Aðalfundur Sunddeildar Hamars verður haldinn þriðjudaginn 15. febrúar kl. 17:15 – 18.

Fundurinn verður haldinn í Grunnskólanum í Hveragerði, st. 116. Gengið inn um austurinngang við Garðshorn.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Sundiðkendur og foreldrar eru hvattir til að mæta.

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.

Bestu kveðjur,

stjórn Sunddeildar Hamars.

Eftir samfellda sigurgöngu frá stofnun úrvalsdeildarliðs Hamars í blaki sumarið 2020 kom að því að liðið tapaði leik.

Hamar lék gegn HK á útivelli í kvöld og voru Hamarsmenn lengi í gang og töpuðu fyrstu hrinu 25-21. Í annari hrinu sýndu þeir svo lit og unnu hana 21-25 og stefndi í spennandi leik. Þriðja hrinan var hnífjöfn þar sem liðin skiptust á forustu í lokin. HK vann þó hrinuna 28 – 30 eftir upphækkun. Tapið virtist koma illa við Hamarsmenn sem áttu erfitt með að ná sér á strik aftur og lentu þeir 8 stigum undir um miðja 4. hrinu. Það bil náðu þeir aldrei að brúa og tapaðist hrinan 25-16 og fyrsta tapið í efstu deild staðreynd.
Hamarsmenn fengu að finna fyrir því að leikmannahópurinn er fámennur. Radoslaw Rybak, þjálfari liðsins var meiddur og spilaði ekki með. Það kom því í hlut Valgeirs Valgeirssonar að fylla í skarð Wiktors í byrjunarliði Hamars, en Wiktor gekk til liðs við lið í Póllandi á nýju ári. Valgeir gekk þó ekki heldur heill til skógar en kláraði þó leikinn.

Það stefnir í spennandi bikarúrslit og lokakeppni Íslandsmóts ef marka má úrslit þessa leiks.

Hamarsmenn tóku á móti Fylki í 8 liða úrslitum í Kjörísbikarnum í kvöld.

Bikarmeistarar Hamars sátu hjá í fyrri umferðum og var þetta því fyrsti leikur liðsins í bikarkeppninni í ár. Fylkismenn mættu sprekir til leiks og þurftu Hamarsmenn að hafa töluvert fyrir hlutunum í fyrstu hrinu. Eftir hetjulega baráttu Fylkismanna fór þó svo að heimamenn unnu hrinuna með 25 stigum gegn 20. Við það var eins og allur vindur væri úr Fylkismönnum og vann Hamar næstu hrinur 25-14 og 25-13 og leikinn þar með örugglega 3-0.

Maður leiksins að öðrum ólöstuðum var Ragnar Ingi Axelsson, frelsingi Hamars.

Með sigrinum tryggðu Hamarsmenn sér þátttökurétt í bikarhelgi Blaksambandsins, Kjörísbikarnum, sem fram fer 1. – 3. apríl næstkomandi.

Karlalið Hamars í blaki byrjar nýja árið eins og þeir luku því síðasta, á sigurbraut.

Hamar tók á móti botnliði deildarinnar, Þrótti Vogum, þann 12. janúar. Hamarsmenn mættu vel stemmdir til leiks þrátt fyrir að einn besti leikmaður liðsins, Wiktor Mielczarek hafi samið við KPS Siedlce í pólsku deildarkeppninni í desember. Liðið var fljótt að stilla sig af og vann öruggan 3-0 sigur.

Radoslaw Rybak, þjálfari Hamars, tók stöðu Wiktors í byrjunarliðinu en hann hafði fyrir áramót einbeitt sér að þjálfun liðsins. Radoslaw sýndi þó að hann hefur engu gleymt og var hann valinn maður leiksins með 13 stig og þar af 6 beint úr uppgjöf.

Hamarsmenn eru sem fyrr ósigraðir í vetur en eru þó í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir HK situr á toppnum. Hamarsmenn eiga þó enn 3 leiki til góða og eiga því góðan möguleika á að komast á toppinn.

Blaksamband Íslands tilkynnti um val á blakmanni og blakkonu ársins 2021 í hádeginu í dag á árlegum blaðamannafundi sambandsins í höfuðstöðvum ÍSÍ.

Ragnar Ingi Axelsson, leikmaður Hamars var valinn Blakmaður ársins 2021. Hamar óskar Ragnari innilega til hamingju með nafnbótina enda er hann vel að henni kominn. Hér fyrir neðan má sjá umsögn Blaksambandsins um Ragnar.

“Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í Úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu, vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari í vor. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri Úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu. 

Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður Úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð. 

Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.”

Blakkona ársins var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir en frétt BLÍ af valinu má nálgast hér.

Wiktor Mielczarek, einn besti leikmaður úrvalsdeildarliðs Hamars í blaki, mun ekki leika með liðinu eftir áramót.

Eftir frábæra frammistöðu með Hamri síðastliðið eitt og hálft tímabil, tókst Wiktor að tryggja sér samning hjá liði í næst efstu deild í Póllandi.

Wiktor hefur aðlagast lífinu fyrir austan fjall vel, bæði innan og utan vallar. Hans verður sárt saknað það sem eftir lifir tímabils en félagið óskar honum alls hins besta í komandi verkefnum en hann er jafnframt ávallt velkominn aftur.

Hamar vann seinni leikinn gegn KA um helgina í Mizunodeild karla í blaki í dag örugglega 3-1.

KA mætti líkt og í gær vel stemmdir til leiks og unnu fyrstu hrinuna 25-21. Hamarsmenn hrukku þá í gírinn og unnu næstu 3 hrinur, 25-20, 25-18 og 25-23. Hamarsmenn þurftu því að hafa meira fyrir sigrinum en í gær þar sem hrinurnar unnust gegn 12, 13 og 20 stigum.

Þrátt fyrir að tölurnar gefi vísbendingu um öruggan sigur, þá gáfust KA menn ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Var orðið sæmilega heitt í kolunum undir lok leiks þar sem KA menn börðust af krafti fyrir að ná fram oddahrinu en það hefði verið í fyrsta skipti sem Hamar hefði lent í þeirri stöðu frá því liðið var stofnað. Það hafðist þó ekki og andstæðingar liðsins þurfa því að bíða enn um sinn eftir að hirða stig af Hamarsmönnum.

Hamar og KA öttu kappi í dag í fyrri leik liðana um helgina en seinni leikurinn fer fram á morgun, sunnudag, kl. 13:00.

KA mætti vel stemmt til leiks og var stemmningin þeirra megin í fyrstu hrinu. Fór svo að KA vann hana 26-24, eftir að Hamarsmenn klóruðu í bakkann undir lokin. Hamarsmenn vöknuðu þá til lífsins og unnu næstur hrinur 25-12, 25-13 og 25-20 og leikinn þar með 3-1.

Hamarsmenn eru því enn á toppi deildarinnar og hafa ekki tapað leik en liðið vann einmitt HK í toppslag deildarinnar um síðustu helgi, 3-1

Maður leiksins var Wiktor Mielczarek en hann átti frábæran dag á parketinu með 8 ása (stig skorað með uppgjöf), 7 stig úr smassi og 4 með hávörn.

Úrvalsdeildarlið Hamars í blaki karla er enn með fullt hús stiga eftir öruggan sigur á Fylki í Hveragerði í kvöld.

Fylkismenn áttu á brattann að sækja allan leikinn. Mótspyrnan var mest í fyrstu hrinu en fór svo minnkandi. Fór svo að Hamar vann leikinn 25-18, 25-15 og 25-14, samtals 3-0. Maður leiksins var Wiktor Mielczarek kantmaður Hamars en hann var stigahæstur í leiknum með 12 stig, þar af 8 skoruð með smassi, 3 úr uppgjöf og 1 úr hávörn. Stigahæstur í liði Fylkis var Alexander Stefánsson með 7 stig.

Hamarsmenn heimsóttu Vestra 2. október. Leikurinn endaði 3-1 fyrir Hamar en þar tapaði Hamrasliðið fyrstu hrinu vetrarins. Liðið er nú í 2. sæti deildarinnar með 12 stig eftir fjóra leiki en HK er á toppnum, einnig með fullt hús stiga, með 15 stig eftir 5 leiki.

Íslands- og bikarmeistarar Hamars í blaki karla, tóku á móti Aftureldingu í sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu.
Hamarsmenn mættu vel stemmdir til leiks og áttu gestirnir afar erfitt uppdráttar í leiknum. Í öllum hrinum náði hamar forystu strax í upphafi og hélt henni út hrinuna. Fór svo að Hamar vann auðveldan sigur, 25-18, 25 – 14 og 25 – 20.
Maður leiksins: Hafsteinn Valdimarsson, fyrirliði Hamars
Stigahæstir: Wiktor Mielazarek og Jakub Madeij, Hamri og Sigþór Helgason, UMFA, allir með 11 stig.
Flestar blokkir:Hafsteinn Valdimarsson, Jakub Madej og Tomek Leik, Hamri, allir með 2 blokkir hver.

Hafsteinn Valdimarsson, maður leiksins