Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sérstök áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og að hvetja Evrópubúa til að sameinast undir slagorðinu #BeActive til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi.

Íþróttafélagið Hamar mun í ár hvetja iðkendur og forráðamenn til að deila myndum af æfingum á samfélagsmiðlum undir myllumerkjunum #BeActive og #BeActiveHamar og vonumst við til þess að sem flestir hjálpi okkur með að gera þessa viku sem skemmtilegasta.

Við minnum einnig nemendur Grunnskólans í Hveragerði á verkefnið ,,Göngum í skólann” allan septembermánuð. Fleiri upplýsingar um Íþróttaviku Evrópu er að finna á slóðinni beactive.is ásamt lista yfir viðburði í boði.

Áfram Hamar!