Strákarnir spiluðu í gærkvöldi við ÍA á skipaskaga í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins. Eftir tap í deildinni í síðustu viku mættu Hamarsmenn ákveðnir til leiks og leiddu 14-18 eftir fyrsta leikhluta. Bæði lið spiluðu sterkan varnarleik sem sást á lokatölunum en skemmst er frá því að segja að strákarnir okkar fóru með sigur af hólmi 72-80 og verða því í pottinum á morgun þegar dregið verður í 8-liða úrslitin. Hamar hefur ekki komist svona langt í bikarkeppninni síðan tímabilið 2011/2012 en þá datt liðið út í 8-liða úrstlitum fyrir KFÍ.
Nánari umfjöllun um leikinn hér að neðan sem kom á heimasíðunni karfan.is í gær.
Lið Hamars lagði Skagamenn í kvöld(gær) í 16 liða úrslitum Powerade-bikars KKÍ, en liðin mættust í Býflugnabúinu á Akranesi. Nafn Hamars verður því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslitin næstkomandi þriðjudag. Leikurinn fór rólega af stað. Bæði liðin voru varfærin í byrjun og léku góða vörn. Hamarsmenn voru þó ákveðnari þegar leið á fyrsta fjórðung og höfðu fjögurra stiga forystu að honum loknum, 18:14. Annar leikhluti var svipaður og einkenndist, líkt og leikurinn allur, af mikilli baráttu. Skagamenn náðu góðum kafla í lok hálfleiksins og náðu að jafna 34:34 þegar skammt var eftir. Hamarsmenn skoruðu hins vegar síðustu körfu hálfleiksins og leiddu að honum loknum 36:34.
Þriðji leikhlutinn reyndist eins og svo oft í vetur banabiti Skagamanna. Þeir virtust ekki ná takti í sinn leik, hvorki sóknarlega né í vörn og Hvergerðingar gengu á lagið. Hamar hafði yfir fyrir loka fjórðunginn 60:48. Sóknarleikur Skagamanna lagaðist í síðasta fjórðung og náðu þeir að minnka muninn niður í 5 stig þegar skammt lifði leiks. Vörnin hélt hins vegar ekki eins vel og náðu því heimamenn í raun aldrei almennilega að ógna sigri Hamars, sem verður að teljast sanngjarn þegar á allt er litið. Lokatölur voru 80-72 Hamar í vil.
Áfram Hamar!
Mynd; Jónas H. Ottósson frá leiknum í gær.