Á aðalfundi Hamars var Lárus Ingi Friðfinnsson formaður og stofnandi körfuknattleiksdeildar Hamars, sæmdur gullmerki Hamars. Kom fram í máli formanns að Lárus hlyti gullmerkið fyrir áratuga ósérhlífið starf og einstaka elju við uppbyggingu og rekstur Körfuknattleiksdeildarinnar í Hveragerði.
Á aðalfundi Hamars lét núverandi formaður Hjalti Helgason af störfum sem formaður Hamars eftir 5 ára setu í embætti. Nýr formaður, Hallgrímur Óskarsson, var kjörinn á fundinum. Aðrir í stjórn Hamars eru Svala Ásgeirsdóttir, Dagrún Ösp Össurardóttir, Hjalti Valur Þorsteinsson og Daði Steinn Arnarsson.
Samningur var undirritaður nýverið á milli Íþróttafélagsins Hamars og Hveragerðisbæjar. Samningurinn gildir út árið 2018 en í honum er fjallað um gagnkvæmar skyldur aðila á tímabilinu. Samningnum er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda í Hveragerðisbæ og íþróttafélagsins og tryggja öflugt íþrótta-, forvarna- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni í Hveragerði. Með samningnum fær íþróttafélagið 22,6 m. kr. á tímabilinu frá Hveragerðisbæ. Auk þess fær íþróttafélagið íþróttamannvirki bæjarins til endurgjaldslausra afnota og er sá styrkur metinn á 83,5 mkr. Í samningunum kemur fram að um sé að ræða rekstrarstyrki til barna og ungmennastarfs, framlag vegna meistaraflokka, fjárveiting í ferða- og tækjasjóð og rekstrarstyrkur vegna íþróttasvæða.
Íþróttafélagið Hamar býður flóttafjölskyldu frá Sýrlandi velkomna til Hveragerðis, um leið hefur aðalstjórn Hamars ákveðið að bjóða ungmennum innan fjölskyldunnar að æfa íþróttir hjá Hamri á árinu 2017. Það er von aðalstjórnar að þetta hjálpi ungmennum innan fjölskyldunnar að aðlagast nýjum aðstæðum hér í Hveragerði.
Íþróttamenn Hveragerðis 2016
Að þessu sinni voru 15 íþróttamenn heiðraðir en þeir hafa sýnt mikinn metnað til að ná langt í sinni íþróttagrein og eru svo sannarlega góð fyrirmynd fyrir bæinn og yngri íþróttamenn.
Eftirfarandi íþróttamenn voru í kjöri:
- Ágúst Örlaugur Magnússon knattspyrnumaður
- Björn Ásgeir Ásgeirsson körfuknattleiksmaður
- Dagný Lísa Davíðsdóttir körfuknattleikskona
- Fannar Ingi Steingrímsson golfari
- Hafsteinn Valdimarsson blakmaður
- Hekla Björt Birkisdóttir fimleikakona
- Hrund Guðmundsdóttir badmintonkona
- Kristján Valdimarsson blakmaður
- Kristrún Rut Antonsdóttir knattspyrnukona
- Matthías Abel Einarsson lyftingamaður
- Úlfar Jón Andrésson íshokkímaður
Einnig fengu þeir viðurkenningu sem hafa hlotið Íslands- og bikarmeistaratitla á árinu.
Hin unga og efnilega fimleikakona, Hekla Björt Birkisdóttir, var kjörin íþróttamaður ársins í hófi menningar, íþrótta og frístundanefnar Hveragerðisbæjar. Hekla Björt var Íslands- og deildarmeistari í fullorðinsflokki í hópfimleikum, með blönduðu liði Selfoss. Hún var valin í landslið U18 ára blandað lið Íslands í hópfimleikum sem tók þátt í mjög sterku Evrópumóti í Slóveníu og lenti liðið í 3. sæti. Hún var lykilmaður í liði Íslands og keppti á öllum áhöldum. Hekla Björt hefur stundað fimleika hjá fimleikadeild Selfoss í nokkur ár, en áður var hún í fimleikadeild Hamars. Hekla Björt hefur tekið miklum framförum í greininni síðustu ár og er orðin ein af fremstu fimleikakonum landsins.
Hafsteinn Valdimarsson, blakmaður ársins 2016
Hafsteinn er 27 ára leikmaður með Waldviertel Raffaissen í Austurríki en á síðasta keppnistímabili lék hann með Marienlyst í Odense í Danmörku. Waldviertel Raffaissen er í toppbaráttunni í austurrísku deildinni auk þess að vera í Evrópukeppni. Þessi vistaskipti eru því klárlega skref upp á við fyrir Hafstein.
Afrek Hafsteins 2016
o Danskur bikarmeistari með Marienlyst.
o 2. sæti í dönsku úrvalsdeildinni
o Spilaði með liði sínu í úrslitum Norður-Evrópukeppni félagsliða þar sem liðið endaði í 2. sæti.
o Valinn í lið ársins í Danmörku á síðasta tímabili.
o Stigahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar í hávörn.
o Einn af burðarásum karlalandsliðs Íslands sem tryggði sér sæti í annari umferð í forkeppni HM í fyrsta skipti í sögu liðsins.
o Íslandsmeistari í strandblaki með Kristjáni Valdimarssyni.
Hafsteinn Valdimarsson er fyrirmyndar blakmaður og æfir af kappi með liði sínu Waldviertel Raffaissen. Hann lék sinn 50. karlalandsleik á árinu og frammistaða hans með landsliðum Íslands er til fyrirmyndar.
Greinin er unnin upp úr grein á heimasíðu Blaksambands Íslands 28.12.2016
Fimmtudaginn 1. September var haldin íþróttadagur Hamars, hátiðinn var haldinn í íþróttahúsinu í Dalnum og þar voru allar deildir Hamars með kynningu á starfi sínu ásamt því að boðið var uppá skemmtiatriði auk andlitsmálnigar og íspinna frá Kjörís. Dagurinn heppnaðis í alla staði vel og er án vafa langfjölmennasti kynningardagur sem Íþróttafélagið Hamar hefur staðið fyrir.