Hamar sendi Hrund Guðmundsdóttur og Úlf Þórhallsson á Meistaramót UMFA sem var haldið í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ helgina 23.-24. september sl.
Spilað var í riðlum og sigraði Hrund tvíliðaleik kvenna í 1.deild með Sigrúnu Marteinsdóttur úr TBR. Úlfur náði ekki upp úr erfiðum riðli í 2. deild en tók heilmikið til baka í reynslubankann. Þökkum UMFA fyrir flott mót og sendum vonandi fleiri til þeirra á næsta ári.
Róbert yfirþjálfari valdi níu krakka til að taka þátt í sterku móti í TBR um helgina þar sem 105 keppendur tóku þátt. Mótið er fyrsta A-mót vetrarins þar sem allir bestu badmintonspilarar landsins kepptu í flokkum U11 – U19. Krakkarnir fengu aldeilis að spreyta sig á móti þeim bestu og sáum við vel hvað sumaræfingarnar hafa skilað sér. Íris Þórhallsdóttir varð tvöfaldur Reykjavíkurmeistari í Snótum U11 en hún sigraði í tvíliðaleik með Ronju Vignisdóttur úr Hamri og tvenndarleikinn með Nam Quoc Nguyen úr KR. Íris fékk einnig silfur í einliðaleik en Lilja Guðrún Kristjánsdóttir úr BH sigraði flokkinn. Úlfur Þórhallsson fékk silfur í tvíliðaleik Drengir – U17 með félaga sínu úr Birni Ágústi Ólafssyni úr BH en þeir töpuðu fyrir Eggerti Þór Eggertssyni og Óðni Magnússyni úr TBR. Það er greinilegt að sumaræfingarnar eru að skila sér í hús því við áttum sjö spilara í undanúrslitaumferðinni á sunnudeginum og sýndu þau öll að þau geta vel spilað í A-flokks mótum í vetur.
Vel gert krakkar – ÁFRAM HAMAR!! Öll úrslit úr mótinu má finna hér.
Nú eru æfingar byrjaðar hjá deildinni og er hægt að finna allar upplýsingar um æfingatíma og æfingagjöld hér á síðunni.
Börn og unglingar Barna- og unglingastarfið fer vel af stað. Vegna plássleysis er ekki hægt að getu- eða aldursskipta æfingunum eins og er. Róbert hefur Úlf með sér með yngstu hópana í fjölgreinunum og sömuleiðis fær hann hjálp frá Gogga vélmenni sem deildin hefur fjárferst í. Hægt er að stilla Gogga á mismunandi hraða og forrita hann í allskonar æfingar. Krakkarnir munu þá sjá bætingar hjá sér í fótaburði, hraða o.fl eftir því sem þau fá að spreyta sig á erfiðari stillingum. Skráning fyrir börn og unglinga fer fram hér í Sportabler.
Fullorðinshópar Við bjóðum upp á tíma á sunnudögum 18.30 – 21.00 fyrir trimmara sem vilja spila sér til heilsubótar. Í boði er að kaupa 10 tíma klippikort í tímanum eða skrá sig allan veturinn á Sportabler. Spilað er með plastkúlum en í boði er að kaupa fjaðrabolta hjá þjálfara fyrir þá sem kjósa að spila með svoleiðis lúxus.
Keppnishópur Hamar á nokkra leikmenn í keppnishóp sem stefna á að taka þátt í Deildakeppni BSÍ og fleiri fullorðinsmótum í vetur í 1. og 2. deild. Við viljum endilega fá fleiri gamlar keppniskempur með okkur á æfingar og þau mega gefa sig fram við Róbert yfirþjálfara og koma og prófa að spila með.
Fjáraflanir Við stefnum á að fara með krakkana í keppnis- eða æfingaferð í vetur og kannski í fleiri en eina. 6. september sl. Var deildin okkar með dósasöfnun. Allur ágóðinn af þessum gjörningi rennur beint í barna- og unglingastarfið. Við höfum getað gefið krökkunum boli og borgað mótsgjöld síðustu árin. En til að það sé áfram hægt þurfa allir að leggjast á eitt. Það var fámennt en góðmennt þetta kvöld og við stefnum alltaf á að klára að hlaupa í hús á tveimur klukkustundum svo þetta er alls ekki mikil viðvera. Við erum þakklát Hveragerðisbæ að fá inni í áhaldahúsi bæjarins sérstaklega á svona rigningardögum og eins þegar fer að frysta. Í lokin er alltaf pizzuveisla og gott spjall. Vonum að fleiri sjá sér fært að taka þátt í þessu með okkur næst.
https://www.hamarsport.is/wordpress/wp-content/uploads/2023/09/Screenshot-2023-09-13-at-17.00.26.png8991538Hrund Gudmundsdottirhttps://www.hamarsport.is/wordpress/wp-content/uploads/2024/04/Untitled-design-15.pngHrund Gudmundsdottir2023-09-13 17:34:502023-09-13 17:41:39Vetrarstarf Badmintondeildarinnar komið á fullt