Meistaraflokkur Hamars mætir til leiks í bikarkeppni KSÍ í kvöld er þeir heimsækja lið Augnabliks í knattspyrnukór Kópavogsbúa. Leikið verður innanhúss enda veðurfarið ekki verið upp á marga fiska undanfarið, þó Hamarsmenn kvarti ekki enda beiðni um þetta fyrirkomulag ekki komið frá Hveragerði, þó það komi sér vissulega vel í þessu tíðarfari. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:00 í logni og rjómablíðu, óháð ytri veðurskilyrðum.
Lið Augnabliks er formlegt eða óformlegt dótturfélag Pepsideildar liðs Breiðabliks. Breiðablik þekkja allir, hvort heldur sem knattspyrnulið eða heimili Baldurs í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar en í lið Augnabliks hafa safnast í gegnum tíðina gamlir „Blikar“ og/eða ungir Kópavogsbúar í leit að leiktíma og jafnvel leikgleði. Augnablik lagði lið Hómers (óvíst hvort nafngiftin tengist amerískri teiknimyndaseríu eða grískum höfundi Ódysseifskviðu) að velli í fyrstu umferð bikarkeppni KSÍ 1-3 og fær nú það hlutverk að taka á móti Hamarspiltunum okkar.
Augnabliksmenn leika í 3. deildinni og var árangur þeirra síðastliðið sumar nokkuð eftirtektarverður. Augnablik sigraði riðilinn sinn og lék við KV í 8 liða úrslitum. KV, sem leikur nú í 2. deild, þótti heppið að komast áfram úr þeirri viðureign eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna á heimavelli 2-1 en tapað þeim síðari 3-2. Útivallareglan, þ.e.a.s. fjöldi skoraðra marka á útivelli, tryggði KV áframhaldandi þátttöku en felldi Augnablik.
Það er því alls ekki víst að og enganveginn tryggt að um auðvelda viðureign verði að ræða fyrir Hamarsdrengi er þeir mæta í knattspyrnuhöllina Kórinn í kvöld. Það er þó að miklu að keppa, því sigurvegari leiksins fer í pottinn fræga er dregið verður í 32ja liða úrslit bikarkeppninnar þar sem öll „stóru“ liðin koma inn og því möguleiki á vænni „mjólkurkú“ eða a.m.k. skemmtilegri upplifun leikmanna og áhorfenda í næstu umferð.
Hvergerðingar og Hamarsfólk, nær og fjær, ætti því að skella sér í léttan þriðjudagsbíltúr í Kópavoginn í kvöld til að styðja við bak sinna manna og hvetja þá áfram til næstu umferðar.
Áfram Hamar!!!