Nú þegar karlalið Hamars í fyrstu deild hefur spilað 2 leiki í deildinni og unnið þá báða, er liðið í 3ja sæti deildarinnar með 5 stig. Næsti leikur hjá körlunum er 11. nóvember gegn Stjörnunni á Álftanesi.

Kvennalið Hamars í 1. deild er í allt annarri stöðu þar sem liðið hefur tapað öllum 3 leikjum sínum það sem af er tímabils. Á fimmtudaginn kemur spilar liðið við Fylki sem er í neðri hluta deildarinnar líkt og Hamar. Þeikurinn hefst klukkan 21:00.

4.deildar lið kvenna hefur leik á sínu Íslandsmóti 4. og 5. nóvember, þegar liðið spilar 4 leiki á helgarmóti í Kórnum í Kópavogi.

 

Karlalið Hamars og Blakfélags Fjallabyggðar áttust við í 2. umferð 1. deildar karla í Hamarshöllinni í dag.

Greinilegur haustbragur var á liðunum og mikið um klaufamistök en þau voru á báða bóga og leikurinn því jafn og spennandi.

Fyrsta hrinan tapaðist 18-25 en Hamarsstrákar komu til baka í annari hrinu og unnu hana 25-23. Þriðja hrinan var erfið og tapaðist hún 25-15. Það var því að duga eða drepast fyrir Hamar í 4. hrinu sem var gríðarlega jöfn og spennandi og lauk með 25-22 sigri Hamars. Það þurfti því oddahrinu til að skera út um sigurvegara. Þar virtust bæði lið vera orðin þreytt og réðust úrslitin frekar á mistökum andstæðingsins en góðri spilamennsku. Fór að lokum svo að Hamar vann oddinn 15 – 12 og leikinn þar með 3-2 og eru strákarnir því taplausir í deildinni eftir 2 leiki.

Næsti blakleikur hjá Hamri er svo á fimmtudag þegar 1. deildar lið kvenna mætir ÍK kl. 21:00 í íþróttahúsinu við Skólamörk.

Blakið er komið á fullt eftir sumarfrí og fóru fram tveir leikir í 1.deild kvenna og karla þann 2. október. Kvennalíðið sem vann sig upp um deild tók á móti liði Aftureldingar B. Þrátt fyrir góða spretti inná milli þá tapaðist leikurinn 3-0 (18-25 20-25 9-25).
Karlalið Hamars sem endaði í 2. sæti 1.deildar síðasta vetur tók á móti Fylki eftir kvennaleikinn. Þrátt fyrir að hafa misst hinn unga og efnilega Sigþór til KA fyrir veturinn byrjuðu okkar menn á 3-0 sigri í fyrsta leik gegn Fylki 25-18, 25-20 og 25-19. Næsti leikur karlaliðs Hamars er næsta sunnudag gegn nýliðum BF frá Fjallabyggð kl. 13. á heimavelli en stelpurna eiga heimaleik næst gegn Ými fimmtudaginn 12. október kl. 21.

 

Íslandsmót öldunga, stærsta öldungumóti sem haldið hefur verið er nú lokið.

Mótið var haldið í Mosfellsbæ undir styrkri stjórn Aftureldingar.

Hamar sendi 4 lið til keppni, 2 í kvennaflokki og 2 í karlaflokki.

Kvennaliðin spiluðu í 3. deild og 7. deild en karlaliðin í 3. og 4. deild.

Árangurinn var ágætur en öll liðin héldu sætum sínum í deild. Þriðju deildar lið kvenna gerði gott betur og hafnaði í 2. sæti og mun því spila í 2. og næstefstu deild að ári líkt og á Íslandsmótinu.

Öldungamótið á næsta ári verður svo í höndum KA fólks á Akureyri að ári.

Karlalið Hamars í blaki tók kvennaliðið sér til fyrirmyndar og varð HSK meistari í vikunni.

6 lið tóku þátt í mótinu og þar af 2 frá Hamri, einu félaga. Leikin var einföld umferð, allir við alla.

Hamar 1 varð hlutskarpast með 14 stig, 3 stigum meira en Laugdælir sem höfnuðu í 2 sæti. Hamar A hafnaði svo í 4. sæti með 5 stig.

Úrslit héraðsmóts HSK karla 2017 voru annars sem hér segir:

1. sæti Hamar 1 með 14 stig

2. sæti UMFL með 11 stig

3. sæti Hrunamenn með 8 stig

4 sæti Hamar A með 5 stig

5. sæti Dímon með 4 stig

6. sæti Þjótandi með 3 stig

Seinni hluti HSK móts kvenna í blaki fór fram á Laugarvatni í gær.

Sjö lið voru skráð til leiks og var leikin einföld umferð í tveimur hlutum.

Hamar 1 og Dímon/Hekla 1 voru bæði taplaus eftir fyrri hlutann og allar líkur á að lokaleikur mótsins, á milli þessara tveggja liða, yrði úrslitaleikur.

Það var raunin og Hamar 1 sigraði Dímon/Heklu 2-1 eftir oddahrinu í skemmtilegum leik.

Hamar 2 varð svo efst þeirra félaga sem sendu 2 lið til keppni.

Flottur árangur hjá kvennaliðunum sem hefja nú undirbúning fyrir Íslandsmót öldunga.

Lokastaða mótsins varð þessi;

1.sæti  Hamar 1 með 17 stig

2.sæti  Dímon/Hekla 1 með 15 stig

3.sæti  UMFL með 10 stig

4.sæti  Hrunamenn 2 með 10 stig

5.sæti  Hamar 2 með 5 stig

6.sæti  Dímon/Hekla 2 með 3 stig

7.sæti  Hrunamenn 1 með 2 stig

Karlalið Hamars lék síðustu leiki sína á Íslandsmótinu í 1. deild um liðna helgi.

Vestri frá Ísafirði kom í heimsókn en Vestri hafði tryggt sér 1. sæti deildarinnar áður en að leikjunum kom og Hamar var öruggt um 2. sætið.

Það var því aðallega spilað upp á heiðurinn og grobbréttinn.

Leikar fóru svo að Hamar vann báða leikina, þann fyrri í oddahrinu, 3-2 en þann síðari 3-0.

Flottur árangur hjá Hamarsliðinu sem nú þarf að ákveða hvort það vill taka sæti í úrvalsdeild í haust.

 

Kvennalið Hamars1 varð Íslandsmeistari í 2. deild um helgina og vann sér þar með sæti í 1. og næstefstu deild næsta vetur.

Liðið steig varla feilspor í vetur og tapaði aðeins einum leik á öllu Íslandsmótinu.

Liðið sem féll úr 1. deild síðasta vor, stoppaði því stutt í 2. deild en ljóst er að það er krefjandi vetur framundan.

5. deild Íslandsmóts kvenna í blaki kláraðist einnig um helgina.

Sæti Hamars2 í deildinni var ekki öruggt og mátti ekki mikið fara úrskeiðis ef halda átti sætinu í deildinni.

Einn unnin leikur og hagstæð úrslit var það sem til þurfti og varð lokastaðan sú að sætið hélst nokkuð örugglega með 6 stig á næsta lið HK E sem féll.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Hamarsmanna í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins, náði liðið ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitum í kvöld.

Útlendingahersveit Aftureldingar var einfaldlega of sterk og fór svo að þeir unnu leikinn 3-0.

Hamarsmenn létu Mosfellinga þó hafa fyrir hlutunum á meðan orka var á tönkunum og skoruðu heimamenn 17 stig í fyrstu hrinu og 21 í annarri hrinu. Þriðja hrinan var þó í styttri kantinum með einungis 14 stig heimamanna gegn þeim 25 sem andstæðingarnir þurfa til að sigra hrinuna.

Að öðrum leikmönnum ólöstuðum, þá voru þeir Hilmar Sigurjónsson og Sigþór Helgason stekastir í sókn Hamars en sérstaklega ber að benda á frábæra endurkomu Óskars Haukssonar í stöðu frelsingja.
Eftir þónokkra fráveru eftir hásinarslit, dró Kópaskersbúinn knái fram blakskóna og spilaði eins og engill í vörninni og var á tímabili með yfir 90% móttöku.

Þó gaman hefði verið að sjá Hamar í höllinn í fjögurra liða úrslitum, þá verður það að bíða betri tíma:)