Það hefur væntalega ekki farið fram hjá málkunnugum að hinn geðþekki  Bragi Bjarnason er tekin við þjálfarastarfinu hjá meistarflokki Hamars í körfunni og tekur þar við Lárusi Jónssyni sem horfin er á vit ævintýranna á suðrænni slóðum. Hamar spilar í 1.deildinni í vetur og ekki úr vegi að fá nýjan þjálfara strákanna til að svara nokkrum spurningum svona í byrjun vetrar. (mynd; Ívar, Lárus Ingi, Bragi og Birgir við undirskrift samnings)

Bragi Bjarnason var ráðinn til þess að koma og þjálfa Hamar í vetur og tekur hann við starfinu af Lárusi Jónssyni sem þurfti að hverfa á brott. Bragi mun líklega koma til með að vera spilandi þjálfari líkt og Lárus var og hlökkum við að sjá hann stýra brúnni.

 Hvernig leggst veturinn í þig?

Mjög vel. Erum með fjölbreyttan og sterkan hóp sem getur náð mjög langt. Sýnist 1. deildin geta orðið mjög spennandi í vetur og nokkur lið sem munu berjast um eftsta sætið og sé ég Hamar vera eitt af þeim.

 

Hvernig kemur kaninn inn í hópinn?

Hann smellpassar inn í liði. Flottur einstaklingur sem á eftir að gera aðra leikmenn góða í kringum sig. Mjög fær varnarmaður og þessi fyrstu leikir í Lengjubikarnum sýna mér að þetta verður án efa einn af bestu erlendu leikmönnunum í fyrstu deildinni.

Hvernig verður liðið skipað í vetur?

Við verðum með svona c.a. 13-14 manna hóp þegar allir verða komnir af stað. Nokkrir eru að kljást við smávægileg meiðsli og vonandi verða allir komir á fullt þegar deildin byrjar. Erum með góða blöndu í hópnum sem verður spennandi að setja saman. 

Hvert er markmið vetursins?

Markmið vetrarins fyrir liði á eftir að ræða innan hópsins en verður gert núna í september. Ég persónulega hef sett mér ákveðin markmið fyrir veturinn en kýs að halda þeim út af fyrir mig.

Ef þú mættir velja einn leikmann á íslandi í liðið þitt hver yrði fyrir valinu?

Góð spurning. Miðað við meiðslastöðuna núna þá væri ég til í að bæta við einum kjötskrokk í teiginn. Nokkrir kæmu sannarlega til greina.

Fyrsti leikur er heima gegn ÍA hvernig leggst hann í þig?

Spenntur. Erum núna á fullu í Lengjubikarnum og sjáum bætingu á liðinu eftir hvern leik svo við verðum klárir gegn ÍA í fyrsta leik. Klárum 2 stig í hús og leggjum af stað í veturinn af krafti.

Eitthvað að lokum?

Hvet alla að mæta í Frystikistuna á leiki karla- og kvennaliðsins í vetur. Ég man sjálfur eftir stemmningunni í húsinu þegar ég var að spila með Hamri forðum og langar mig virkilega að ná því upp aftur. Lið eiga að óttast það að mæta í Hveragerði og þá þurfa stuðningsmennirnir að fylla bekkina og hvetja sitt lið áfram.