Það fór þó aldrei svo að strákarnir okkar í 7. flokki karla næðu ekki að springa út á heimavelli. Fyrir helgina hafði flokkurinn ekki unnið leik í b – riðli heldur haldið sér uppi á því að fjölgað var í riðlinum á milli móta, en strákarnir sýndu svo sannarlega að þeir eiga fullt erindi á þetta getu stig og gott betur. Strákarnir unnu Grindavík (38-44), Stjörnuna (33-27) og Skallagrím (37-26) en þurftu að játa sig sigraða gegn Njarðvík (33-35) eftir tvíframlengdan leik þar sem fjöldi vítaskota á lokasekúntum leiksins fór forgörðum hjá okkar drengjum. En þrátt fyrir þetta tap þá fer Hamar áfram þar sem Njarðvík hafði tapað fyrir Stjörnuni með tveimur stigum og Hamar unnið Stjörnuna með sex stigum og því ljóst að Njarðvík varð að vinna með fimm stigum. Leikurinn gegn Njarðvík var hinsvegar gríðarlega skemmtilegur og spennandi og alveg óhætt að segja að þetta sé einn af þeim leikjum sem strákarnir læra eitthvað af. Nú er það því ljóst að Hamarsstrákrnir munu spila í A – riðli helgina 11.-12. apríl og framundan stífar æfingar til að mæta sem best undirbúnir fyrir lokaúrslitinn í íslandsmótinu.