Leikmannahópur nýliða Hamars í úrvalsdeildinni í blaki hefur nú styrkst til muna en félagið hefur gert samning við pólskan uppspilara, Damian Sąpór.
Damian er 29 ára og hefur spilað blak frá unga aldri og varð m.a. meistari ungmenna (U21) árið 2011 með liði sínu Czarni Radom. Damian hefur síðan spilað í 2. deild í Póllandi en blakhefðin þar er afar sterk og er styrkleiki deildarkeppninnar eftir því. Það verður því gaman að sjá hvernig Damian spjarar sig í úrvalsdeildinni hér heima á komandi leiktíð.
Úrvalsdeildarráð Hamars vinnur nú hörðum höndum að því að koma lokamynd á leikmannahóp félagsins fyrir næstu leiktíð. Áður er félagið búið að semja við þá Kristján og Hafstein Valdimarssyni, landsliðsmennÍslands í blaki, en frekari frétta er að vænta af leikmannamálum liðsins á næstu dögum.
Mbk. Kristín Hálfdánardóttir, fjölmiðlafulltrúi Blakdeildar Hamars