Hamar sigraði Dalvík/Reyni í lokaleik 16. umferðar 2. deildar á Grýluvelli í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 2-1 eftir að jafnt hafði verið í hálfleik, 1-1.
Gestirnir í D/R komust yfir á 19. mínútu með föstu skoti sem fór af varnarþvögu Hamars og inn. Nýi skiptineminn okkar, Abdoulaye Ndiaye, jafnaði leikinn með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 44. mínútu. Nokkuð jafnræði hafði verið með liðunum en gestirnir þó sterkari framan af hálfleiknum.
Hamar tók völdin á vellinum í síðari hálfleik en átti erfitt með að finna netmöskvann allt þar til “gamli” skiptineminn okkar, Sene Abdalha, kom boltanu yfir línuna á 90. mínútu eftir frekar ódýra hornspyrnu. Gestirnir í D/R höfðu sótt í sig veðrið undir lok leiks og voru allt eins líklegir til að stela sigrinum en ein af fjölmörgum sérkennilegum ákvörðunum dómatríósins færði okkar mönnum þá hornspyrnu sem skóp sigurmarkið. Þess ber þó að geta að á hvorugt liðið hallaði sérstaklega í dómgæslunni og geta dómarar, eins og aðrir, átt sína slæmu daga. Verra þætti pistlahöfundi ef hagur Hamars hefði beðið skaða vegna þess er lokaflutið loksins gall. Það er því vonandi að Hamarsmenn hafi fundið lukkudísirnar eftirsóttu og þeim takist að halda þeim heilum og í lagi út tímabilið.