Á árlegum blaðamannafundi Blaksambands Íslands, sem fram fór í hádeginu í dag, var úrvalslið fyrri hluta tímabilsins opinberað. Kosið var rafrænt og voru það þjálfarar og fyrirliðar liðanna sem kusu úrvalsliðið þegar deildarkeppnin er rétt um hálfnuð.

Valdir voru 7 leikmenn og þjálfari fyrri umferðar og voru 5 leikmenn Hamars í liðinu, einn frá Vestra og einn frá HK auk þjálfara.

Liðið var svona skipað; Hafsteinn Valdimarsson, Kristján Valdimarsson, Ragnar Ingi Axelsson, Wiktor Mielczarek og Damian Sapor, allir úr Hamri. Hristiyan Dimitrov úr HK og Carlos Eduardo Rangel Escobar úr Vestra og þjálfari liðsins er Massimo Pistoia þjálfari HK.

Blaksamband Íslands tilkynnti um val á blakmanni og blakkonu ársins 2021 í hádeginu í dag á árlegum blaðamannafundi sambandsins í höfuðstöðvum ÍSÍ.

Ragnar Ingi Axelsson, leikmaður Hamars var valinn Blakmaður ársins 2021. Hamar óskar Ragnari innilega til hamingju með nafnbótina enda er hann vel að henni kominn. Hér fyrir neðan má sjá umsögn Blaksambandsins um Ragnar.

“Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í Úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu, vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari í vor. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri Úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu. 

Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður Úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð. 

Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.”

Blakkona ársins var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir en frétt BLÍ af valinu má nálgast hér.

Wiktor Mielczarek, einn besti leikmaður úrvalsdeildarliðs Hamars í blaki, mun ekki leika með liðinu eftir áramót.

Eftir frábæra frammistöðu með Hamri síðastliðið eitt og hálft tímabil, tókst Wiktor að tryggja sér samning hjá liði í næst efstu deild í Póllandi.

Wiktor hefur aðlagast lífinu fyrir austan fjall vel, bæði innan og utan vallar. Hans verður sárt saknað það sem eftir lifir tímabils en félagið óskar honum alls hins besta í komandi verkefnum en hann er jafnframt ávallt velkominn aftur.

Hamar vann seinni leikinn gegn KA um helgina í Mizunodeild karla í blaki í dag örugglega 3-1.

KA mætti líkt og í gær vel stemmdir til leiks og unnu fyrstu hrinuna 25-21. Hamarsmenn hrukku þá í gírinn og unnu næstu 3 hrinur, 25-20, 25-18 og 25-23. Hamarsmenn þurftu því að hafa meira fyrir sigrinum en í gær þar sem hrinurnar unnust gegn 12, 13 og 20 stigum.

Þrátt fyrir að tölurnar gefi vísbendingu um öruggan sigur, þá gáfust KA menn ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Var orðið sæmilega heitt í kolunum undir lok leiks þar sem KA menn börðust af krafti fyrir að ná fram oddahrinu en það hefði verið í fyrsta skipti sem Hamar hefði lent í þeirri stöðu frá því liðið var stofnað. Það hafðist þó ekki og andstæðingar liðsins þurfa því að bíða enn um sinn eftir að hirða stig af Hamarsmönnum.

Hamar og KA öttu kappi í dag í fyrri leik liðana um helgina en seinni leikurinn fer fram á morgun, sunnudag, kl. 13:00.

KA mætti vel stemmt til leiks og var stemmningin þeirra megin í fyrstu hrinu. Fór svo að KA vann hana 26-24, eftir að Hamarsmenn klóruðu í bakkann undir lokin. Hamarsmenn vöknuðu þá til lífsins og unnu næstur hrinur 25-12, 25-13 og 25-20 og leikinn þar með 3-1.

Hamarsmenn eru því enn á toppi deildarinnar og hafa ekki tapað leik en liðið vann einmitt HK í toppslag deildarinnar um síðustu helgi, 3-1

Maður leiksins var Wiktor Mielczarek en hann átti frábæran dag á parketinu með 8 ása (stig skorað með uppgjöf), 7 stig úr smassi og 4 með hávörn.

Úrvalsdeildarlið Hamars í blaki karla er enn með fullt hús stiga eftir öruggan sigur á Fylki í Hveragerði í kvöld.

Fylkismenn áttu á brattann að sækja allan leikinn. Mótspyrnan var mest í fyrstu hrinu en fór svo minnkandi. Fór svo að Hamar vann leikinn 25-18, 25-15 og 25-14, samtals 3-0. Maður leiksins var Wiktor Mielczarek kantmaður Hamars en hann var stigahæstur í leiknum með 12 stig, þar af 8 skoruð með smassi, 3 úr uppgjöf og 1 úr hávörn. Stigahæstur í liði Fylkis var Alexander Stefánsson með 7 stig.

Hamarsmenn heimsóttu Vestra 2. október. Leikurinn endaði 3-1 fyrir Hamar en þar tapaði Hamrasliðið fyrstu hrinu vetrarins. Liðið er nú í 2. sæti deildarinnar með 12 stig eftir fjóra leiki en HK er á toppnum, einnig með fullt hús stiga, með 15 stig eftir 5 leiki.

Íslands- og bikarmeistarar Hamars í blaki karla, tóku á móti Aftureldingu í sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu.
Hamarsmenn mættu vel stemmdir til leiks og áttu gestirnir afar erfitt uppdráttar í leiknum. Í öllum hrinum náði hamar forystu strax í upphafi og hélt henni út hrinuna. Fór svo að Hamar vann auðveldan sigur, 25-18, 25 – 14 og 25 – 20.
Maður leiksins: Hafsteinn Valdimarsson, fyrirliði Hamars
Stigahæstir: Wiktor Mielazarek og Jakub Madeij, Hamri og Sigþór Helgason, UMFA, allir með 11 stig.
Flestar blokkir:Hafsteinn Valdimarsson, Jakub Madej og Tomek Leik, Hamri, allir með 2 blokkir hver.

Hafsteinn Valdimarsson, maður leiksins

Karlalið Hamars í blaki tryggði sér í kvöld nafnbótina meistari meistaranna þegar liðið sigraði Aftureldingu í Meistarakeppni Blaksambandsins. Hamarsmenn, sem urðu bikar, deildar og Íslandsmeistarar á síðustu leiktíð unnu leikinn örugglega 3-0 (25-17, 25-20 og 25-20). Hamar samdi nýlega við alla lykilleikmenn síðustu leiktíðar og til viðbótar lék nýr leikmaður félagsins, Tomek Leik, sinn fyrsta leik með liðinu í kvöld. Hamarsmenn virðast koma vel undan sumri og ljóst að andstæðingarnir í vetur þurfa að hafa sig alla við ef þeir ætla að ná stigum af Hvergerðingum.

Kæru iðkendur, foreldrar og gestir

Með þessum pósti tilkynni ég að það er iðkandi á meðal okkar sem er með bráðaofnæmi fyrir  öllum tegundum af hnetum og möndlum.  Jarð-, pekan-, pistasíu-, kasjú-, furu-, val-, macadamian- og valhnetur eru allar sérstaklega hættulegar.

Þetta hefur í för með sér að þeir sem eru vanir að vera með nesti sem innihalda einhverja af þessum hnetutegundum þurfa að breyta því og sleppa að koma með þær vörur í íþróttamannvirki Hveragerðisbæjar.

Nemandinn fær öndunarerfiðleika sem valda mikilli vanlíðan, veikindum og jafnvel andláti.

Ef einhver hefur borðað hnetur heima eða utan við íþróttahús/sundlaug/hamarshöll þarf sá hinn sami að passa að þvo hendur vel áður en komið er inn.

Þeir sem eru með hnetu eða annað ofnæmi þurfa að passa sig vel en þeir þurfa líka að treysta á okkur hin til að geta stundað íþróttir.

Gangi okkur öllum vel.

Bestu kveðjur,
Jóhanna

Jóhanna M. Hjartardóttir
menningar- og frístundafulltrúi                            
Hveragerðisbæjar

Birt með fyrirvara um breytingar

Æfingatafla Skólamörk 2021/2022