Haukakonur mættu í gærkvöldi með Hardy í leikbanni og Hamarskonur sáu aukið tækifæri á sigri og gefa Hadda þjálfara góða afmælisgjöf.
Byrjunin var höktandi og lengi vel 2-2 þar til Haukakonur tóku frumkvæðið og leiddu 8-13 eftir fyrsta. Hittnin hjá okkar stúlkum léleg en þær sóttu meira inn í teig í öðrum leikhluta og komust yfir 25-24 en tveir þristar Haukamegin kveikti aftur í þeim rauðklæddu. Staðan í hálfleik 29-35.
Lítið breyttist staðan í þriðja leikhluta sem Hamars stúlkur unnu þó 22-21 og hittnin aðeins að skána. Haddi og Oddur voru að rúlla á 7 -8 stelpum.
Fjórði leikhluti byrjaði með fyrstu 3 stigunum gestanna áður en þjálfarateymið tók leikhlé okkar megin, 49-57 og rétt um 7 mínútur eftir. Ræða afmælisdrengsins var ekkert falleg “afmæliskveðja” og Hamars stúlkur svöruðu kallinu með næstu 7 stigum frá Þórunni og vörnin að smella hjá Hamri. Sydnei skoraði svo næstu 5 stigin eftir góða pressuvörn okkar og 62-57 og tvær og hálf eftir. 13 stig í röð hjá Hamri en Haukakonur héldu sér í leiknum með næstu 4 stigunum og 62-61 þegar um 1 mínúta var eftir. Hamar hélt góðri vörn það sem eftir lifði leiks og Sóley setti 3 víti á lokakaflanum við mikinn fögnuð í Frystikistunni, 65-61 sigur.
Gaman að sjá foreldra og fjölskyldumeðlimi þeirra Döllu og Heiðu mæta og rífa stemminguna í gang hjá okkur en þessi sigur var kærkomin sem stelpurnar áttu sannarlega skilið. Mikil breyting á vörn og spilamennsku almennt eftir áramót þar sem Dalla hefur sérstaklega farið hamförum eftir jólasteikina og freiri farnar að koma inn með gott framlag og góða liðheild. Að sjálfsögðu tóku stelpurnar svo afmælissönginn í lokin fyrir Hadda.
Til gamans smá tölfræði hjá Döllu það sem af er ári (meðaltal); 16,8 stig/12,8 fráköst/5,5 blokkuð skot/26,0 framlagsstig pr. leik.
Stig Hamar: Sydnei Moss 19/8 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 16, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 14/12 fráköst/8 varin skot, Heiða B. Valdimarsdóttir 7/8 fráköst, Sóley Guðgeirsdóttir 5/9 fráköst, Hafdís Ellertsdóttir 2/3 fráköst, Helga Vala Ingvarsdóttir 2, Jóna Sigríður Ólafsdóttir 0, Vilborg Óttarsdóttir 0, Erika Mjöll Jónsdóttir 0.