KR-ingar komu í heimsókn í frystikistuna í Hveragerði í kvöld. Fyrir leikinn voru KR-stúlkur einungis búnar að vinna einn leik en sá sigur kom einmitt á móti gestgjöfum kvöldsins Hamri. Leikurinn byrjaði með miklum skotum utan af velli hjá báðum liðum en hvorugt liðið hitti til að byrja með, þrátt fyrir að Íris hafi opnað leikinn með flottum þrist. Það var ekki fyrr en Fanney setti upp skotsýningu að stig fóru að koma á töfluna. Fanney tók sig til og setti 4 af 5 fyrstu skotum sínum og voru þau öll fyrir utan þriggja stiga línuna eða “Down Town” eins og kaninn myndi segja það. Staðan 22-9 fyrir Hamarsstúlkur eftir fyrsta leikhluta og var Fanney komin með 12 stig og 4 fráköst. Hjá KR var Henry atkvæðamest. Annar leikhluti hófst þó með betri byrjun KR liðsins og skoruðu þær fyrstu 5 stig leikhlutans og komu muninum niður í 8 stig 22-14. Þá jafnaðist leikurinn meira út, eða þangað til að um 3 mínútur voru eftir þá gáfu KR-stelpur á bensín gjöfina og minnkuðu muninn niður í 4 stig 32-28 en leikhlutinn endaði svo með 6 stiga mun Hamri í vil 36-30. Dómgæsla leiksins var oft á köflum stór furðuleg, og alltaf er leiðinlegt þegar þarf að gagnrýna dómarann en staðan í villum í hálfleik var 8 villur á Hamar á móti 3 villum á KR. Síðari hálfleikur hófst svo með því að Hamarsstúlkur settu fyrstu fjögur stig leikhlutans áður en Þorbjörg svaraði með þrist fyrir KR og var staðan því 40-33. Mikið jafnræði var áfram með liðunum og var 5 stiga munur 50-45 fyrir síðustu sókn leikhlutans en Di’Amber lauk leikhlutanum með glæsilegum “buzzer” og kom muninum í átta stig 53-45. Þarna var Di’Amber með 22 stig en næst henni var Fanney ennþá með sín 12 stig. Hjá KR var það Henry sem var með 21 stig. Fjórði og síðasti leikhlutinn hófst svo með því að liðin skiptust á að skora eða þar til að í stöðunni 56-47 þá settu KR-stelpur vélina upp um gír og byrjuðu að saxa á forskot Hamars. Þegar ekki nema þrjár mínútur voru liðnar var munurinn komin niður í 3 stig, 58-55. Þá setti Íris niður tvö stig af vítalínunni og kom muninum í 60-55. Þá komu KR stelpur aftur með sveiflu og 60-60 og síðar 62-62, og komust svo yfir í fyrsta skiptið í leiknum 62-65 og einungis 3:30 eftir af leiknum. Di’Amber svaraði þó með þrist og staðan því 65-65. KR-stelpur skoruðu þó aftur en Di’Amber geystist þá í bakið á þeim og setti niður sniðskotið og sótti villu og fékk því eitt víta skot að auki, Það rataði síðan beint í körfuna og Hamarsstúlkur því aftur komnar yfir 68-67. Þá taka dómarar leiksins sig til og spiluðu þeir stóra rullu á síðustu tveimur mínútum leiksins. Fanney fékk sýna 5 villu fyrir litlar sakir og fékk því Henry tvö skot þar sem KR-liðið var komið í bónus. Annað vítið rataði niður og var því staðan jöfn 68-68. Þá fóru Hamarsstelpur í sókn en skot þeirra geigaði og snéru KR-stelpur vörn í sókn og endaði það með því að Sigrún Sjöfn endaði á línunni og setti bæði vítin 68-70. Di’Amber heldur í sókn með Hamarsliðinu og kemur sér í ágætis skotfæri en þá er hrint á bakið á henni og skotið geigaði. Henry nær frákastinu og Hamarsstelpur pressa KR hátt. Henry kemur sér þó yfir miðju og gefur þá boltan til baka á Björg sem kom hoppandi yfir á sóknarhelming vallarins en einhvern veginn fór það fram hjá mjög svo lélegum dómurum leiksins þeim Rögnvaldi og Gunnari. KR-stelpur fengu þess í stað galopið sniðskot sem að Henry settir niður og munurinn því orðinn 4 stig og minna en mínúta eftir. Hamars liðið átti síðan lélega sókn þar sem þær töpuðu boltanum og KR-stelpur nýttu sér það og komu muninum í 8 stig áður en Di’Amber lagaði muninn með þriggja stiga körfu. Leikurinn endaði þó á því að Helga sallaði niður tveimur stigum af línunni og sjö stiga sigur staðreynd 71-78 og KR-stelpur því komnar með tvo sigra báða gegn Hamri á meðan Hamarsstúlkur töpuðu sínum þriðja heimaleik í vetur. Atkvæðamest hjá Hamri var Di’Amber með 28 stig 7 stoðsendingar og 5 fráköst næst var Fanney með 17 stig og 8 fráköst og síðan var Marín með 10 stig og 13 fráköst. Hjá KR var Henry með 27 stig og 7 fráköst og síðan var Sigrún með 12 stig og 17 fráköst.
Það sem má taka útúr þessum leik eru þó þrjár staðreyndir
– Ebone Henry er ekkert skild fótbolta manninum Thierry Henry þrátt fyrir mikla skottækni hjá báðum leikmönnum
– Hamar er eina liðið sem KR hefur sigrað í vetur, og Yngvi þjálfari þarf að borga í sektarsjóð liðsins eftir leik kvöldsins
– Dómarar leiksins vildu ná Greys Anatomy á stöð2 í kvöld og sáu sér ekki fært um að leikurinn færi í framlengingu