBR. Þau mættu Agli Sigurðssyni TBR og Hrund Guðmundsdóttur Hamar. Unnu Gústav og Guðbjörg 21-18 og 21-11.

Margrét Guangbing Hu spilaði í undanúrslitum í öllum greinum í B-flokki en vantaði bara herslumuninn að komast áfram í úrslitaleikina. Vonandi verður svo næsta Meistaramót Íslands áfram á sínum stað í apríl 2021 með fleira fólk úr Hamri í öllum greinum.

Gústav, Guðbjörg, Egill og Hrund