Í gærkvöldi fór fram sannkallaður stórleikur í úrvalsdeildinni í blaki karla, þar sem áttust við toppliðin í deildinni Hamar og HK. Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu í Hveragerði og var greinilegt að áhorfendur eru farnir að átta sig á því að ekki eru lengur takmarkanir vegna covid og óhætt að láta sjá sig í stúkunni. Áhorfendur urðu heldur ekki fyrir vonbrigðum þar sem boðið var upp á blak í hæsta gæðaflokki.
Hamarsmenn áttu harma að hefna eftir ósigur í síðustu viðureign liðanna þar sem HK vann Hamar 3-1 í Kópavoginum. Það voru einnig söguleg úrslit þar sem Hamarsliðið hafði verið ósigrandi frá stofnun úrvalsdeildarliðsins haustið 2020. Það var því til mikils að vinna fyrir bæði lið. HK liðið gat með öðrum sigri sínum í röð á Hamri sýnt að þeim væru allir vegir færir. Á hinn veginn var til mikils að vinna fyrir Hamar. Með sigri yrði liðið áfram ósigrað á heimavelli, styrkti stöðu sína í deildinni og gæfu tóninn fyrir komandi bikarúrslitahelgi í lok mánaðar en bæði liðin hafa tryggt sér keppnisrétt á úrslitahelginni í lok mars.
Gestirnir byrjuðu leikinn vel og voru með yfirhöndina alla hrinuna en Hamarsmenn voru aldrei langt undan. Það dugði ekki til og HK vann fyrstu hrinuna 22-25. Það voru aftur á móti heimamenn sem byrjuðu aðra hrinu mun betur og komust yfir 5-1. HK menn virtust ekki hafa nein svör við leik heimamanna sem unnu hrinuna örugglega, 25-15. Jafnara var á með liðunum í hrinu þrjú en heimamenn þó alltaf skrefi á undan. Mátti sjá frábær tilþrif á báða bóga en Hamar vann að lokum hrinuna 25-21. Heimamenn þurftu því aðeins eina hrinu enn til að landa sigri og HK menn komnir með bakið upp að vegg. Fjórða hrina byrjaði álíka og önnur hrina þar sem Hamar náði strax upp góðu forskoti. HK menn reyndu að elta en allt kom fyrir ekki. Sigur heimamanna var í höfn, 25-18 og vann Hamar því leikinn 3-1.
Langstigahæstur í leiknum var Hamarsmaðurinn Tomek Leik með 24 sitg, næstur á eftir honum kom HK ingurinn Hristiyan Dimitrov með 18 stig.
Hér fyrir neðan má sjá myndir úr leiknum en við þökkum Guðmundi Erlingssyni kærlega fyrir þær.