Það voru vaskir Völsungar frá Húsavík sem mættu á Grýluvöll í gær er Hamarspiltar léku sinn annan leik í Íslandsmóti 2. deildar KSÍ. Veðrið lék við gesti sem og leikmenn en lítið fór fyrir “fagra leiknum” að hálfu heimamanna í þetta sinn.

 

Hamarspiltar virtust ákveðnari rétt til að byrja með en fengu á sig slysalegt mark strax á 5. mínútu eftir hornspyrnu gestanna og mistalningu í vörninni. Hamarspiltar voru þó töluvert meira með boltann án þess þó að skapa sér nein alvöru færi og virtust menn svolítið taugaóstyrkir á vellinum. Spil Hamars gekk því miður svolítið út á langar kýlingar frá fyrsta þriðjungi vallarins fram á sóknarmennina sem hafa átt betri dag.

 

Allt spil upp kanta og miðju, þegar það var reynt, virtist ráðleysislegt og skilaði allt of litlu. Völsungar eru með skemmtilega blöndu ungra og vinnusamra leikmanna og svo þriggja lykilpósta, markmanns, miðvarðar og framherja af erlendu bergi brotnu. Markvörðurinn og miðvörðurinn voru sem klettar í vörn gestanna og það skapaðist alltaf hætta er framherjinn þeirra fékk boltann.

 

Undir lok fyrri hálfleiks bættu gestirnir við öðru marki eftir mistök í vörn Hamars, sending kemur yfir til vinstri þar sem bakvörður Hamars er illa staðsettur og framherji gestanna klárar á laglegan hátt. 2-0 og kominn hálfleikur.

 

Í hálfleik voru gulldrengnum Sigurði Gísla og skiptinemanum súper-Sene skipt inn á og það tók ekki nema tvær mínútur fyrir Sene að minnka muninn, staðan 1-2 og leikurinn opnaðist á ný. Það liðu þó ekki nema um sex mínútur frá Hamarsmarkinu er Völsungar skoruðu sitt þriðja mark og það annað eftir hornspyrnu er erlendi miðvörðurinn þeirra setti sitt annað mark og breytti stöðunni í 1-3.

 

Hrafnkell fékk sitt annað gula spjald fyrir kjaftbrúk á 75. mínútu, eitthvað sem á ekki að gerast eða sjást og alls ekki þegar menn eru þegar á spjaldi, og í kjölfarið rautt og brottvísun. Þetta var annað rauða spjald Hrafnkels í jafn mörgum leikjum í deildinni og því von á ágætu leikbanni hjá Kela sem þarf að huga að því alvarlega hvort það hjálpi liðinu að spila manni færri í leikjum sumarsins eður ei. Leikmaður völsungs fékk svo einnig að fjúka út af á 80. mínútu og því jafnt í liðum.

 

Er leikurinn var að renna sitt skeið á enda minnkaði súper-Sene muninn á laglegan hátt en lengra komust Hamarspiltarnir okkar ekki og 2-3 tap því staðreynd. Margt má laga í leik Hamars en þeim til hróss þá er baráttan í liðinu til staðar og þeir hætta aldrei leik fyrr en dómarinn hefur flautað af. Porca þjálfari þarf að slípa nokkra vankanta af leik liðsins og þegar það kemur er þessum leikmönnum og liðinu í heild allir vegir færir og sigrarnir fara að detta inn.

 

Næsti leikur Hamars er í Mosfellsbæ fimmtudaginn 24. maí kl. 20:00 er piltarnir okkar heimsækja heimamenn í Aftureldingu. Fylgjum strákunum okkar í Mósó og styðjum þá til sigurs.

 

Áfram Hamar!!!