Sunddeild Hamars óskar Snæfríði Sól Jórunnardóttur innilega til hamingju með þann stórkostlega árangur að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó sem hefjast á morgun.
Snæfríður Sól byrjaði ung að árum að iðka sundið af kappi hér í sunddeildinni í Hveragerði undir stjórn Magnúsar Tryggvasonar þjálfara. Þegar hún var 11 ára flutti hún til Danmerkur og hefur æft sund þar.
Við leyfum okkur að vitna í fyrrverandi formanns sundeildarinnar, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, sem ásamt fleiri foreldrum endurvakti sunddeildina árið 2004 en þá hafði sunddeildin legið í dvala í þónokkur ár. Guðrún rifjaði upp að Snæfríður Sól var ein af fyrstu iðkendum sunddeildarinnar þarna og varð strax mjög efnileg. Hún vakti ekki síður athygli fyrir persónuleika sinn og var strax mjög metnaðarfull, kvartaði aldrei yfir æfingunum og sýndi mikla staðfestu. Þannig eiginleikar fleyta fólki langt!
Og nú hefur Sunddeild Hamars eignast hlutdeild í sínum fyrsta stórafreksmanni og það er ekki lítið.
Við óskum enn og aftur Snæfríði Sól innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og hlökkum til að fylgjast með henni á Ólympíuleikunum. Þar verður hún fánaberi Íslands ásamt Antoni Sveini Mckee og er þetta í fyrsta sinn sem fánaberar þátttökuþjóðanna verða tveir. Þau mun ganga fyrst inn á leikvanginn á eftir gríska hópnum sem alltaf gengur fyrstur inn á leikvanginn á öllum Ólympíuleikum og flóttamannaliði Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC Refugee Olympic Team). Farið er eftir japanska stafrófinu og þess vegna raðast Ísland fremst þjóða.
Setningarathöfnin hefst kl. 11 á morgun, föstudaginn 23. júlí.
Fyrir áhugasama þá mun Snæfríður Sól synda 200 m skriðsund þann 26. júlí kl. 9:55 – 12:30 og verður það sýnt beint á RÚV. Hún syndir svo 100 m skriðsund þann 28. júlí kl. 9:55 – 12:20 og verður það sýnt beint á RÚV2.
Við sendum henni góða sundstrauma héðan frá Hveragerði alla leið til Tókýó.