Karlalið Hamars í blaki vann í kvöld enn einn titilinn þegar liðið varð meistari meistaranna eftir 3-0 sigur á KA.
Hamarsmenn voru aðeins seinir í gang í byrjun leiks. Þeir náðu sér svo á strik og unnu hrinurnar 25-22, 25-19 og 25-22 eftir smá hikst í þriðju hrinunni.
Áttundi titillinn af átta mögulegum frá því liðið hóf keppni meðal þeirra bestu er því kominn í hús.
Nýju leikmennirnir, uppspilarinn Hubert Lasecki og kantspilarinn Marcin Grasza spiluðu sinn fyrsta leik fyrir Hamar ásamt spilandi þjálfaranum Tamas Kaposi og áttu þeir fínan dag á vellinum þrátt fyrir takmarkaðan undirbúningstíma.
Aðspurðir, voru aðstandendur félagsins á heildina litið sáttir með frammistöðuna í dag. Þrátt fyrir að liðið hafi ekki æft lengi saman með núverandi leikmannahóp virtist liðið vel stemmt og tilbúið til að takast á við veturinn og eigi mikið inni.
Hamarsmenn leika stórt hlutverk í karlalandsliði Íslands í blaki sem er á leið í undankeppni Evrópumótsins. Hafsteinn og Kristján Valdimarsynir og Ragnar Ingi Axelsson sem allir léku lykilhlutverk í liði Hamars á síðustu leiktíð eru í leikmannhópnum. Auk þeirra er nýráðinn þjálfari liðsins, Tamas Kaposi, aðstoðar landsliðsþjálfari.
Íslenska liðið leikur í D-riðli þar sem það mætir Portúgal, Lúxembourg og Svartfjallalandi heima og að heiman. Heimaleikir liðsins fara fram í ágúst og verða leiknir í Digranesi.
Leikjaplan liðsins má sjá hér fyrir neðan:
07.08.2022 15:00 Iceland – Luxembourg
14.08.2020 15:00 Iceland – Montenegro
21.08.2022 15:00 Iceland – Portugal
Nú fer að styttast í að Úrvalsdeildin í blaki hefjist og eru þrefaldir meistarar Hamars frá síðasta tímabili á fullu að fá mynd á leikmannahópinn fyrir komandi tímabil. Fjórir erlendir leikmenn sem léku með liðinu á síðasta tímabili, þeir Tomek Leik, Damian Sapor, Jakub Madej og spilandi þjálfarinn Radoslaw Rybak, verða ekki með liðinu í vetur og því ljóst að töluverðar breytingar verða á leikmannahópnum.
Þegar er búið að fylla í skarð tveggja leikmanna og þjálfarans. Hamar samdi á dögunum við uppspilarann Hubert Lasecki og kantmanninn Marcin Grasza, en þeir eru báðir frá Póllandi. Hubert verður 23 ára á árinu en hann spilaði síðast með Olsztyn 2 í Póllandi. Marcin er 24 ára og spilaði með Ishøj Volley í Danmörku. Fyrr í sumar samdi Hamar við þjálfarann Tamas Kaposi frá Ungverjalandi, en hann tekur við keflinu af Rybak sem spilandi þjálfari.
Nýkrýndir bikar- og deildarmeistarar Hamars og Vestri frá Ísafirði, áttust við í dag í fyrri leik liðanna þessa helgi.
Damian Sapor uppspilari Hamars kenndi sér meins í baki í upphitun og þurfti Radek þjálfari að gera breytingar á byrjunarliðinu.
Hamarsmenn áttu í kjölfarið erfitt í fyrstu hrinu sem tapaðist 25-16 og ljóst að mikið þyrfti til að bikarmeistararnir næðu að snúa leiknum aftur sér í hag.
Það kraftaverk kom þegar það losnaði um bakið á Damian sem mætti á völlinn í annari hrinu. Hamarsmenn fóru þá að sýna sitt rétta andlit og fór svo að hrina 2 vannst 25-20, þriðja hrina 25-17 og sú fjórða 25-18 og leikurinn þar með 3-1.
Maður leiksins var Jakub en hann var stigahæstur Hamarsmanna og hljóp auk þess í skarðið í uppspilinu fyrir Damian í fyrstu hrinu.
Seinni leikur liðanna fer fram á morgun kl. 13:00 en það er jafnframt síðasti leikur Hamars í deildinni en liðið tryggði sér deildameistaratitilinn í vikunni með sigri á Aftureldingu.
Hamar og Þróttur Fjarðabyggð áttust við í seinni leik liðanna um helgina í úrvalsdeild karla í blaki.
Eftir hörku leik í gær, þar sem Hamar þurfti fimm hrinur til að knýja fram sigur, mættu Hamarsmenn vel stemmdir í dag og ætluðu sér greinilega að gera betur en í gær. Leikgleðin skein í gegn hjá leikmönnum Hamars og stemmningin var þeirra megin á vellinum allan leikinn.
Hamarsmenn gerðu einmitt það og höfðu frumkvæðið allan leikinn sem lauk með öruggum 3-0 sigri Hamars, 25-18, 25-16 og 25-19.
Hamarsmenn eru efstir í deildinni með 47 stig og eiga eftir 4 leiki á tímabilinu og eru 5 stigum á undan HK sem eiga 3 leiki eftir.
Hamar og Þróttur áttust við í fyrri leik liðanna þessa helgi í úrvalsdeild karla í blaki í dag.
Ferðalag Þróttar á Suðurlandið tók óvænta stefnu þegar flugvélin lenti í Keflavík í gærkveldi. Fór svo að ferðalaginu lauk ekki fyrr en eftir miðnætti og kannski skiljanlegt að leikmenn liðsins hafi verið lengi í gang dag. Hamar vann fyrstu hrinu auðveldlega 25-16 en mótspyrnan var töluvert meiri í annari hrinu. Jafnt var á með liðunum fram að miðri hrinu en þá náðu Þróttarar góðum kafla og þriggja stiga forystu 17-14. Hamarsmenn tóku þá við sér og jöfnuðu leikinn og eftir það var allt í járnum. Fór svo að lokum að upphækkun þurfti til að útkljá hrinuna þar sem Þróttur hafði frumkvæðið og vann að lokum 27-29. Þriðja hrinan var nokkuð jöfn framan ef þar til Tomek Leik í liði Hamars varð að fara af velli vegna meiðsla. Hamarsmenn virtust við það missa taktinn og þó Tomek kæmi aftur inná eftir aðhlynningu dugði það ekki til og fór svo að Þróttur vann hrinuna nokkuð örugglega 25-20. Með því var ljóst að Hamarsmenn þyrftu 5 hrinu leik til að tryggja sér sigurinn. Frá fyrsta stigi í fjórðu hrinu var augljóst að Hamarsmenn ætluðu sér einmitt það og í stöðunni 5-0 leist Þrótturum ekkert á blikuna og tóku leikhlé. Það dugði þó ekki til, Hamarsmenn héldu sínu striki og unnu hrinuna örugglega 25-11.Í fimmtu hrinu var mikill hiti í mönnum og ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur. Jafnt var á öllum tölum framan af en þegar Þróttur komst yfir 4-3 ætlaði allt um koll að keyra og fékk Kristján Valdimarsson í liði Hamars sitt annað gula spjald fyrir mótmæli og þar með rautt (sem í blaki þýðir stig fyrir andstæðingana en ekki útilokun úr leiknum). Staðan var þar með orðin 5-3 fyrir Þrótt sem höfðu frumkvæðið þar til Hamar náði forystu 10-9. Hana létu þeir ekki af hendi og unnu hrinuna að lokum 15-11 og leikinn þar með 3-2.Hörku leikur í Hveragerði í dag sem lofar góðu fyrir seinni leik liðanna klukkan 12:00 á morgun, sunnudag.
Ragnar Ingi Axelsson er Íþróttamaður Hamars 2021. Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í Úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu, vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari í vor. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri Úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu.
Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður Úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð.
Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.
Íþróttamenn deilda Hamars 2021 voru að þessu sinni:
Íþróttamaður Badmintondeildar Hamars 2021
Úlfur Þórhallsson
Íþróttamaður Blakdeildar Hamars 2021
Ragnar Ingi Axelsson
Íþróttamaður Knattspyrnudeildar Hamars 2021
Brynja Valgeirsdóttir
Íþróttamaður Körfuknattleiksdeildar Hamars 2021
Helga María Janusdóttir
Í gærkvöldi fór fram sannkallaður stórleikur í úrvalsdeildinni í blaki karla, þar sem áttust við toppliðin í deildinni Hamar og HK. Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu í Hveragerði og var greinilegt að áhorfendur eru farnir að átta sig á því að ekki eru lengur takmarkanir vegna covid og óhætt að láta sjá sig í stúkunni. Áhorfendur urðu heldur ekki fyrir vonbrigðum þar sem boðið var upp á blak í hæsta gæðaflokki.
Hamarsmenn áttu harma að hefna eftir ósigur í síðustu viðureign liðanna þar sem HK vann Hamar 3-1 í Kópavoginum. Það voru einnig söguleg úrslit þar sem Hamarsliðið hafði verið ósigrandi frá stofnun úrvalsdeildarliðsins haustið 2020. Það var því til mikils að vinna fyrir bæði lið. HK liðið gat með öðrum sigri sínum í röð á Hamri sýnt að þeim væru allir vegir færir. Á hinn veginn var til mikils að vinna fyrir Hamar. Með sigri yrði liðið áfram ósigrað á heimavelli, styrkti stöðu sína í deildinni og gæfu tóninn fyrir komandi bikarúrslitahelgi í lok mánaðar en bæði liðin hafa tryggt sér keppnisrétt á úrslitahelginni í lok mars.
Gestirnir byrjuðu leikinn vel og voru með yfirhöndina alla hrinuna en Hamarsmenn voru aldrei langt undan. Það dugði ekki til og HK vann fyrstu hrinuna 22-25. Það voru aftur á móti heimamenn sem byrjuðu aðra hrinu mun betur og komust yfir 5-1. HK menn virtust ekki hafa nein svör við leik heimamanna sem unnu hrinuna örugglega, 25-15. Jafnara var á með liðunum í hrinu þrjú en heimamenn þó alltaf skrefi á undan. Mátti sjá frábær tilþrif á báða bóga en Hamar vann að lokum hrinuna 25-21. Heimamenn þurftu því aðeins eina hrinu enn til að landa sigri og HK menn komnir með bakið upp að vegg. Fjórða hrina byrjaði álíka og önnur hrina þar sem Hamar náði strax upp góðu forskoti. HK menn reyndu að elta en allt kom fyrir ekki. Sigur heimamanna var í höfn, 25-18 og vann Hamar því leikinn 3-1.
Langstigahæstur í leiknum var Hamarsmaðurinn Tomek Leik með 24 sitg, næstur á eftir honum kom HK ingurinn Hristiyan Dimitrov með 18 stig.
Hér fyrir neðan má sjá myndir úr leiknum en við þökkum Guðmundi Erlingssyni kærlega fyrir þær.