Karlalið Hamars í blaki tryggði sér í kvöld nafnbótina meistari meistaranna þegar liðið sigraði Aftureldingu í Meistarakeppni Blaksambandsins. Hamarsmenn, sem urðu bikar, deildar og Íslandsmeistarar á síðustu leiktíð unnu leikinn örugglega 3-0 (25-17, 25-20 og 25-20). Hamar samdi nýlega við alla lykilleikmenn síðustu leiktíðar og til viðbótar lék nýr leikmaður félagsins, Tomek Leik, sinn fyrsta leik með liðinu í kvöld. Hamarsmenn virðast koma vel undan sumri og ljóst að andstæðingarnir í vetur þurfa að hafa sig alla við ef þeir ætla að ná stigum af Hvergerðingum.