Staða Hamarsliðanna sem taka þátt í Íslandsmótum á vegum Blaksambandsins með betra móti.

Hamar á 3 lið á Íslandsmótunum, karlalið í 1. og næstefstu deild og svo tvö kvennalið, einn í 2. deild og annað í 5. deild.

Karlaliðið er sem stendur í efsta sæti 1. deildar og stefnir hraðbyr í úrvalsdeild. Vestri frá Ísafirði sem er í 2. sæti, á þrjá leiki til góða og eru líklegir til að taka efsta sætið af okkar mönnum en 2 lið fara upp í úrvalsdeild að loknu tímabili.

 

Eftir aðra keppnishelgi í 2. deild kvenna er Hamar í 1. sæti með 28 stig og aðeins einn tapaðan leik af 11.  Fimmtán stig eru eftir í pottinum, eða 5 leikir og því ljóst að staða liðsins er góð fyrir lokaumferðina sem fram fer helgina 18. – 19. mars á Siglufirði.

5. deildar liðið stendur ekki alveg jafn vel að vígi. Liðið er rétt fyrir neðan miðja deild í 5. sæti af 8.  Sæti í 4. deild er úr augsýn en fall enn mögulegt þar sem 5 stig eru í fallsætið þegar 18 stig eru eftir í pottinum. Lokaumferðin í 5. deild fer einnig fram helgina 18. – 19. mars en í Garðabæ.