Hamarsmenn gerðu góða ferð vestur á firði í gærkvöldi og sigruðu lið Vestra með 92 stigum gegn 69. Vestra menn byrjuðu leikinn betur og leiddu mest með 10 stigum 22-12. Hamarsmenn svöruðu þá með áhlaupi 10-35 og staðan í hálfleik 32-47. Hamarsmenn héldu svo uppteknum hætti er 3 leikhluti hafðist og leiddu fyrir loka fjórðunginn 47-75. Þar með voru úrslitin ráðinn og síðasti leikhlutinn aðeins formsatriði. Leikar enduðu sem fyrr segir 69-92. Örn Sigurðarson átti afbragðsleik með 24 stig og 9 fráköst. Chris Woods gerði svo 21 stig og tók 11 fráköst.

 

Næsti leikur fer fram næstkomandi mánudagskvöld í Hveragerði kl 20:00. Leikurinn var færður um einn dag en upphaflega var hann settur á Sunnudeginum.

Dregið var í bikarkeppni KKÍ nú rétt í þessu og fengu Hamarsmenn heimaleik gegn Hetti frá Egilsstöðum. Liðin mættust nýverið á dögunum í 1.deildinni, en þá bar lið Hattar sigur úr býtum. Hamarsmenn eiga því harma að hefna gegn Hetti en leikurinn er leikinn helgina 5-7 Nóvember. Hamarsmenn leika svo einnig í kvöld gegn liði Vestra í kvöld og hefst leikurinn kl 19:15 á Ísafirði.

Í vetur ætlum við að setjast niður með leikmönnum og þjálfara Hamars og spyrja þá spurninga yfir einum kaffi bolla. Fyrstur til að ríða á vaðið er þjálfari liðsins Andri Þór Kristinsson.

Hver er með versta fatastílinn? Oddur fyrirliði þegar hann mætir í bankadressinu á æfingar.

Erfiðasti andstæðingurinn: Lárus Jónsson var duglegur að ýta manni á æfingum í gamla daga

Hvert er vandræðalegasta augnablikið þitt? Í síðasta leik gegn ÍA öskraði ég NEI!! á Rúnar Inga fyrir að henda alley oop á Woods. Endaði með rosa troðslu. Minnir mann á það sem þjálfari að treysta leikmönnum til að spila leikinn.

Ein staðreynd um sjálfan þig? Mig dreymir um að sigla á seglskútu um heiminn

Skemmtilegt atvik úr leik eða frá æfingu? Rúnar Pálmason átti það til í að ganga of langt í að hrekkja liðsfélaganna. Pirraður á því hversu margir sníktu sopa úr brúsanum hjá honum, ákvað hann að blanda uppþvottalög í brúsann hjá sér og mæta með á æfingu. Rúnar varð vandræðalegur þegar Svavar Pálsson mætti fyrstur og bað um sopa. Rúnar ætlaði að beila á þessu hræddur um að vera lamin af miðherjanum en komst ekki upp með það enda Svavar dauðþyrstur eftir nokkra refsispretti. Þetta var ógeðslegt en það komu sápukúlur út úr Svavari er hann öskraði blótsyrðum og hljóp á eftir Rúnar sem sér held ég ennþá eftir þessu

Hverjir verða Íslandsmeistarar? Karlamegin get ég ekki veðjað gegn Hlyn Bæringssyni og Stjörnumönnum, enda Hlynur roslegur leiðtogi og Jaxl. Hjá stúlkunm verða það svo Skallagrímur með öflugan hóð leikmanna og góðan þjálfara.

Þá er síðasti dropinn búinn úr þessum bolla og þökkum við kærlega fyrir spjallið.

Að lokum minnum við á næsta leik sem er á Föstudaginn kemur gegn Hetti kl 19:15

 

Hamar hefur samið við erlenda leikmanninn Christopher Woods um að spila fyrir liðið í 1 deildinni á komandi tímabili. Woods er kunnugur íslenskum körfuknattleik, en hann hefur leikið hér við góðan orðstír síðastliðin fjögur tímabil. Woods hefur bæði leikið í 1 deild og efstu deild, en hann lék fyrst um sinn með Valsmönnum sem slógu okkur Hamarsmenn út í einvígi um sæti í úrvalsdeild tímabilið 2013-14. Hann lék svo einnig með Valsmönnum árið eftir, en skipti svo yfir í Snæfell. Nú síðast spilaði hann fyrir lið FSu frá Selfossi sem féll úr Dominos deildinni en þar gerði hann 27.7 stig að meðaltali og tók 11.5 fráköst. Á Íslandi er Woods að meðaltali með 25 stig, 13 fráköst og 26 framlagspunkta í þeim 89 leikjum sem hann hefur leikið. Fyrsti leikur Woods verður gegn ÍA uppá Skaga á Sunnudaginn, en fyrsti heimaleikur Föstudaginn 14.okt gegn Hetti.

 

Mynd. Sunnlenska

Hamarsmenn hafa fengið liðstyrk fyrir komandi átök í 1.deild karla, en Rúnar Ingi hefur ákveðið að ganga til liðsins frá Breiðablik þar sem hann lék á síðustu leiktíð. Rúnar Ingi hefur einnig spilað fyrir Val og Njarðvík á sínum ferli, en hefur nú ákveðið að ganga til liðs við Hamar. Rúnar gerði að meðaltali 7 stig fyrir Blika í fyrra ásamt því að skila tæpum 11 framlagsstigum að meðaltali. Fyrsti leikur Rúnar verður næst komandi Sunnudag þegar Hamarsmenn fara uppá Akranes og mæta liði ÍA, en það er jafnframt fyrsti leikurinn sem Hamar spilar á tímabilinu. Fyrsti heimaleikur liðsins er svo föstudaginn 14.okt.

 

Hjalti Valur Þorsteinsson hefur verið ráðinn styrktarþjálfari Hamars fyrir komandi átök í 1 deild karla í vetur. Hjalta Val ættu flestir Hamarsmenn að þekkja en hann spilaði með liðinu í gegnum alla yngriflokka og á 40 leiki að baki með meistaraflokk félagsins. Hjalti Valur hefur séð um styrktaræfingar fyrir strákanna í sumar og sér til þess að allir mæti í topp formi þegar blásið verður til leiks í byrjun Október. Hjalti er útskrifaður ÍAK-einkaþjálfari og verður hann Andra til aðstoðar með lið Hamars í vetur.

Hér má kynna sér störf Hjalta Vals betur

https://www.facebook.com/hjaltivalur/

Helgin 3.-4. september fór fram seinni helgin í forvali fyrir yngri landslið í körfuknattleik hjá krökkum fæddum 2002. Að þessu sinni mættu fjórir krakkar frá körfuknattleiksdeild Hamars og stóðu sig að sjálfsögðu með eindæmum vel, nú tekur við keppnistímabil hjá krökkunum þar sem þau fá frekari tækifæri á að láta ljós sitt skína og vonandi komast þau sem flest í næsta val sem fram fer um jól 2016.

Nú í sumar velur Körfuknattleikssamband Íslands nokkra aldurhópa í mismunandi landsliðsverkefni. Eitt af þessum verkefnum er æfingahópur hjá krökkum fæddum 2002, svo vel stöndum við hjá Hamri að við eigum fimm krakka sem tóku þátt í þessu landsliðsverkefni helgina 11.-12. júní. Þetta voru þau Helga Sóley Heiðarsdóttir, Gígja Marín Þorsteinsdóttir, Gunnhildur F. Hallgrímsdóttir, Guðjón Ingason og Arnar Dagur Daðason. Þessir flottu fulltrúar okkar Hamarsmann stóðu sig að sjálfsögðu öll virkilega vel og voru sjálfum sér og félaginu til sóma. Björt framtíð hjá þessum krökkum sem og körfuknattleiksdeild Hamars.

Körfuknattleiksdeild Hamars hefur staðið fyrir tveimur körfuknattleiksnámskeiðum nú í sumar. Eldri hópurinn sem voru krakkar á aldursbilinu 7-10 bekkur grunnskóla voru á námskeiði frá 17. ,maí til og með 13. júní. Í lok námskeiðsins komu síðan tveir gestir í heimsókn sem bæði eru frábærar fyrirmyndir og skemmtilegir þjálfarar, þetta voru þeir Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermannsson sem báðir spila með íslenska landsliðinu og hafa líka báðir lagt stund á háskólanám með körfuboltanum. Þeir lögðu einmitt áherslu á það við krakkana að það skifti miklu máli að lifa heilbrigðu líferni, æfa vel en líka að það skifti miklu máli að leggja sig fram í námi. Flottir gestir og flottur endir á góðu námskeiði.

Andri Þór Kristinsson skrifaði í kvöld undir samning við körfuknattleiksdeild Hamars um þjálfun á Meistaraflokki karla félagsins. Andri Þór er flestum Hamarsmönnum kunnugur en hann þjálfaði kvennalið Hamars fyrir nokkrum árum. Nú síðast var Andri þjálfari kvennaliðs Hauka sem urðu meðal annars deildarmeistarar. Andri hefur einnig þjálfað lið Breiðabliks sem og komið við sögu í þjálfun á landsliðum Íslands í yngriflokkum. Nánar síðar.