Mikið mæðir á íþróttastarfi um þessar mundir og kappkosta allir við að fylgja reglum um sóttvarnir og um leið finna leiðir til að gera íþróttir sem öruggastar fyrir alla iðkendur félagisins. Við látum þó ekkert stoppað okkur (nema að einhverju leiti reglugerðir).

Undirrituð og Aðalstjórn Hamars eru í mikilli undirbúnings- og rannsóknarvinnu er lítur að þjónustu og framtíðarsýn félagsins. Þar sem miklar hömlur eru á samkomum og viðburðum höfum við þurft að fresta í tvígang svokölluðum “þjóðfundi”, en okkur þykir mikilvægt að fá bæjarbúa með okkur í lið til að vinna að enn bjartari framtíð félagsins. Við erum aftur á móti afar bjartsýnn hópur fólks og hlökkum til að geta hitt alla!

Einnig höfum við sett af stað könnun í samstarfi við Hveragerðisbæ og höfum við nú þegar fengið góða svörun frá foreldrum, takk fyrir það! Við viljum með þessu nálgast foreldra og opna línu milli okkar og ykkar. Við stefnum á að sú könnun verði framkvæmd árlega til að fá enn betri sýn á starfið og nýtum það verkfæri til að bæta okkur, með hjálp frá ykkur.

Starfið hefur farið af stað með ágætum þetta haustið og lágmarks truflun hefur verið á almennri starfssemi deilda. Við höfum þó að sjálfsögðu fundið fyrir því að takmarkanir eru settar á áhorfendur leikja meistaraflokka en ég held að liðin finni þó alltaf fyrir stuðningi bæjarbúa. Þar sem flestir iðkendur hafa fundið sinn stað í félaginu höfum við farið yfir skráningar og sjáum að einhverjir foreldrar/forráðamenn eiga eftir að ganga frá skráningu en við höfum fulla trú á að það gerist fljótt og örugglega á næstu dögum.

Breytingar og aukning hefur orðið á meistaraflokkum okkar á árinu en stofnaður var meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu, meistaraflokkur karla í blaki og meistaraflokkur kvenna í körfu hóf samstarf við Þór í Þorlákshöfn. Meistaraflokkar karla í knattspyrnu og körfuknattleik halda að sjálfsögðu ótröðir áfram að venju. Við gætum ekki verið stoltari af öllum okkar meistaraflokkum – áfram Hamar! Það gefur auga leið að meistaraflokkar eru frábærar fyrirmyndir fyrir iðkendur í yngri flokka.

Mig langar að taka smá pláss í þessum pistli til að færa þakkir þangað sem þær eru einnig verðskuldaðar. Þakkir til foreldra/forráðamanna, þakkir til sjálfboðaliða, þakkir til velunnara. Án óeigingjarns starfs og stuðnings ykkar væri íþróttastarfið ekki nærri því jafn öflugt og það er. Það á við um öll íþróttafélög á landinu og erum við sannarlega ekki undanskilin. Við hlökkum til að halda áfram samvinnu og horfum björtum augum til framtíðarinnar.

Sandra Björg Gunnarsdóttir

Framkvæmdastjóri

Knattspyrnudeild Hamars leitar nú að metnaðarfullum þjálfara til að þjálfa meistaraflokk karla félagsins.

Hamar spilar í 4. Deild en hafa verið úr úrslitakeppni s.l ár og verið hársbreidd frá því að komast upp um deild. Í Hveragerði eru aðstæður til knattspyrnuiðkunnar ansi góðar. Á veturnar er æft inni í hlýrri Hamarshöll og á sumrin er æft og keppt á einstöku vallarstæði, Grýluvelli. Nýlega var fjárfest í myndavél sem tekur upp alla leiki liðsins og hægt er að nýta hana fyrir leikgreiningu. Öll umgjörð hjá deildinni er mjög góð og er mikill metnaður í að gera enþá betur og bæta það sem bæta þarf.

Við leitumst eftir þjálfara sem er tilbúin í að halda áfram bæta og efla þá leikmenn sem eru til staðar hjá okkur og halda áfram að byggja upp það starf sem hefur verið undanfarin ár.

Áhugasamir þjálfarar geta sótt um starfið með því að senda email á ollimagnusson@gmail.com.

Allir yngri flokkar félagsins eru komnir á fullt. Gaman að sjá hvað við erum með marga iðkendur hjá okkur. Við getum alltaf tekið við fleiri iðkendum og þau sem að vilja koma og prófa fótboltaæfingu eru velkomin að gera það við frábærar aðstæður.

Endilega mæta á æfingar og prófa eða hafa samband við þjálfara um frekari upplýsingar (sjá upplýsingar um þjálfara flokkana hér að ofan undir þjálfarar)

Jóhann Bjarnason mun ekki þjálfa Meistaraflokk karla hjá Hamri áfram. Fyrir tveimur árum fengum við Jóa til að stýra meistaraflokki karla og má sanni segja að hann hafi unnið frábært starf fyrir félagið. Jói bjó til flott lið úr ungum og efnilegum strákum frá Hveragerði og nærsveitum sem náði góðum árangri s.l tvö tímabil. Bæði tímabilin sem þjálfari skilaði hann liðinu í úrslitakeppni og var liðið hársbreidd frá næsta skrefi bæði árin. Árin tvö sem Jói hefur þjálfað hjá Hamri hefur hann sýnt gríðarlega mikla fórnfýsi og verið sannur félagsmaður. Alltaf boðinn og búinn til að aðstoða við þau verk sem þarf að ganga í, hvort sem það er dómgæsla hjá yngri flokkum, fjáraflanir fyrir félagið eða það sem vantar.

Nú munu leiðir skilja í meistaraflokki karla og vill Knattspyrnudeild Hamars þakka Jóa kærlega fyrir sín störf fyrir félagið og óska honum velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Við vonum innilega að Jói haldi áfram að vera nálægt okkar félagi.

Nú eru framkvæmdir hafnar uppi í Laugaskarði með breytingar á klefum og því ekki hægt að halda úti starfi Sunddeildar þar.

Samningar náðust við Hótel Örk um að fá að hafa æfingar þar í sundlauginni þeirra.

Fyrstu æfingarnar fóru þar fram í síðustu viku og tókust svona ljómandi vel. Aðstaðan er mjög góð þarna og krakkarnir náðu góðri æfingu. Sunddeildin þakkar Hótel Örk kærlega fyrir að hlaupa undir bagga og aðstoða sunddeildina við að halda úti æfingum á meðan Laugaskarð er lokað.

Þess má einnig geta að eldri krakkarnir fara einnig á æfingar í sundlaugina á Selfossi svo þau geti synt í lengri laug.

Hamar, nýliðarnir í úrvalsdeild karla í blaki, gerði frábæra ferð norður á Akureyri þegar liðið vann KA afar sannfærandi 3-0. Hamar hefur því unnið fyrstu tvo leiki sína í efstu deild.

Lið Hamars vann sinn fyrsta leik gegn Þrótti Nes 3-0 en heimamenn í KA höfðu enn ekki spilað leik. Í fyrstu hrinu leiksins ríkti mikið jafnræði með liðunum og skiptust þau á að skora, KA hafði nauma forystu lengst af en Hamar jafnaði um miðja hrinu. Þeir skoruðu svo síðustu tvö stigin og tryggðu 23-25 sigur.

Hamar byrjaði aðra hrinu enn betur og komst 0-5 yfir. Gestirnir juku forystuna smám saman eftir því sem leið á hrinuna og vann örugglega, 17-25. Þriðja hrinan var nokkuð lík annarri hrinunni og hafði Hamar þægilegt forskot þangað til undir lokin. KA átti frábæra endurkomu en Hamar vann þó að lokum 22-25. Gestirnir unnu því 0-3 sigur og fara á topp deildarinnar með tvo 3-0 sigra úr tveimur leikjum.

Miguel Mateo Castrillo stigahæstur í liði KA með 10 stig en Jakub Madej stigahæstur hjá Hamri með 15 stig. 

( frétt tekin af vef: https://www.ruv.is/frett/2020/09/30/hamar-for-a-kostum-fyrir-nordan)