Mikið mæðir á íþróttastarfi um þessar mundir og kappkosta allir við að fylgja reglum um sóttvarnir og um leið finna leiðir til að gera íþróttir sem öruggastar fyrir alla iðkendur félagisins. Við látum þó ekkert stoppað okkur (nema að einhverju leiti reglugerðir).

Undirrituð og Aðalstjórn Hamars eru í mikilli undirbúnings- og rannsóknarvinnu er lítur að þjónustu og framtíðarsýn félagsins. Þar sem miklar hömlur eru á samkomum og viðburðum höfum við þurft að fresta í tvígang svokölluðum “þjóðfundi”, en okkur þykir mikilvægt að fá bæjarbúa með okkur í lið til að vinna að enn bjartari framtíð félagsins. Við erum aftur á móti afar bjartsýnn hópur fólks og hlökkum til að geta hitt alla!

Einnig höfum við sett af stað könnun í samstarfi við Hveragerðisbæ og höfum við nú þegar fengið góða svörun frá foreldrum, takk fyrir það! Við viljum með þessu nálgast foreldra og opna línu milli okkar og ykkar. Við stefnum á að sú könnun verði framkvæmd árlega til að fá enn betri sýn á starfið og nýtum það verkfæri til að bæta okkur, með hjálp frá ykkur.

Starfið hefur farið af stað með ágætum þetta haustið og lágmarks truflun hefur verið á almennri starfssemi deilda. Við höfum þó að sjálfsögðu fundið fyrir því að takmarkanir eru settar á áhorfendur leikja meistaraflokka en ég held að liðin finni þó alltaf fyrir stuðningi bæjarbúa. Þar sem flestir iðkendur hafa fundið sinn stað í félaginu höfum við farið yfir skráningar og sjáum að einhverjir foreldrar/forráðamenn eiga eftir að ganga frá skráningu en við höfum fulla trú á að það gerist fljótt og örugglega á næstu dögum.

Breytingar og aukning hefur orðið á meistaraflokkum okkar á árinu en stofnaður var meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu, meistaraflokkur karla í blaki og meistaraflokkur kvenna í körfu hóf samstarf við Þór í Þorlákshöfn. Meistaraflokkar karla í knattspyrnu og körfuknattleik halda að sjálfsögðu ótröðir áfram að venju. Við gætum ekki verið stoltari af öllum okkar meistaraflokkum – áfram Hamar! Það gefur auga leið að meistaraflokkar eru frábærar fyrirmyndir fyrir iðkendur í yngri flokka.

Mig langar að taka smá pláss í þessum pistli til að færa þakkir þangað sem þær eru einnig verðskuldaðar. Þakkir til foreldra/forráðamanna, þakkir til sjálfboðaliða, þakkir til velunnara. Án óeigingjarns starfs og stuðnings ykkar væri íþróttastarfið ekki nærri því jafn öflugt og það er. Það á við um öll íþróttafélög á landinu og erum við sannarlega ekki undanskilin. Við hlökkum til að halda áfram samvinnu og horfum björtum augum til framtíðarinnar.

Sandra Björg Gunnarsdóttir

Framkvæmdastjóri