Helga Sóley Heiðarsdóttir er Íþróttamaður Hamars 2018. Þetta var tilkynnt í dag á aðalfundi Hamars sem haldinn var í Grunnskólanum í Hveragerði.

Helga Sóley er ákaflega vel af þessum titli komin, hún hefur verið ein aðalmanneskja körfuknattleiksliðs Hamars í meistaraflokki og verið öflug í unglingalandsliðinu einnig.

Tímabilið 2017-2018 var Helga Sóley að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki, enda aðeins 15 ára gömul í upphafi tímabils. Hún varð strax lykilleikmaður í meistaraflokk Hamars sem spilaði í 1.deild. Helga vakti mikla athygli á vellinum fyrir mikla snerpu, ákveðni og dugnað á báðum endum vallarins þrátt fyrir ungan aldur og að vera að spila á móti töluvert eldri og reyndari leikmönnum.

Helga Sóley Heiðarsdóttir í leik.

Á sama tíma var Helga Sóley að spila með sínum jafnöldrum í 10. Flokk kvenna í sameiginlegu liði Hamars og Hrunamanna. Liðið endaði tímabilið með frábærum árangri og náði 4. sæti Íslandsmótsins. Helga Sóley var einn af lykilleikmönnum þessa liðs.

Á vordögum ársins 2018 var Helga Sóley valin í u16 ára landslið Íslands. Hún spilaði með íslenska landsliðinu á Norðurlandamótinu í Helsinki og Evrópumótinu í Serbíu. Helga Sóley var í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu þetta ár og var til að mynda byrjunarliðsmaður í öllum leikjum liðsins.

Haustið 2018 hóf Helga Sóley þátttöku í körfuknattleiksakademíu FSu og spilar með stúlknaflokki undir merkjum Fsu. Stúlknaflokkliðið hefur náð góðum árangri á Íslandsmótinu nú þegar tímabilið er hálfnað.. Helga Sóley er einnig lykilleikmaður í meistaraflokki Hamars og fær stórt hlutverk í öllum leikjum liðsins.

Það er ljóst að árið 2018 hefur verið viðburðarríkt hjá þessum unga og efnilega íþróttamanni.

Helga Sóley er metnaðarfull og það fer aldrei fram hjá neinum að hún leggur sig ávallt 100% fram á öllum æfingum og leikjum. Hún skilur enga orku eftir. Hún er sterkur leikmaður á báðum endum vallarins. Í sókninni er hún dugleg að sækja upp að körfunni og stingur jafnan varnarmennina af.. Helga Sóley er líka ákveðinn varnarmaður sem er dugleg að gera sóknarmönnum andstæðingana erfitt fyrir.

Helga Sóley mætir allar æfingar og er dugleg að gera aukaæfingar. Hún hlustar vel á leiðbeiningar frá þjálfurum og er sífellt að vinna í að verða enn betri leikmaður.

Helga Sóley er góð fyrirmynd sem sýnir hvað hægt er að ná langt með áhuga, dugnað og vinnusemi í farteskinu.

Íþróttafélagið Hamar óskar Helgu Sóleyju innilega til hamingju með titilinn og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.

Aðrir sem tilnefndir voru eru sem hér segir:

Hluti af þeim hópi sem var tilnefndur í kjöri Íþróttamanns Hamars 2018. Allt saman mikið afreksfólk sem við erum stolt af.

KÖRFUKNATTLEIKSDEILD
Helga Sóley Heiðarsdóttir, körfuknattleiksmaður Hamars 2018

KNATTSPYRNA
Stefán Þór Hannesson, knattspyrnumaður Hamars 2018

SUNDDEILD
María Clausen Pétursdóttir, sundmaður Hamars 2018

BLAKDEILD
Baldvin Már Svavarsson, blakmaður Hamars 2018

BADMINTONDEILD
Margrét Guangbing Hu, badmintonmaður Hamars 2018

FIMLEIKADEILD
Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir, fimleikamaður Hamars 2018