Nú eru æfingar byrjaðar hjá deildinni og er hægt að finna allar upplýsingar um æfingatíma og æfingagjöld hér á síðunni.
Börn og unglingar
Barna- og unglingastarfið fer vel af stað. Vegna plássleysis er ekki hægt að getu- eða aldursskipta æfingunum eins og er. Róbert hefur Úlf með sér með yngstu hópana í fjölgreinunum og sömuleiðis fær hann hjálp frá Gogga vélmenni sem deildin hefur fjárferst í. Hægt er að stilla Gogga á mismunandi hraða og forrita hann í allskonar æfingar. Krakkarnir munu þá sjá bætingar hjá sér í fótaburði, hraða o.fl eftir því sem þau fá að spreyta sig á erfiðari stillingum.
Skráning fyrir börn og unglinga fer fram hér í Sportabler.
Fullorðinshópar
Við bjóðum upp á tíma á sunnudögum 18.30 – 21.00 fyrir trimmara sem vilja spila sér til heilsubótar. Í boði er að kaupa 10 tíma klippikort í tímanum eða skrá sig allan veturinn á Sportabler. Spilað er með plastkúlum en í boði er að kaupa fjaðrabolta hjá þjálfara fyrir þá sem kjósa að spila með svoleiðis lúxus.
Keppnishópur
Hamar á nokkra leikmenn í keppnishóp sem stefna á að taka þátt í Deildakeppni BSÍ og fleiri fullorðinsmótum í vetur í 1. og 2. deild. Við viljum endilega fá fleiri gamlar keppniskempur með okkur á æfingar og þau mega gefa sig fram við Róbert yfirþjálfara og koma og prófa að spila með.
Fjáraflanir
Við stefnum á að fara með krakkana í keppnis- eða æfingaferð í vetur og kannski í fleiri en eina. 6. september sl. Var deildin okkar með dósasöfnun. Allur ágóðinn af þessum gjörningi rennur beint í barna- og unglingastarfið. Við höfum getað gefið krökkunum boli og borgað mótsgjöld síðustu árin. En til að það sé áfram hægt þurfa allir að leggjast á eitt. Það var fámennt en góðmennt þetta kvöld og við stefnum alltaf á að klára að hlaupa í hús á tveimur klukkustundum svo þetta er alls ekki mikil viðvera. Við erum þakklát Hveragerðisbæ að fá inni í áhaldahúsi bæjarins sérstaklega á svona rigningardögum og eins þegar fer að frysta. Í lokin er alltaf pizzuveisla og gott spjall. Vonum að fleiri sjá sér fært að taka þátt í þessu með okkur næst.