Laugardaginn 26. október frá kl. 9:30 til hádegis verður tennisíþróttin kynnt fyrir öllum sem hafa áhuga. Landsliðsmennirnir Raj K. Bonifacius og Rafn Kumar Bonifacius munu sýna tennisleik og kynna reglur og síðan er öllum velkomið að prófa og fá leiðsögn.

Tennis er vaxandi íþróttagrein á landinu og er gaman að fá boð um kynningu frá íslensku landsliðsfólki. Kynningin er ókeypis og eru allir velkomnir.

Ný og endurgerð heimasíða Hamars var opnuð með viðhöfn í aðstöðuhúsi við Grýluvöll í dag. Viðstaddir voru forráðamenn deilda og aðalstjórnar auk fleiri gesta en forseti bæjarstjórnar Hveragerðis, Ninna Sif Svavarsdóttir opnaði nýja vefinn formlega.

Það var Vefþjónustan sf. sem hefur haft veg og vanda að uppsetningu síðunnar og er það von aðalstjórnar Hamars að upplýsingaflæði frá stjórnum deilda og aðalstjórn til foreldra og iðkenda í Hamri verði betri en verið hefur síðustu misseri og betur gangi að fylgjast með starfseminni fyrir áhugasama.

Í sumar tók stjórn Hamars ákvörðun um að endurnýja heimasíðu Hamars.  Eldri síðan hefur þjónað sínum tilgangi ágætlega í gegnum árin en margt vantar þó upp á svo hún sé nútímaleg og notendavæn.  Nýja síðan verður notendavænni í alla staði, fyrir iðkendur,foreldra og þjálfara.  Linkar verða á síðunni inn á Facebook og Twitter og einnig verður aðvelt að setja inn efni á síðuna t.d með snjallsímum.

Það er fyrirtækið Vefþjónustan sf. sem sér um hönnun og uppsetningu.  Anton Tómasson  hefur verið  okkur í stjórn Hamars til halds og trausts við gerð síðunnar.

Á árinu hefur Hamar innleitt Nori skráningarkerfið.  Markmiðið er að allar deildir félagsins noti kerfið en það mun gjörbreyta allri vinnu og utanumhaldi vegna deilda Hamars.  Kerfið bíður upp á greiðslur með kreditkortum og einnig er mögulegt að dreifa greiðslum yfir árið.  

Það er von okkar að þetta muni stórbæta vinnuumhverfi þjálfara  ásamt því að vera til mikilla hagsbóta fyrir foreldra og iðkendur.

En aðeins af starfi félagsins sl. mánuði.  Í sumar stóð Hamar fyrir leikjanámskeiði í samstarfi við bæjaryfirvöld.  Námskeiðið lukkaðist með eindæmum vel þetta árið og vill stjórn Hamars færa Maríu Kristínu Hassing og hennar dyggu aðstoðarmönnum þakkir fyrir framúrskarandi störf í sumar.

Haldin voru 2 strandblakmót í sumar á nýja vellinum við sundlaugina.  Blakdeild Hamars sá um skipulagningu og utanumhald mótanna. Völlurinn hefur sannað gildi sitt rækilega og voru iðkendur sem komu víða að himinlifandi með völlinn og ekki síður með staðsetninguna sem er einstök.

Hamarshöllin kemur vel út og hefur gjörbyllt allri aðstöðu til íþróttaiðkunar í Hveragerði.  Möguleikar við nýtingu húsins eru miklir og mikil aukning er á notkun húsins  milli ára.

Ég vil að lokum í upphafi vetrar hvetja sem flesta til að iðka þær íþróttir sem í boði eru hjá Hamri. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á www.hamarsport.is

Kveðja

Hjalti Helgason

Formaður Hamars

Leikjanámskeiðið sem haldið var í sumar heppnaðist nokkuð vel og komin nokkur reynsla á þetta fyrirkomulag. Námskeiðið var í þetta skiptið með aðsetur í Íþróttahúsinu við Sunnumörk og gátu stjórnedur með því móti skipulagt tíma innanhúss ef veður væri hamlandi útiveru sem var þó afar sjaldan í ár. Ýmislegt var tekið sér fyrir hendur og brallað eins og sjá má á myndasafni hér fyrir neðan.

Umsjónarmaður leikjanámskeiðsins í sumar var María Kristín Hassing og hafði hún trausta aðstoðarmenn með sér einnig. Námskeiðið er hluti af samstarfssamning Hveragerðisbæjar og Íþróttafélagsins og kemur bærinn að námskeiðinu með ýmsum hætti en Íþróttafélagið sér um utanumhald. [nggallery id=6]

Á síðasta ári tók stjórn Hamars þá ákvörðun að taka upp notkun á skráningar- og greiðslukerfinu Nori sem mörg önnur íþróttafélög hér á landi hafa notað við góðan orðstír síðustu ár. Á þessu ári sem liðið er hafa forsvarsmenn deilda Hamars verið að læra á kerfið og feta sig áfram í notkun á því og er nú svo komið að í haust munu allar deildir hefja notkun á Nori. Með tilkomu þessa kerfis verður skráning iðkenda í íþróttir og námskeið á vegum Íþróttafélagsins Hamars mun einfaldara og fljótlegra heldur áður hefur verið. Kerfið reiknar sjálfkrafa systkinaafslátt, hægt er að dreifa greiðslum yfir marga mánuði og einnig er hægt að stjórna greiðslufyrirkomulagi, hvort það sé millifært, greitt með kreditkorti eða greiðsluseðill sendur heim, það er þó ákvörðun hverrar deildar fyrir sig hvernig greiðslufyrirkomulag er. Nori kerfið heldur svo utan um allar greiðslur sem koma inn og því verður allt miklu skilvirkara og álag á gjaldkera og þjálfara minnkar þar sem þeir geta þá fylgst með með einföldum hætti hvaða iðkendur hafa greitt og hverjir ekki.

Einfalt í notkun.

Fyrir foreldra og forráðamenn er kerfið einfalt í notkun. Það sem þeir þurfa að gera að fara á vefslóðina http://hamar.felog.is/, einnig er hægt að finna slóðina á vefsíðunni hér hægra megin. Þegar þangað er komið skrá foreldrar/forráðamenn sig inn og þegar innskráningu er lokið geta þeir svo séð hvaða námskeið og íþróttir eru í boði fyrir hvern iðkanda fyrir sig.

Nánari leiðbeiningar er að finna á http://nori.felog.is/.

 

Friðrik Sigurbjörnsson

Gjaldkeri aðalstjórnar

Íþróttafélagið Hamar

 

Á aðalfundi Íþróttafélagsins Hamars, sunnudaginn 3. mars 2012 var Marín Laufey Davíðsdóttir, körfuknattleikskona Hamars, krýnd íþróttamaður Hamars ársins 2012. Marín hefur leikið fyrir meistaraflokk Hamars í þrjú tímbil, þrátt fyrir ungan aldur, og hefur staðið með mikilli prýði. Hún leikur sem bakvörður og er einn af máttarstólpum liðsins.  Auk Marínar voru útnefnd íþróttamenn hverrar deildar.

Sú nýbreytni var tekin upp á aðalfundinum að útnefna sjálfboðaliða ársins. Sá sem varð fyrir valinu að þessu sinni var Arnar Geir Helgason. En hann hefur í fjölda ára starfað sem ritari á körfuknattleiksleikjum Hamars og ávallt verið boðinn og búinn til starfa fyrir Hamar.

Á aðalfundinum var einnig undirritaður nýr samstarfssamningur Hamars og Hveragerðisbæjar, þar sem kveðið er á um samskipti milli aðila næstu þrjú ár. Samningurinn kveður einnig á um fjárframlög til Hamars næstu þrjú ár sem er samtals að upphæð kr. 20 milljónir. Stjórn Hamars var einróma endurkjörin og formaður er Hjalti Helgason.

Eftirtaldir fengu viðurkenningar:

Badmintonmaður Hamars Guðjón Helgi Auðunsson
Fimleikamaður Hamars Erla Lind Guðmundsdóttir
Blakmaður Hamars Haraldur Örn Björnsson
Hlaupari Hamars Líney Pálsdóttir
Knattspyrnumaður Hamars Ingþór Björgvinsson
Körfuknattleiksmaður Hamars Marín Laufey Davíðsdóttir
Sundmaður Hamars

Elva Björg Elvarsdóttirr

Framkvæmdarstjórn Hamars óskar íþróttamönnunum til hamingju með titilana.

Íþrótta- og fjölskyldudagur Íþróttafélagsins Hamars og Hvergerðisbæjar tókst mjög vel síðastliðinn föstudag og voru fjölmargar fjölskyldur sem lögðu leið sína í Hamarshöll til að skemmta sér í leikjum, þrautum og íþróttum saman. Mikil ánægja var með daginn og verður fjölskyldudagurinn endurtekinn aftur í haust.

Gísli Páll Pálsson, framkvæmdarstjóri þvottahúss Grundar og Áss og Pálína Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri, færðu íþróttafélaginu Hamri veglega boltagjöf og tók Hjalti Helgason formaður Hamars við gjöfinni og færði þeim þakkir fyrir.

Stjórn Hamars og míf nefnd Hveragerðisbæjar þakka þjálfurum íþróttafélagsins og golfklúbbsins fyrir þeirra störf og öllum gestum sem lögðu leið sína í höllina. (sjá nánar heimasíðu Hveragerðisbæjar).

Íþrótta- og fjölskyldudagur Hamars og Hveragerðisbæjar verður haldinn föstudaginn, 1. febrúar n.k. frá kl. 16.30-18.30, í Hamarshöllinni. Finnum íþróttaföt fjölskyldunnar og skemmtum okkur saman. Sjá nánar.

img_0447-1944

6 vikna námskeið 2x í víku. Fyrir konur á öllum aldri sem vilja ná árangri í líkamsrækt,  fjölbreyttir og skemmtilegir tímar sem auka þol, vöðvastyrk og vellíðan. Leiðbeinandi er Rúna Einarsdóttir. Námskeiðið hefst 9. janúar.

Verðið er 13.500 kr, en 9.500 ef þú ert með árskort eða í áskrift. Mánudagar og miðvikudagar klukkan 19:15.  
Skráning og nánari upplýsingar fást í Laugaskarði síma 483-4113.

6 vikna námskeið 2x í víku. Fit-Pilates þjálfar djúpvöðva líkamans, gefur langa fallega vöðva, sléttan kvið, grönn læri, sterkt bak, betri líkamsstöðu og aukinn liðleika. Engin hamagangur en vel tekið á þvi.  Æfingar gerðar með bolta , teygjum  og handlóðum. Leiðbeinandi er Rúna Einarsdóttir. Námskeiðið hefst 9. janúar.

Verðið er 13.500 kr en 9.500 kr ef þú ert með árskort eða í áskrift.  Mánudagar og miðvikudagar klukkan 18:15. 
Skráning og nánari upplýsingar fást í Laugaskarði síma 483-4113.