Nú á dögunum skrifuðu meistaraflokkur Hamars undir samstarfssamning við VÍS. 
 
Þetta er eitt af mörgum atriðum sem Hamar er að vinna að til þess að knattspyrnudeild gangi sem best.
 
Á meðfylgjandi mynd eru til vinstri Guðmundur Þór Guðjónsson fyrir hönd Hamars og Smári Kristjánsson umdæmisstjóri VÍS á suðurlandi.

Leikurinn var varla byrjaður þegar Gróttumenn voru komnir í 1-0 eftir 40 sek.  Þar var að verki Pétur Már Harðarson.

 Það tók ekki nema sjö mínútur í viðbót fyrir Gróttu að skora sitt annað mark í leiknum og staðan orðin 2-0 á 8 mín og marka skorarinn Jens Elvar Sævarsson.
 
Á 22 mín skoruðu svo Gróttumenn sitt þriðja mark og skelfileg byrjun Hamarsmanna staðreynd.  Staðan orðin 3-0 og aðeins 22 mínútur liðnar.  Markaskorari Gróttu Hermann Ármannsson.
 
Það var svo á 27 mínútu sem nýr leikmaður Hamars Samúel Arnar Kjartansson skoraði fyrir okkur í sínum fyrsta leik.  3-1 á 27 mínútu.
photo 1 (1)
 
Ingó og Samúel Arnar.
 
Það tók Gróttumenn ekki nema tólf mínútur að ná aftur þriggja marka mun með öðru marki Péturs Más Harðarsonar og staðan orðin 4-1 eftir 39 mínútur.
 
Þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.
 
Hamarsmenn komu miklu betur stemmdir til seinnihálfleiks en þeir spiluðu þá á móti mjög sterkum vindi og á 50 mínútu minnkuðu þeir munin í 4-2 eftir að Samúel Arnar Kjartansson átti skot að marki sem fór af Gróttumanni og skráðist þetta mark sem sjálfsmark.
 
Eftir þetta var leikurinn nokkuð tíðindalítill og unnu Gróttumenn því þægilegan 4-2 sigur.

Þetta var fyrsti alvöru leikur undir stjórn nýs þjálfara Ingólfs Þórarinssonar.

Hamarsmenn byrjuðu með látum og strax á sjöttu mínútu skoraði fyrirliðinn Ingþór Björgvinsson glæsilegt mark.  Ingþór lék á varnarmann og átti þrumuskot sem hafnaði uppi í samskeytunum, 0-1 fyrir Hamar.
photo 1 (2)
 
Það tók leikmenn Reynis S. ekki nema fimm mínútur að jafna leikinn, þar var að verki Birkir Freyr Sigurðsson, 1-1 og ellefu mínútur liðnar af leiknum.
 
Fimm mínútum eftir að Reynir S. hafði jafnað skoraði nýr leikmaður Hamars Markús Andri Sigurðsson glæsilegt mark, 1-2 fyrir hamar og aðeins 16 mínútur liðnar af leiknum.
photo (2)
 
Hamarsmenn voru nánast enn að fagna þegar Deividas Leskys jafnaði aftur fyrir Reyni S. aðeins fjórum mínútum eftir að Hamar hafði komist yfir, 2-2 og 20 mínútur liðnar.
 
Eftir þessa fjörugu byrjun gerðist lítið og staðan því 2-2 í hálfleik.
 
Það voru ekki liðnar nema sex mínútur af seinni hálfleik þegar Birkir Freyr Sigurðsson skoraði sitt annað mark í leiknum og Reynir S. komið yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 3-2 og 51 mínúta liðin af leiknum.
 
Á 71 mínútu skorar svo Aron Örn Reynisson fyrir Reyni S. eftir mistök hjá markmanni Hamars og staðan orðin 4-2.
 
Það var svo á 84 mínútu að Reynir S. gerði út um leikin með marki frá Þorsteini Þorsteinssyni og staðan orðin 5-2.
 
Þrátt fyrir þetta tap voru margir jákvæðir punktar í þessum leik og er ekkert annað en að girða sig í brók og snúa blaðinu við í næsta leik á móti Gróttu á laugardaginn næsta.

Markús Andri er genginn til liðs við Hamar en hann er miðjumaður. Markús Andri er 22 ára gamall og kemur frá félaginu Augnablik. Hann kemur til með að styrkja lið Hamars verulega á tímabilinu. 

 

 

Samúel Arnar Kjartansson er gengin til liðs við Hamar frá Ými.  

 Samúel hefur spilað 39 leiki fyrir HK og skorað 6 mörk fyrir þá, einnig á Samúel 38 leiki fyrir Ými og hefur hann skorað 34 mörk í þeim leikjum. 
 
Það er athyglivert að Samúel spilaði aðeins þrjá leiki fyrir Ými í fyrra en skoraði sjö mörk fyrir þá í þeim leikjum.

Það eru miklar vonir bundnar við Samúel á þessu tímabili hjá Hamri og bjóðum við hann velkominn.

Ingþór og Tómas Ingvi hafa skrifað undir tveggja ára samning við Hamar.

 
Ingþór hefur verið einn af mátarstólpum Hamars undanfarin ár og verið fyrirliði liðsins, það er því mjög ánægjulegt að hann verði hjá okkur á næstu árum.
 
Tómas Ingvi er að stíga sín fyrstu skref með mfl. Hamars.  Hann er mjög efnilegur framherji og skoraði meðal annars sigurmark Hamars gegn KV síðasta sumar.
photo 3 (6)
 
Ævar Sigurðsson og Tómas Ingvi Hassing við undirskrift.
 
Við í knattspyrnudeild óskum þeim til hamingju með samningana.

 Jón Guðmundsson, fyrsti formaður knattspyrnudeildar Hamars, féll frá nú í janúarmánuði. Jón var drengur góður, vildi öllum vel og vildi allt fyrir alla gera. Jón var vakinn og sofinn yfir starfi knattspyrnudeildarinnar og vann ötullega að uppbyggingu knattspyrnuíþróttarinnar í Hveragerði í sinni formannstíð. Það fór varla fram knattspyrnuleikur hjá Hamri öðruvísi en að Jón væri viðstaddur, hvetjandi sitt fólk áfram. Knattspyrnuiðkendur Hamars eiga Jóni mikið að þakka, án hans eljusemi og ástríðu er óvíst hvernig umhorfs væri hjá knattspyrnudeildinni í dag. Jón var frumkvöðull og hugsjónamaður, hann lagði líf sitt og sál í að koma knattspyrnudeildinni á koppinn á erfiðum og umhleypingasömum tímum. Jón markaði djúp spor í sögu knattpyrnudeildarinnar, hann var hvers manns hugljúfi, sanngjarn, réttsýnn, jákvæður, skynsamur og umfram allt góður maður. Menn eins og Jón eru fyrirmyndir, fyrirmyndir þeirra sem gefa frítíma sinn í þágu annarra án þess að óska einhvers í staðinn. Á lokahófi meistaraflokks knattspyrnudeildarinnar árið 2006, var Jóni veitt viðurkenning fyrir hans störf  og hann um leið útnefndur sem fyrsti heiðurfélagi knattspyrnudeildarinnar. Þurfti að beita Jóni umtalsverðum fortölum til að taka við þeirri viðurkenningu, enda var Jón hógvær með eindæmum og ekki mikið fyrir að trana sér fram. Við syrgjum fráfall Jóns og vottum fjölskyldu hans okkar samúð. Um leið og við kveðjum Jón með söknuði, viljum við þakka, minnast og gleðjast yfir þeim tíma og því starfi sem hann gaf af sér í þágu knattspyrnudeildarinnar.

Hjörtur Sveinsson

Verðlaunahafar

Jón útnefndur

Björn Metúsalem Aðalsteinsson

 

Hefur verið útnefndur sem:

 

Knattspyrnumaður Hamars árið 2013

 

Björn byrjaði að spila með Mfl Hamars árið 2009. Hann hefur því leikið fimm tímabil með flokknum, spilað 101 leik og verið markmaður liðsins.

 

Hann var einn af lykilmönnnum liðsins árið 2013, spilaði alla leiki liðsins í deild og bikar eða 25 talsins. Björn hélt markinu hreinu þrisvar á erfiðu tímabili.

 

Hann hefur bætt sig gríðarlega sem knattspyrnumaður á síðasta ári, styrkt sig líkamlega og þroskast sem leikmaður.

 

Björn er góð fyrirmynd innan sem utan vallar og er vel að titlinum kominn sem Knattspyrnumaður Hamars árið 2013.

 

Við í knattspyrnudeild óskum Birni til hamingju.

IMG_7586  

Ævar Sigurðsson og Björn Metúsalem

 

Firma- og hópakeppni knattspyrnudeildar Hamars verður leikin laugardaginn 22. mars í Hamarshöllinni í Hveragerði. Það er alltaf gott veður í Hamarshöllinni og er hitastigið þar eins og á mildu vorkvöldi í Suður Evrópu. 

Nú er tækifæri fyrir lið, hópa og bara hverja sem er til að koma saman og leika fótbolta við bestu aðstæður á Suðurlandi. 

 

Fyrirkomulag mótsins: 
-Leikið er í liðum, 6 á móti 6.

-Leikið er eftir reglum KSÍ um keppni 7 manna liða. 
Stærð vallar er 42 x 32 metrar (1/4 af fullum velli). 

-Leiktími hvers leiks er 1 x 12 mín.

-Hvert lið leikur að lágmarki 4 leikir.

-Hver leikmaður er aðeins hlutgengur með einu liði í mótinu.

-Dómgæsla er í höndum mótshaldara. 

Verðlaun:

Öll þátttökulið fá viðurkenningu og verðlaun. Verðlaunapeningar verða veittir fyrir þrjú efstu sætin og hlýtur sigurliðið einnig bikar og vegleg verðlaun frá styrktaraðilum. 

Skráning:

Þátttöku ber að tilkynna í síðasta lagi mánudaginn 17. mars á netfangið avar75@gmail.com eða  í síma : 698-3706

Þar sem takmarkaður fjöldi liða kemst að gildir „fyrstur kemur, fyrstur fær“.

Með þátttökutilkynningunni er nauðsynlegt að með fylgi upplýsingar um nafn tengiliðs hjá viðkomandi liði ásamt símanúmeri og netfangi.

Þátttökugjald í firma- og hópakeppnina er kr. 15.000,- á lið sem ber að greiða um leið og mótshaldari hefur staðfest þátttöku viðkomandi liðs.

 

 

Búið er að draga í fyrstu tvær umferðir í Borgunarbikar karla. Fyrsta umferðin fer fram laugardaginn 3. maí en önnur umferðin er á dagskrá tíu dögum síðar.

Hamar fékk heimaleik á móti Snæfell sem spilaður er laugardaginn 3. maí.  Ef Hamar slær út Snæfell fáum við annan heimaleik þriðjudaginn 13. maí á móti KFR eða Álftanes.