Öldungamót í blaki sem heitir Rokköld í ár verður haldið í Keflavík 25. til 27. apríl. Mótið er fyrir blakara 30 ára og eldri. Blakdeild Hamars mun senda fjögur lið, tvö karlalið og tvenn kvennalið. Að sögn Barböru Meyer, formanns blakdeildarinnar, er mikill spenningur í loftinu fyrir mótinu. „Við stefnum með fjögur lið á mótið. Veturinn hefur verið kaflaskiptur hjá okkur og jafnvel ekki auðvelt með að ná í lið en svo höfum við líka spilað mjög vel inn á milli. Mjög sterkt B-lið karla mun keppa í Keflavík og er ég bjartsýn á að þeir nái góðum árangri og það væri auðvitað frábært ef þeir ná að vinna sig upp um deild. Sömu vonir hef ég um A-lið karla sem spilar í annari deild í ár, þeir unnu sig upp úr þriðju deild í fyrra og við höfum loksins fengið Kristján Valdimarson til okkar sem varð 30 ára á árinu og er orðinn löglegur öldungur á mótið. Hann mun styrkja A-lið karla svo um munar. Kristján var valinn blakmaður ársins 2018 og einnig 2017. Hann spilaði með BK Tromsö í Noregi og er einn af burðaásum í karlalandsliði Íslands. Það er búið að bíða lengi eftir að Kristján verði 30 ára svo hann getur farið með okkur á þetta stærsta mót ársins. Gaman hefði verið að fá tvíburabróðir hans líka en hann Hafsteinn er erlendis að spila svo við vonum að fá hann inn til okkar að ári. Svo erum við einnig með mjög sterkan leikmann sem libero og annað leynivopn sem diagonal. Gaman er að segja frá því að feðgar spila saman í A-liði karla, þeir Valdimar Hafsteinsson og Kristján Valdimarsson og einnig eru feðgar í B-liði karla, Hörður Reynisson og Reynir Örn Harðarson. Mannskapurinn í ár er afar góður en má ekki tæpara standa. Það er enginn varamaður í A-liði karla og ekki heldur í A-liði kvenna, þannig það er eins gott að leikmenn verða ekki fyrir meiðslum.