8- liða úrslit Kjörísbikarsins fór fram um helgina og tóku Hamarsmenn á móti þreföldum meisturum KA í íþróttahúsinu að Skólamörk.
KA er gífurlega sterkt lið og byrjaði fyrstu hrinu af krafti og staðan var orðin 11-3 fyrir KA þegar heimamenn náðu að koma sér í gang. Þeir minnkuðu 8 stiga muninn niður í 2 stig og staðan var orðin bara 15-13 fyrir KA. Akureyringum tókst þó að sigra hrinuna 25-19. Önnur hrinan byrjaði svipuð, KA byrjaði vel og náði góðum forskot en Hamarsmenn náðu þó að berjast fyrir hvert stig og endaði hrinan 25-23 fyrr KA. Þriðja hrinan var gífurlega jöfn og spennandi út í gegn. Hörður Reynisson, frelsingi Hamars, átti stórleik og varði bæði föstum uppgjöfum og smössin frá KA-mönnum með glæsibrag. Hamarsmenn sigruðu þriðju hrinu 25-22. KA reyndust svo töluvert sterkari í fjórðu hrinu og voru lengst af með gott forskot. Þrátt fyrir að leikmenn Hamars reyndu hvað þeir gátu til að komast inn í leikinn þá reyndist það ekki nóg og hafði KA að lokum sigur 25-17. KA sigraði því leikinn 3-1 og á því ennþá möguleika á að sigra Kjörísbikarinn en Hamarsmenn eru því miður úr leik.
Þau blakhjónin Sigrún Kristjánsdóttir og Valdimar Hafsteinsson, eigendur Kjörís, gáfu svo öllum leikmönnum, starfsmönnum, dómurum og áhorfendum ís frá Kjörís eftir leikinn.
Þetta var sannkölluð veisla í Skólamörkinni. Hamarsmenn stóðu sig hetjulega á móti meisturunum að norðan og geta svo sannarlega verið stoltir af frammistöðunni sinni. ÁFRAM HAMAR!