Karlalið Hamars spilaði 2 leiki í 2.deild Íslandsmótsins í blaki um helgina sem leið.
Leikirnir voru gegn Völsungi á Húsavík annarsvegar og Blakfélagi Fjallabyggðar (BF) hinsvegar.
Fyrir leik helgarinnar voru Hamarsmenn í 2. sæti á undan Fjallabyggð en Völsungar vermdu botnsæti deildarinnar.
Leikjafyrirkomulagið hjálpaði Hamri lítið, en eftir langan akstur norður á Húsavík voru strákarnir lengi í gang og lentu 2 – 0 undir. Þá var díselvélin hinsvegar orðin heit og með bakið upp við vegginn, unnu þeir næstu 2 hrinur og tryggðu sér oddahrinu, sem þeir svo unnu og fengu fyrir vikið 2 stig af 3 mögulegum út úr leiknum.
Fimm hrinu leikur var hinsvegar erfiður undirbúningur fyrir leikinn gegn fersku liði Fjallabyggðar daginn eftir. Eftir sannfærandi tap í fyrstu hrinu sýndu strákarnir þó betri takta og börðust hetjulega þó 3-0 tap hafi verið niðurstaðan.
Blakfélag Fjallabyggðar tefldi fram nokkuð endurnýjuðu liði með ungum og efnilegum leikmönnum. Nokkuð sem Hamarsmenn væru alveg tilbúnir að búa að en endurnýju leikmanna í liðinu hefur gengið erfiðlega undanfarin ár.
Niðurstaða helgarinnar, 2 stig af 6 mögulegum í hús og BF fór uppfyrir liðið á töflunni og Hamar er því í 3ja sæti þegar 4 leikir eru eftir af tímabilinu.