Það verður dregið í riðla í Meistaradeildinni í dag og eins og áður er mikil spenna í loftinu enda geta mörg stórlið lent saman í riðla. UEFA er búið að skipta liðunum 32 niður í fjóra styrkleikaflokka og þar vekur athygli að Porto er í efsta flokki frekar en ensku meistararnir í Manchester City.
Þetta þýðir að Manchester City gæti lent í riðli með spænsku meisturunum (Real Madrid), ítölsku meisturunum(Juventus) og þýsku meisturunum (Borussia Dortmund). Chelsea, Arsenal og Manchester United eru öll í efsta styrkleikaflokki en lið frá saman landi geta ekki lent saman í riðli.
20 af 32 liðum í pottinum voru með í Meistaradeildinni í fyrra en liðin í ár koma frá 17 löndum. Montpellier, Nordsjælland og Málaga eru í riðlakeppninni í fyrsta sinn og það er örugglega mikill spenningur í þeirra röðum um að fá að vita hvaða stórlið eru á leiðinni í heimsókn á næstu mánuðum.
Drátturinn í dag hefst klukkan 15.45 að íslenskum tíma en dregið verður í átta riðla þar sem fjögur félög spila heima og að heiman og keppa um tvö sæti í sextán liða úrslitunum. Hægt verður að fylgjast með drættinum á beinni útsendingu af vef UEFA hér.
Styrkleikalistarnir fyrir Meistaradeildardráttinn í dag:
Fyrsti styrkleikaflokkur: Chelsea, Barcelona, Manchester United, Bayern Munchen, Real Madrid, Arsenal, Porto, AC Milan.
Annar styrkleikaflokkur: Valencia, Benfica, Shakhtar Donetsk, Zenit St Petersburg, Schalke, Manchester City, Braga, Dynamo Kiev.
Þriðji styrkleikaflokkur: Olympiakos, Ajax, Anderlecht, Juventus, Spartak Moskva, Paris St Germain, Lille, Galatasaray.
Fjórði styrkleikaflokkur: Celtic, Borussia Dortmund, BATE Borisov, Dinamo Zagreb, CFR Cluj, Malaga, Montpellier, FC Nordsjælland.
Þessi frétt birtist á visir.is og má sjá hana hér.