Smá spenna fyrir leik og í byrjun leiks Hamars og Stjörnunnar í 1. deild kvenna í gærkvöldi og ljóst að Hamar gat tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri en Stjarnan varð að vinna til að geta gert tilkall til bikarsins en þær eiga þó 2 frestaða leiki inni.
 
Fyrsti leikhluti jafn og liðin skiptust á að skora en mikið um mistök á báða bóga en staðan 15-16 fyrir gestina eftir fyrstu 10 mínúturnar. Fyrstu mínútur annars leikhluta voru heimastúlkur grimmari og náðu 9-1 áhlaupi áður en Kjartan tók leikhlé en forystan hélst þetta 5-10 stig fyrir Hamar fram að leikhlé og staðan í sjoppuhlé 32-22. Stjarnan skoraði aðeins 7 stig í leikhlutanum gegn 18 heimakvenna.
 
Ef einhver var að bíða eftir spennandi leik, sem fullt útlit var til, þá skjátlaðist þeim sömu hrapalega því strax eftir hlé tók Hamar leikinn í sínar hendur og rúlluðu 3.leikhluta upp 33-13 og leiddu fyrir lokahlutann 65-35. Allt virtist fara ofan í körfuna hjá heimastúlkum og leikurinn hraðari en áður. Síðasti leikhluti var jafnari en Hallgrímur þjálfari Hamars gat leyft sér að hvíla byrjunarliðið stóran hluta leikhlutans en Stjörnustúlkur hættu aldrei og bættu aðeins í undir lokin og náðu að vinna síðasta leikhlutann 17-20, lokatölur 79-56 fyrir heimastúlkur eins og fyrr sagði.
 
Bestar í liði Stjörnunnar voru Bryndís Hanna með 18 stig/11 fráköst, Kristín Fjóla með 13 stig og Bára Fanney með 11 stig en aðrar minna.
 
Hjá Hamri var Íris Ásgeris með 22 stig, Marín 16 stig, Álfhildur 14 og Jenný og Regína með 9 stig hvor en Katrín Eik var frákastahæst á vellinum með 12 fráköst, 7 stig og 4 stoðsendingar að auki.
 
Eftir leik afhenti Hannes S. Jónsson formaður KKÍ Hamarsstúlkum deildarmeistaratitilinn við mikinn fögnuð. Stjarnan þarf að vinna 1 af 2 frestuðum leikjum sem þær eiga inni til að komast í úrslitaeinvígi(við Hamar) um laust sæti í úrvaldeild og nokkuð ljóst að þá verður hart barist en úrslitakeppni 1.deildar byrjar strax í vikunni eftir páska.

Hamar vann Val í Vodafone-höllinni í gærkvöldi 78-81 í æsispennandi leik þar sem framlengingu þurfti til en sigurinn okkar drengja. Stóru mennirnir voru öflugir en Örn skoraði 28 stig og tók 14 fráköst meðan Raggi Nat tók 18 fráköst og skoraði 20 stig. Eftir stendur að Hamar getur gulltryggt 3ja sætið fyrir úrslitakeppni með sigri á FSu hér heima nk. föstudag og því skyldumæting. Alveg er óljóst hvort Valur eða Haukar fara beint upp sem sigurvegarar 1.deildar karla en á eftir okkur er svo Höttur og Þór Akureyri sem fara í 4 liða úrslit um 1 laust sæti í úrvalsdeild næsta haust. 

Rétt er að minna alla Hamarsmenn að taka frá miðvikudagskvöld einnig þar sem stelpurnar eiga heimaleik gegn Stjörnunni en þetta er síðasti leikur fyrir úrslitakeppni 2ja efstu liðanna um úrvalsdeidlarsæti og tvö efstu liðin eru jú Sjarnan og Hamar en með sigri á miðvikudag tryggir Hamar sér heimaleikjaréttin og deildarmeistara-nafnbótina.  Allir að mæta miðvikadag kl. 19.15 og föstudag kl. 19.15  ÁFRAM HAMAR

Arnar Geir Helgason er mikill stuðningsmaður Hamars og fékk fyrir nær 18 ára samfleitt starf við ritaraborð á körfuboltaleikjum félagsins viðurkennigu og nafnbótina “Stuðningsmaður ársins 2013”.   Viðurkenninguna fékk Arnar Geir afhenta á aðalfundi Hamars sl. sunnudag.

 

Eftir að hafa verið á fullu í íþróttum hér í Hveragerði á sínum uppvaxtarárum þá var ljóst að að hér færi um handbolta- og fótboltavöllinn mikið efni í báðum íþróttum með mikla yfirvegun og áhuga á boltanum. Við veikindi við lok grunnskólagöngu verða miklar breytingar í lífi Arnars Geirs og eftir að hafa greinst með æxli við sjóntaug á 16 ári fór keppnisbaráttan frá vellinum og yfir í það að yfirstíga þann sjúkdóm og fjölmarga fylgikvilla og aukaverkanir sem komu í kjölfarið.  Ljóst var að  þátttöku Arnars á vellinum var lokið, í bili að minsta kosti. Þó hann hafi ungur lent í þessu áfalli sinnti hann námi áfram og lauk stútentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og svo seinna kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands.

 

Þegar Lárus Ingi Friðfinnsson leitaði eftir starfskröftum Arnars á ritaraborði körfuboltans fyrir nærri 18 árum síðan, var hann strax til og sá þannig fram á að halda sér í hringiðu íþróttanna hér í bæjarfélaginu með þeim hætti. Arnar Geir hefur verið á nánst öllum leikjum mfl. karla og kvenna í Íslandsmóti og bikarleikjum síðan og sú vinna sem hann hefur innt af hendi fyrir Körfuknattleiksdeild Hamars algerlega ómetanleg. Ef heimaleikir Hamars (karla og kvenna) eru á að giska 25 á ári þá er ljóst að nálægt 450 leikir við ritaraborðið eru að baki og Arnar Geir enn að störfum og hvergi hættur.

 

Við þökkum Arnari Geir enn og aftur fyrir alla hans vinnu og óeigingjart starf í þágu Kkd. Hamars sl. 18 ár, svona öðlingum verður seint nóglega þakkað.

Kkd.Hamars

Lárus Ingi Friðfinnsson

Hamar vann í gær Fjölnir b í 1.deild kvenna nokkuð öruggt 79-58.  Stelpurnar leiddu allan tímann og sigurinn aldrei í hættu. Þær sitja sem fyrr í efsta sæti og eiga tvo leiki eftir í deildinni áður en úrslitarimma 2ja efstu liða fer fram um 1 laust sæti í úrlvalsdeild.

Fyrr um daginn var tilkynnt um val á yngri landsliðum Ísland til þátttöku á Norðurlandamótinu í vor og þar á Hamar 2 fulltrúa, þær Marín Laufey Davíðsdóttur (U18) og Dagný Lísu Davíðsdóttur (U16) en báðar eru að fara í 2 sinn á mótið. Til hamingju með það!

Í leiknum í gær var Íris stigahæst með 24 stig/9 stolna bolta og 5 stoðsendingar, Marín 14 stg/15 fráksöst, Katrín Eik 13 stig, Jenný 11, Bjarney 9, Álfhildur 6/11fráköst og Dagný Lísa 2 stig.

Rétt að minna á næsta leik hjá strákunum nk. föstudag hér heima gegn Hetti. Allir á völlinn.

 

 

Hamar vann sannfærandi sigur á Laugdælum í 1.deild kvenna í gær, 93-32 þar sem aldrei var spurning um úrslit leiksins. Íris Ásgeirs var með flottar tölur, 41 stig og 11 fráköst, Marín skoraði 10 stig, Dagný Lísa 8, Margrét Arnars, Álfhildur og Jenný skoruðu 7 stig hver, Freyja Fanndal 5, Rannveig 3 og þær Helga og (Katrín) skoruðu báðar 2 stig. Sunnlenskt yfirbragð var á leiknum en allir leikmenn og dómarar voru sunnlenskir og ljóst að lið Laugdæla hefur tekið miklum framförum í vetur á sínu fyrst ári í deildarkeppni.

Næsti leikur stúlknanna er 24. febrúar á móti Breiðablik úti.

Drengirnir hans Lárusar í mfl. gerðu góða ferð norður á föstudag þar sem þeir lönduðu sigri  á Þór Ak. á síðustu mínútu, 81-88. Þar áður höfðu þeir unnið Reynir Sandgerði hér heima 109-88 og sitja í 3ja sæti eins og stendur en eiga leik til góða á Hauka sem sitja í 2.sæti.  Stelpurnar hans Hadda unnu einnig Þórsara líkt og strákarnir, hér heima á laugardaginn 78-56 og sitja sem fyrr í toppsætinu með fullt hús stiga..

Bæði lið eiga leiki hér heima í vikunni, stelpurnar á miðvikudag gegn Laugdælum og strákarnir á föstudag við Þór Akureyri aftur (frestaður leikur) en báðir leikir hefjast klukkan 19.15 og hvetjum við sem flesta til að koma og Áfram Hamar.

Hamarsdrengir lutu lægra haldi fyrir Haukum í Hafnarfirði í gær 101-95 þar sem arfaslök byrjun segir allt sem segja þarf. Haukar leiddu 30-8 eftir 1.leikhluta og púðrið fór svo í að minnka muninn allan tímann og varð munurinn minnstur 6 stig (lokastaðan). Sérfræðingum ber ekki alveg saman um hvort liðið er með betri innbirgðis úrslit en Hamar vann hér heima í fyrri umferð, einnig með 6 stigum (82-76) þannig að jafnara getur þetta ekki orðið. Haukar tóku 2.sætið af okkur í kjölfarið með 16 stig en Hamar á þó leik til góða gegn Þór Akureyri og er með 14 stig í 3ja sæti.

Stigahæstir hjá okkur voru þeir Hollis með 29 stig, Þorsteinn Már með 24, Halldór Gunnar með 16 stig en aðrir minna. Nánari tölfræði úr leiknum hér.

Hamars stúlkur skutust í Borgarnes í gær og gerðu góða ferð þar sem þær hristu af sér rikið frá Valsleiknum og unnu heimastúlkur 61-79.  Þrátt fyrir slaka byrjun Hamars og góða byrjun Skallagríms þá létu okkar stelpur ekki slá sig út af laginu. Skallagrímur komst í 9-0 og 15-6 en næstu 15 stig voru Hamars og eftir það ekki aftur snúið.  Stelpurnar eru því með 20 stig eftir 10 leiki í deildinni.

Stigahæstar í Borgarnesi voru Marín með 20 stig, Dagný Lísa 17 stig og Íris 13 en alls skoruðu 8 leikmenn Hamars stigin 79 í gær.

Kvennalið Hamars mátti sín lítils gegn úrvalsdeildarliði Vals í Powerade-bikarnum í körfubolta en nokkuð stórt tap skyggði ekki á gleðina og baráttuna hjá heimamönnum sem voru á köflum mjög óheppnar með skot sín. Valsliðið mætti mjög vel stemmt til leiks og kláraði leikinn í fyrri hálfleik vel stutt af fyrirmyndar fylgdarsveit. Kannski of stórt tap gegn úrvalsdeildarliði í Hveragerði í kvöld, 39-86 en engu að síður sanngjarnt og Valskonur komnar í bikarúrslitin í fyrsta skipti í þeirra sögu.
 
Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 16 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoruðu 5, Dagný Lísa Davíðsdóttir 4, Helga Vala Ingvarsdóttir 3 og þær Rannveig Reynisdóttir, Jenný Harðardóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoruðu allar 2 stig en Álfhildur var með 9 fráköst að auki.
 
Þrír fyrrum leikmenn Hamars voru stigahæstir í liði Vals; Guðbjörg Sverrisdóttir með 16 stig, Jaleesa Butler með 15 og Kristrún Sigurjónsdóttir með 13 stig.
 
Á að giska var um 300 til 350 manns á leiknum, Lárus Ingi grillaði ofan í gesti og nokkuð var gert til að hafa umgjörðina góða. Okkar stúlkur vilja eflaust grafa þennan leik sem fyrst þar sem útileikur bíður í Borgarnesi og ekki má slaka á í baráttunni um að endurheimta sæti meðal þeirra bestu aftur. Valskonur geta í rólegheitum fylgst með viðureign Snæfells og Keflavíkur í hinum undanúrslitaleiknum og sjá hver andstæðingurinn verður í úrslitum Powerade bikarsins.

Tvær ungar Hamars-stúlkur stunda nám í vetur í Bandaríkjunum og þar stunda þær einnig körfuboltann sem þær hafa lært af Daða, Sóley og fleiri þjálfurum okkar í gegnum yngri flokkana. Þær Jóna Guðrún Baldursdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir fóru sl. haust á vegum International Experienceskiptinemasamtakana á vit ævintýranna. Þær hafa staðið sig vel í körfunni og vakið athygli þarna ytra svo um er skrifað í staðarblöðunum.

Jóna Guðrún Baldursdóttir er í Mayville í Michigan ríki og spilar þar með skólaliðinu, aðalega sem framherji og gengur rosa vel. Jóna er stigahæst liðsfélaganna og þykir öflug á vinstri hendina. Þessi frammistaða rataði í Michigan Live staðar-fréttirnar og má lesa skemmtilega grein um hana og viðtal við hana og þjálfara liðsins hér.

Kristrún Rut var í viðtali hér fyrir jólin en hún er í Dumfries í Virgina þar sem hún spilar með skólaliðinu sínu Potomac Panters. Eftir henni er tekið á vellinum fyrir sína frammistöðu einnig og staðarblað í Dumfries setti inn smá grein um Kristrúnu Rut núna í byrjun árs (sjá hér).

International Experience samtökin hafa starfað í fjölda ára og eru með skiptinema í fjölmörgum löndum. Hinn geðþekki körfuboltafrömuður og KR-ingur Sigurður Hjörleifsson veitir samtökunum forstöðu hér á landi ef einhver myndi vilja upplifa ævintýri í öðru landi í 1 ár.