Nú rétt í þessu lauk vígsluathöfn Hamarshallarinnar þar sem meðal annarra viðburða var boðið upp á leik stjörnuliðs Atla Eðvaldssonar gegn (h)eldri Hamarsmönnum.
Úrslit leiksins eru eitthvað á reiki og eru frásagnir þátttakenda og áhorfenda um þau misvísandi. Um það var rætt meðal áhorfenda að heiti potturinn í Laugaskarði yrði þéttsetinn eftir leik og að pantanir í sjúkranudd færu væntanlega að streyma til sjúkraþjálfara strax í fyrramálið. Leikurinn sjálfur var þó góð skemmtun og sáust ýmis skemmtileg tilþrif leikmanna og dómara sem allir áttu góðan dag og ekki að sjá að nokkur þeirra hafi formlega lagt skóna frægu á hilluna (einn úr stjörnuliðinu er enn að og er orðrómur um að vegna þess verði úrslit leiksins kærð, hver sem þau nú voru…).
Það er nokkuð víst að sú aðstaða til íþróttaiðkunar sem nú er komin í Hveragerði verður iðkendum á öllum aldri til ánægju, yndisauka og hagsbóta. Til hamingju Hvergerðingar nær og fjær!