Kæru stuðningsmenn og aðrir Hvergerðingar

Nú er frábæru knattspyrnusumri lokið hjá meistaraflokki karla í Hamri.  Er gaman að rifja upp þegar ég settist niður með stjórninni í nóvember og við ræddum um hvað við vildum fá út úr sumrinu eftir erfitt ár í fyrra. Við vorum allir sammála um að nú þyrfti að byrja á byrjun, það þyrfti að búa til kjarna af heimamönnum sem myndu vera í aðalhlutverki í Hamars liðinu til næstu ára.

Það markmið náðist og gott betur en það, af þeim 29 leikmönnum sem spiluðu fyrir Hamar í sumar komu 21 frá Hveragerði.  Árangurinn lét heldur ekki á sér standa, 8 leikir unnust og aðeins 4 töpuðust með minnsta mögulega mun. Oft var boðið uppá markaveislu þar sem Hamar skoraði að meðaltali 4 mörk í leik.

Mikill hugur var í leikmönnum,  sem settu það markmið fyrir sumarið að komast í úrslitakeppnina, það eina sem skildi að Hamar og efstu lið riðilsins, var reynsluleysi.  Sem dæmi um það voru 8 leikmenn af þeim 11 sem byrjuðu í svokölluðum úrslitaleik á móti ÍH, 20 ára eða yngri.

Framtíðin er björt í Hveragerði og líkur eru á að flestir leikmenn sem voru í sumar verði áfram með okkur næsta sumar.  Stefnan verður því sett á að gera enn betur.

Umgjörðin utan um heimaleiki var frábær og stuðningur ykkar var ómetanlegur.  Það er ótrúlega mikilvægt fyrir ungt lið Hamars að finna stuðning, enda er oft sagt að góður stuðningur sé eins og tólfti leikmaðurinn.

Um leið og ég vil þakka ykkur fyrir sumarið vonast ég til að sjá ykkur á vellinum næsta sumar.

 

Með fótboltakveðju

Ólafur Hlynur                                                                                                          Ólafur Hlynur 3

Hamar tók á móti Létti s.l Fimmtudag á Grýluvelli í mikilvægum leik um sæti í úrslitakeppni 4. deildar. Fyrir leikinn var Hamar í 3.sæti riðilsins með 15 stig og Léttir í 4. sæti með 12 stig. Léttir vann fyrri leik liðana 2-1.

Margir áhorfendur voru mættir á völlinn og létu vel í sér heyra og studdu Hamarsmenn áfram í sínum leik. Leikurinn byrjaði rólega og voru Léttismenn þéttir fyrir og voru staðráðnir í því að loka á öfluga sóknarmenn Hamars. Hamar var meira með boltann í fyrri hálfleik án þess að skapa sér mikið af opnum marktækifærum. Daníel fékk eitt gott færi í fyrri hálfleik sem fór í hönd varnarmanna Léttis inní vítateig en dómari leiksins dæmdi ekki neitt. Hamar lét boltann ganga ágætlega á milli sín í fyrri hálfleik en náðu ekki að opna Léttismenn nægilega vel. Léttir fengu líka hálffæri í fyrri hálfleik sem þeir nýttu ekki. Staðan í hálfleik var markalaus. Í seinni hálfleik hélt leikurinn áfram eins og í fyrri hálfleik, Léttir lá mikið til baka og Hamar héldu boltanum vel. Sóknarþungi Hamarsmanna ókst í seinni hálfleik og náðu þeir að brjóta ísinn á 77. mínútu. Þá unnu Hamarsmenn boltann á sínum vallarhelming og komu boltanum innfyrir á Hermann sem var kominn að markmanninum og lagði svo boltann óeigingjarnt til hliðar á Daníel sem var fyrir opnu marki og lagði boltann snyrtilega í netið. Allt varð vitlaust á Grýluvelli og fögnuðu áhorfendur gríðarlega. Eftir þetta opnaðist leikurinn töluvert og komst Hermann einn innfyrir en setti boltann framhjá. Á 90. mínútu skoraði svo Daníel sitt annað mark eftir frábæra sendingu frá Frissa. Lokatölur 2 – 0 fyrir Hamar og var þetta gríðarlega mikilvægur sigur hjá Hamri sem eru núna í góðum séns að ná sæti í úrslitakeppninni.

Hér má sjá brot úr leiknum.

Byrjunarlið Hamars.

Nikulás

Helgi – Hákon – Fannar – Tómas

Stefán – Máni

Daníel – Ölli – Logi

Hermann

Skiptingar

72. mín: Logi (ÚT) – Frissi (INN)

90. mín: Hermann (ÚT) – Brynjar (INN)

92. mín: Stefán (ÚT) – Hafsteinn (INN)

92. mín: Máni (ÚT) – Hafþór Vilberg (INN)

94. mín: Daníel (ÚT) – Indriði (INN)

Ónotaðir varamenn

Hlynur og Ómar.

 

Næsti leikur er mánudaginn 27. Júlí gegn Árborg á Selfossi. Það er annar mjög mikilvægur leikur um að komast í úrslitakeppnina. Hvergerðingar standa sig gríðarlega vel í að styðja við liðið og væri gaman að sjá Hvergerðinga yfirtaka stúkuna á Selfossvelli í þessum leik.

ÁFRAM HAMAR!!

Hamarsmenn spiluðu fyrsta leikinn í seinni umferð íslandsmótsins s.l fimmtudag gegn Stokkseyri. Hamar hafði unnið fyrri leik liðana 6 – 1 á Grýluvelli. Hamar hafði unnið þrjá leiki í röð áður en þeir fóru til Stokkseyri og voru búnir að skora mikið af mörkum í undanförnum leikjum.

Gaman var að sjá hversu margir Hvergerðingar voru mættir á völlinn til að styðja sína menn. Leikurinn byrjaði rólega og var mikið um stöðubarráttur og létu stórir og sterkir leikmenn Stokkseyrar finna fyrir sér. Á 13. mínútu fékk Daníel boltann rétt fyrir utan teig og skaut að marki, boltinn lak inn og Hamar var komið með forrystu í leiknum. Á 22. mínútu dæmdi góður dómari leiksins vítaspyrnu á Hamar sem Stokkseyri skoraði úr. Hamarsmenn voru ekki lengi að kvitta fyrir það og á 29. mínútu skoraði Hermann gott mark og kom Hamar yfir aftur. Á 33. mínútu skoraði svo Daníel sitt annað mark og sitt 10. mark í sumar. Staðan var 1 – 3 fyrir Hamar í hálfleik. Barráttan hélt áfram í seinni hálfleik og voru Stokkseyri harðir í horn að taka. Hamarsmenn náðu reyndar að spila boltanum aðeins betur á milli sín í seinni hálfleik. Á 62. mínútu skoraði Stefán eftir góða fyrirgjöf Daníels. Hamarsmenn gerðu nokkrar breytingar á sínu liði og þeir sem komu inná áttu mjög flotann leik. Varamaðurinn Ómar skoraði af harðfylgni á 77. mínútu. Hamarsmenn héldu áfram að sækja og áttu fullt af færum en inn vildi boltinn ekki fyrrenn á 86. mínútu þegar Brynjar Elí skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Hákoni. Leikurinn endaði 1 – 6 líkt og fyrri leikur liðanna. Þetta var ekki best spilaði leikur Hamarsmanna, en mjög sterkt hjá þeim að skora 6 mörk þó að þeir hafi ekki átt sinn besta dag.

Myndband frá leiknum.

Byrjunarlið Hamars.

Nikulás

Helgi – Hákon – Fannar – Tómas

Stefán – Máni

Logi – Ölli – Daníel

Hermann

Skiptingar.

52. mín: Fannar (ÚT) – Friðbjörn (INN)

65. mín: Logi (ÚT) – Brynjar (INN)

67. mín: Máni (ÚT) – Jorge (INN)

75. mín: Nikulás (ÚT) – Hlynur (INN)

75.mín: Daníel (ÚT) – Ómar (INN)

Ónotaðir varamenn

Indriði og Hafþór Vilberg.

 

Næsti leikur Hamars er svo á Grýluvelli n.k fimmtudag kl 20:00. Þá taka þeir á móti Létti. Um er að ræða mikilvægan leik í barráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Hamar tapaði fyrri leik liðanna en eru staðráðnir í því að bæta úr því í þessum leik.

ÁFRAM HAMAR!!

Hamar gerði sér ferð til Hornarfjarðar s.l Laugardag og spiluðu leik við Mána. Um var að ræða síðasta leikinn í fyrri umferð íslandsmótsins. Fyrir leikinn höfðu Hamarsmenn unnið tvo leiki í röð.

Á 2. mínútu leiksins fengu Hamarsmenn innkast sem Ölli tók, varnarmaður Mána skallaði boltann aftur útúr teignum til Ölla sem skaut boltanum snyrtilega yfir markvörð Mána, Hamar var komið með forrystu í leiknum eftir aðeins tvær mínútur. Eftir 12 mínútur fengu Hamarsmenn aftur innkast og barst boltinn til Daníels sem sendi boltann fyrir markið og fór í varnarmann Mána og inn í markið. Á 15. mínútu fékk svo Hermann boltann innfyrir vörn Mána og fór framhjá markverðinum og setti boltann inn í markið úr þröngri stöðu. Staðan var orðinn 3-0 eftir aðeins 15. mínútur. Eftir þetta róaðist sóknarleikur Hamarsmanna aðeins og komust Mánamenn betur inn í leikinn. Á 25 mín voru Hamarsmenn klaufar og brutu á sér inn í vítateig, leikmaður Mána skoraði örruglega framhjá Nikulási úr vítaspyrnunni. Á 30. Mínútu fengu svo Hamarsmenn Hornspyrnu sem Þorlákur Máni tók, þar var það Ölli sem skaust framhjá varnarmanni og skallaði boltann í netið. Bæði lið áttu svo tilraunir að bæta við fleirri mörkum í leikinn enn inn fór boltinn ekki. Staðan í hálfleik var 1 – 4 fyrir Hamar. Í byrjun seinni hálfleiks róaðist leikurinn svolítið en Hamar áttu nokkur marktækifæri. Á 75. mínútu komst Hermann einn innfyrir vörn Mána og setti boltann framhjá markverðinum. Mínútu síðar var röðin komin að Daníel að skora, hann kom Hamar í 1-6 með góðu marki. Svo á 85. mínútu skoraði hann svo sitt annað mark og kom Hamar í 1-7. Á 86. mínútu voru svo Hamarsmenn kærulausir og náðu Mánamenn að skora sitt annað mark. En Daníel var svo ekki lengi að leiðrétta það og skoraði sitt þriðja mark í leiknum mínútu síðar. Lokatölur 2-8 á Hornafirði.

Hamar er nú í 3. sæti riðilsins eftir sex leiki. Það komast tvö lið uppúr riðlinum og eru þeir einu stigi frá ÍH sem er í öðru sæti. Spennann fyrir seinni umferðina er mikil og þurfa Hamarsmenn bara að treysta á sjálfa sig í næstu leikjum.

Stöðutafla þegar mótið er hálfnað.

1 Árborg 6 5 1 0 20  –    3 17 16
2 ÍH 6 4 1 1 25  –    6 19 13
3 Hamar 6 4 0 2 24  –    8 16 12
4 Léttir 6 4 0 2 20  –  11 9 12
5 Stokkseyri 6 2 0 4 12  –  28 -16 6
6 Máni 6 1 0 5   7  –  23 -16 3
7 Kóngarnir 6 0 0 6 6 – 35 -29 0

Myndband frá leiknum

Byrjunarlið:

Nikulás

Hafþór Vilberg – Hákon – Fannar – Indriði

Ölli – Máni – Stefán

Logi – Daníel

Hermann

Skiptingar

62. mín Logi (ÚT) – Ómar (INN)

65. mín Ölli (ÚT) – Helgi (INN)

72. mín Stefán (ÚT) – Tómas (INN)

72. mín Hermann (ÚT) – Jói Snorra (INN)

74. mín Nikulás (ÚT) – Hlynur (INN)

Ónotaðir varamenn

Brynjar Elí – Friðbjörn.

Hamar - Máni

Næsti leikur Hamarsmanna er útileikur gegn Stokkseyri. Leikurinn er n.k fimmtudag kl 20:00. Hvergerðingar eru hvattir til að taka sér smá bíltúr og kíkja á leikinn!

Knattspyrnuskóli - Auglýsing

Hamarsmenn mættu toppliðinu ÍH á gervigrasinu í Úlfarársdal á fimmtudaginn. 5 fastamenn vantaði í lið Hamars og því var fyrirfram búist við erfiðu verkefni fyrir hið unga Hamars lið. Í fjarveru Ölla og Hlyns var Indriði fyrirliði. Hamars menn byrjuðu leikinn betur og var betra liðið í fyrri hálfleik. Varnarleikur liðsins var agaður og menn voru gríðarlega vinnusamir á meðan ÍH átti í erfiðleikum með að finna takt í sínum leik. ÍH menn brutu mikið af sér og það var einmitt eftir eina aukaspyrnuna sem fyrsta mark Hamars leit dagsins ljós þegar brotið var á Hemma en hann tók spyrnuna strax og sendi inn fyrir á Danna sem rendi honum fyrir markið á Loga sem skoraði af stuttu færi. Aðeins 3 mínutum síðar eða eftir 44 mínutur skorar Hamar gott mark eftir uppspil frá Stebba og Loga, sendir Stebbi boltann fyrir þar sem Danni skallar boltann inn af stuttu færi. Staðan 2 – 0 fyrir Hamar í hálfleik. Hamar byrjaði seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri af aga og menn héldu áfram vinnuseminni og unnu vel fyrir hvorn annann. eftir 60 mín fengu Hamarsmenn vítaspyrnu þegar varnarmaður ÍH handlék knöttinn inni í teignum en markvörður ÍH varði slaka spyrnu Danna. Eftir 70 mín leik dæmir góður dómarin leiksins enn eina aukaspyrnuna á ÍH og setti Hemmi boltann á fjærstöng þar sem Logi kom manna fyrstu og setti boltann inn af stuttu færi. 3 – 0 sigur Hamarsmann staðreynd en sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri þar sem menn fóru illa með nokkur góð færi.

Með sigrinum skilja 4 stig ÍH og Hamar af en Hamar á einn leik til góða þegar það fer austur á Hornafjörð um næstu helgi og spilar við Mána.

 

Byrjunarliðið

Nikki

Haffi – Fannar – Hákon – Indriði (f)

Máni – Stebbi – Logi

Frissi – Hemmi – Danni

Varamenn

Brynjar – Frissi

Hafsteinn – Stebbi

Diddi – Hemmi

Aron – Danni

Hamarsmenn tóku á móti Kóngunum í A-riðli 4. deildar í prýðilegu veðri á fimmtudagskvöldið. Fyrirfram var búist við léttum leik og öruggum sigri Hamars og var byrjunarlið Hamars og hópurinn í heild skipaður heimamönnum að mestu leyti. Annað kom á daginn í fyrri hálfleik og voru okkar menn ekki í takti við leikinn og kannski búist við að það væri eingöngu formsatriði á klára leikinn. Hamars menn komust í 1-0 með marki frá Danna sem átti heldur betur eftir að koma við sögu í leiknum og skora þrennu áður en yfir lyki. Kóngarnir jafna með marki úr vítaspyrnu þar sem varnarmistök valda þvi að markvörður Hamars er seinn í boltann og brýtur á sóknarmanni Kónganna og uppskar beint rautt spjald að launum. Klárt víti en aldrei undir neinum kringumstæðum rautt spjald. Ölli skellir sér hanskana og reynir fyrir sér í markinu öruggt víti sendi fyrirliðann í rangt horn. Fyrri hálfleikur hálfnaður og Ölli stóð vaktina í markinu fram að leikhléi. Ekkert gekk hjá Hamri í fyrri hálfleik en leikar stóðu 1-1 eftir dapran fyrri hálfleik. Ólafur Hlynur gerði fjórar breytingar í hálfleik og komu menn talsvert sprækari til baka í seinni hálfleik þar sem áhorfendur fengu að sjá brot af því sem í heimamönnum býr. Jói Snorra tók að sér markmannshlutverkið og Ölli fór aftur inn á miðjuna. Spilið batnaði með hverri mínútunni og eftir ca 60 mínútna leik var Danni aftur á ferðinni og staðan orðin 2-1. Sex mínútum síðar er Logi á ferðinni og leikur snyrtilega á tvo varnarmenn Kónganna og setur boltann glæsilega netið. Staðan 3-1 og Kóngarnir fallnir úr hásæti sínu. Danni fullkomnar svo þrennuna úr vítaspyrnu. Undir lok leiksins gerir svo Ölli stálheiðarlega tilraun til að stela klaufalegu sjálfsmarki markvarðar Kónganna en dómarinn sá í gegnum það og Ölli fékk markið ekki skráð á sig. 5-1 lokatölur þar sem Hamar var síst betri aðilinn í fyrri hálfleik en tóku sig svo taki og lönduðu öruggum sigri og þremur stigum í hús.

Hamar spilaði sinn annann leik á Íslandsmótinu gegn Létti s.l Fimmtudag á Hertz vellinum í Breiðholti. Hamar vann Stokkseyri 6 – 1 í fyrstu umferðinni en Léttir var að spila sinn fyrsta leik í mótinu. Léttir hafa unnið tvo leiki í bikarkeppninni og eru komnir í 32-liða úrslit þar sem þeir mæta ÍBV.  Hamar og Léttir mættust í æfingaleik í vetur sem Hamar vann 4 – 2.

Hamarsliðið var nokkuð breytt frá síðasta leik þar sem meiðsli og veikindi voru að hrjá leikmenn Hamars. Hamar byrjuðu leikinn ágætlega og voru mikið með boltann í byrjun liðs. Léttir láu til baka og voru þéttir fyrir. Hamarsmönnum gékk erfilega að komast í opin marktækifæri í fyrri hálfleik en fengu fullt af hornspynum og aukaspyrnum sem þeir náðu ekki að nýta fyrren á 35. mínútu. Þá tók Jorge aukaspyrnu frá hægri og skrúfaði hann að marki Léttis, boltinn hrökk af varnarmanni Léttis og inn í markið. Eftir þetta komust Léttir meira inn í leikinn en staðan í hálfleik var 1-0 fyrir Léttir. Í seinni hálfleik voru Léttir betri aðilinn, þeir komu með liðið sitt ofar á völlinn og höfðu stjórn á leiknum. Á 63. mínútu fengu svo Léttir vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr. Staðan var jöfn og var hart barist um allann völl. Hamarsmenn voru komnir meira inn í leikinn og áttu að fá vítaspyrnu þar sem Ómar var tæklaður niður af markmanni Léttis en ágætur dómari leiksins dæmdi ekki neitt. Á 87.mínútu skoruðu svo Léttir mark eftir misskilning í vörn Hamars. Eftir þetta reyndu Hamarsmenn eins og þeir gátu að jafna leikinn en það gekk ekki og lokatölur voru 2 – 1 fyrir Léttir. Grátlegt tap á síðustu mínútum leiksins. Hamarsmenn áttu ekki sinn besta dag en þeir eru staðráðnir í því að bæta sinn leik fyrir næsta leik sem er gegn Árborg á heimavelli.

24 - Jorge

Jorge skoraði mark Hamars í leiknum.

Byrjunarlið Hamars

Markvörður: Hlynur Kára

Varnarmenn: Helgi – Hákon – Fannar – Tómas.

Miðjumenn: Ölli – Jorge – Hans Sævarsson

Kantmenn: Frissi – Logi

Framherji: Hermann:

Skiptingar:

46. mín: Hermann (ÚT) – Stefán (INN)

58. mín: Hans (ÚT) – Ómar (INN)

62. mín: Hákon (ÚT) – Indriði (INN)

82. mín: Jorge (ÚT) – Hafsteinn (INN)

89. mín: Fannar (ÚT) – Diddi (INN)

Ónotaðir varamenn:

Jói Snorra og Ásgeir.

Næsti leikur Hamars er gegn 10. Júní gegn Árborg á Grýluvelli. Vonandi munum við sjá jafnmarga á vellinum líkt og á siðasta heimaleik okkar.

ÁFRAM HAMAR!

Hamar spilaði sinn fyrsta leik á íslandsmótinu s.l föstudag. Hamar tók þá á móti Stokkseyri á Grýluvelli. Þetta var fyrsta viðureign liðana á íslandsmóti, liðin hafa einungis einu sinni mæst og var það í Lengjubikarnum fyrr á árinu. Hamar vann þann leik 2 – 0.

Hamar byrjuðu leikinn af krafti og sóttu að marki Stokkseyrar frá fyrstu mínútu. Á 10. mínútu brutu Hamarsmenn svo ísinn þegar Jorge tók stutta hornspyrnu á Mána sem gaf hann aftur á Jorge og skaut hann glæsilegu skoti í fjærhornið í mark Stokkseyrar. Á 16. mínútu fengu Hamarsmenn svo aukaspyrnu við miðju vallarins. Máni tók hana og rataði hún á kollinn á Ölla sem skallaði boltann í netið. Hamarsmenn héldu áfram að sækja og áttu mjög góð færi til að bæta við forrystuna. Á 41. mínútu var komið að Mána að skora, eftir klafs í teignum náði Máni góðu skoti sem endaði í markinu. Svo á 44. mínútu skoraði svo nýr liðsmaður Hermann Ármannson gott mark í sínum fyrsta leik fyrir Hamar. Staðan var 4 – 0 í hálfleik  og voru yfirburðir Hamarsmanna miklir í fyrri hálfleik. Í byrjun seinni hálfleiks héldu Hamarsmenn áfram að sækja og á 53. mínútu komst Frissi inn í vítateig og fékk vítaspyrnu. Ölli tók spyrnuna og skoraði örruglega. Á 57. mínútu fékk Daníel boltann innfyrir vörn Stokkseyrar og skoraði hann örruglega. Eftir þetta héldu Hamarsmenn áfram að sækja og gátu hæglega bætt við fleiri mörkum. En í lok leiksins var meira jafnvægi í leiknum og var mikið miðjumoð. En á 88. mínútu fengu Stokkseyri eina færi sitt í leiknum. Hamarsmenn voru kærulausir með boltann og komust þeir innfyrir vörnina og skoraði Arnar Þór Halldórsson fyrir Stokkseyri. Lokatölur 6-1 fyrir Hamar. Frábær leikur hjá Hamri og spilaði liðið flottann fótbolta í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Allir leikmenn liðsins lögðu sig fram í verkefnið og uppskáru eftir því. Það verður gaman að fylgjast með strákunum í framhaldinu.

Frábært var að sjá hversu margir áhorfendur voru mættir á völlinn og er greinilegt að Hvergerðingar eru áhugasamir að sjá sína menn spila. Langt er síðan svo margir hafa verið mættir á völlinn. Vonandi heldur fólk áfram að mæta á völlinn og við náum að búa til skemmtilega stemmningu í kringum liðið í sumar.

Allir leikir Hamars eru teknir upp á vidjó og er hægt að sjá mörkin og fleira hér að neðan.

Byrjunarlið Hamars.

Markvörður: Hlynur Kára.

Vörn: Helgi Guðna – Hákon – Indriði – Tómas

Miðja: Ölli – Máni – Jorge

Kantmenn: Daníel – Frissi

Framherji: Hermann

Varamenn:

Nikulás – Ásgeir – Stefán – Ómar – Hafsteinn – Haffi Vilberg – Fannar.

Skiptingar:

46. Mín. Hlynur (ÚT) – Nikulás (INN)

53. Mín. Indriði (ÚT) – Fannar (INN)

59. Mín. Jorge (ÚT) – Stefán (INN)

66. Mín Frissi (ÚT) – Haffi Vilberg (INN)

66. Mín Helgi (ÚT) – Ásgeir (INN)

Hamar - Stokkseyri 1

Helgi hárfagri sýndi flotta takta í leiknum

Hamar - Stokkseyri 2

Máni átti stórgóðan leik, gaf tvær stoðsendingar og skoraði eitt

Hamar - Stokkseyri 3

Ásgeir skoraði næstum því.

 

Næsti leikur hjá strákunum er á fimmtudaginn kl 20:00 á móti Létti á Hertz vellinum í Breiðholti. Hvergerðingar eru hvattir til að kíkja á þann leik og styðja við strákana!

Hamar spilaði æfingaleik við Hvíta Riddarann s.l Laugardag á grasvelli í Þorlákshöfn. Um var að ræða síðasta æfingaleikinn fyrir íslandsmótið. Félagaskiptaglugginn lokaði 15. Maí og var smá fjör á Hamri á lokadeginum. Arnar Þór Hafsteinsson ákvað að ganga til liðs við Kára og óskum við honum góðs gengis þar. Hamar fékk í staðinn tvo öfluga sóknarmenn og einn varnarmann. Daníel Rögnvaldsson kom frá Ægi, Hermann Ármannsson kom á láni frá Breiðablik og Fannar Haraldur Davíðsson kom á láni frá Ægi. Við bjóðum þá velkomna í Hveragerði.

Hamarsmenn byrjuðu leikinn ágætlega, héldu boltanum vel innann liðsins og áttu fín tækifæri til að komast í forrystu í leiknum. En Hvíti Riddarinn eru með mjög fljóta menn frammá við og komust inn fyrir vörn Hamarsmanna og tóku forrystu í leiknum með góðu marki. Stuttu seinna náðu þeir að bæta við öðru marki. 0-2 var staðan eftir um hálftíma leik. Rétt fyrir lok hálfleiksins bættu svo Hvití Riddarinn við þriðja markinu og var staðan 0 – 3 fyrir Hvíta Riddaranum í hálfleik. Í seinni hálfleik gerðu Hamarsmenn nokkrar breytingar á liði sínu og voru staðráðnir í að breyta gangi máli. Fljótlega í seinni hálfleik skoraði nýji liðsmaðurinn Daníel mark úr góðu skoti rétt fyrir utan vítateig. 6 mínútum síðar skoraði svo annar nýr liðsmaður Fannar Haraldur mark eftir hornspyrnu. Nú voru Hamarsmenn komnir í gang og náðu Hamar að jafna leikinn með glæsilegu marki frá Jorge sem skaut boltanum í slánna og inn af 25 metra færi. Hamar fékk svo vítaspyrnu sem Daníel skoraði örruglega úr og voru þar af leiðandi komnir með forrystu í leiknum. Undir lok leiksins skoraði svo Jói Snorra frábært mark langt utan af kantinum, boltinn sveif yfir markmanninn og upp í vinkilinn. Lokatölur 5-3 fyrir Hamar í miklum markaleik. Fyrri hálfleikur var ekki alveg nógu góður að hálfu Hamarsmanna en þeir sýndu mikinn karakter í seinni hálfleik. Góð úrslit í síðasta leiknum fyrir íslandsmót og gefur góð fyrirheit fyrir sumarið.

24 - Jorge

Jorge skoraði glæsilegt mark í leiknum.

Byrjunarlið Hamars

Markvörður: Hlynur

Varnarmenn: Ásgeir – Fannar – Indriði – Tómas

Miðjumenn: Ölli – Máni – Jorge

Kantmenn: Helgi – Daníel

Sóknarmaður: Brynjar Elí

Varamenn:

Hafsteinn – Ómar – Bjartmar – Jói Snorra – Bjarnþór – Jóhann Karl.

Allir varamenn fengu góðan spiltíma og voru leyfðar frjálsar skiptingar í leiknum.

Næsti leikur er svo á Grýluvelli þegar Hamar tekur á móti Stokkseyri í fyrsta leik íslandsmótsins. Leikurinn er n.k föstudag kl 20:00.  Hvergerðingar eru hvattir til að mæta á völlinn og styðja sína menn til sigurs!