Jón Guðmundsson, fyrsti formaður knattspyrnudeildar Hamars, féll frá nú í janúarmánuði. Jón var drengur góður, vildi öllum vel og vildi allt fyrir alla gera. Jón var vakinn og sofinn yfir starfi knattspyrnudeildarinnar og vann ötullega að uppbyggingu knattspyrnuíþróttarinnar í Hveragerði í sinni formannstíð. Það fór varla fram knattspyrnuleikur hjá Hamri öðruvísi en að Jón væri viðstaddur, hvetjandi sitt fólk áfram. Knattspyrnuiðkendur Hamars eiga Jóni mikið að þakka, án hans eljusemi og ástríðu er óvíst hvernig umhorfs væri hjá knattspyrnudeildinni í dag. Jón var frumkvöðull og hugsjónamaður, hann lagði líf sitt og sál í að koma knattspyrnudeildinni á koppinn á erfiðum og umhleypingasömum tímum. Jón markaði djúp spor í sögu knattpyrnudeildarinnar, hann var hvers manns hugljúfi, sanngjarn, réttsýnn, jákvæður, skynsamur og umfram allt góður maður. Menn eins og Jón eru fyrirmyndir, fyrirmyndir þeirra sem gefa frítíma sinn í þágu annarra án þess að óska einhvers í staðinn. Á lokahófi meistaraflokks knattspyrnudeildarinnar árið 2006, var Jóni veitt viðurkenning fyrir hans störf  og hann um leið útnefndur sem fyrsti heiðurfélagi knattspyrnudeildarinnar. Þurfti að beita Jóni umtalsverðum fortölum til að taka við þeirri viðurkenningu, enda var Jón hógvær með eindæmum og ekki mikið fyrir að trana sér fram. Við syrgjum fráfall Jóns og vottum fjölskyldu hans okkar samúð. Um leið og við kveðjum Jón með söknuði, viljum við þakka, minnast og gleðjast yfir þeim tíma og því starfi sem hann gaf af sér í þágu knattspyrnudeildarinnar.

Hjörtur Sveinsson

Verðlaunahafar

Jón útnefndur

Blakmaður Hamars árið 2013 er Ásdís Linda Sverrisdóttir. 

Valið á blakmanni ársins er alltaf erfitt.  Blak er leikur liðsheildarinnar og það á sérlega vel við í blakliðum Hamars, þar sem liðin eru mönnuð vel spilandi einstaklingum í öllum stöðum og liðsheildin ræður jafnan úrslitum.  Þannig að þó hér sé einn einstaklingur heiðraður, þá mega allir iðkendur félagsins una vel við sinn hlut og taka til sín hluta af þessum heiðri. 

Blakmaður ársins á að vera einstaklingur sem spilar íþróttina vel, en einnig einstaklingur sem leggur sig fram bæði í keppni og á æfingum, byggir á styrkleikum sínum en vinnur á veikleikum og tekur þannig framförum, mætir vel á æfingar og er drífandi í félagsstarfinu, og er góður félagi bæði innan og utan vallar.  Blakmaður ársins 2013 uppfyllir svo sannarlega allar þessar kröfur. 

Blakmaður ársins hefur aðeins stundað blakið í nokkur ár.  Hún var engu að síður lykilmanneskja í sókn Hamarsliðsins undanfarið ár, auk þess að vera mjög öflug í hávörn.  Þá hefur hún tekið stórstígum framförum í lágvörn og skilar því hlutverki af prýði, auk þess sem varnir andstæðinganna kvíða uppgjöfum hennar.  Fyrir utan deildakeppni og öldungamót tók hún þátt í strandblaki í sumar með góðum árangri og kom til keppni í haust í betra formi en nokkru sinni.  Loks er hún einstaklega ljúfur og skemmtilegur félagi, góð bæði við menn og dýr.

Björn Metúsalem Aðalsteinsson

 

Hefur verið útnefndur sem:

 

Knattspyrnumaður Hamars árið 2013

 

Björn byrjaði að spila með Mfl Hamars árið 2009. Hann hefur því leikið fimm tímabil með flokknum, spilað 101 leik og verið markmaður liðsins.

 

Hann var einn af lykilmönnnum liðsins árið 2013, spilaði alla leiki liðsins í deild og bikar eða 25 talsins. Björn hélt markinu hreinu þrisvar á erfiðu tímabili.

 

Hann hefur bætt sig gríðarlega sem knattspyrnumaður á síðasta ári, styrkt sig líkamlega og þroskast sem leikmaður.

 

Björn er góð fyrirmynd innan sem utan vallar og er vel að titlinum kominn sem Knattspyrnumaður Hamars árið 2013.

 

Við í knattspyrnudeild óskum Birni til hamingju.

IMG_7586  

Ævar Sigurðsson og Björn Metúsalem

 

Sigurður Guðmundsson blakfélagi okkar Hamarsmanna lést þann 12. febrúar, eftir snarpa baráttu við krabbamein. Er þetta fyrsta skarðið sem hoggið er í hóp þeirra ágætu blakara sem stundað hafa íþróttina í Hveragerði undanfarin 20 ár.   Blakdeild Hamars í Hveragerði var stofnuð árið 1993 og á fyrstu árum deildarinnar komu til liðs við okkur hjónin Sigurður Guðmundsson og Hulda Sigurlína Þórðardóttir. Siggi og Lína, eins og þau gjarnan voru nefnd sem órofa heild,.komu inn í blaklífið með okkur af áhuga og krafti. Var mikill styrkur af þeim hjónum sem bæði þóttu afar liðtæk í íþróttinni. Siggi hlaut sitt blakuppeldi með Víkingi í Reykjavík, þar sem á árum áður var rekin kröftug blakdeild. Náði hann á þeim árum að komast í landslið Íslands og leika þónokkra landsleiki. Siggi var hávaxinn miðjumaður og miðlaði af reynslu sinni til yngri manna. Hann var afar fylginn sér og lét okkur heyra það þegar honum þótti nóg um aumingjaskapinn. Að sama skapi hvatti hann okkur yngri mennina til dáða þegar mikið lá við, sem ekki veitti af á þeim árum. Siggi tók að sér þjálfun af og til og til að mynda þjálfaði hann lið HSK sem tók þátt í Landsmóti UMFÍ á Egilsstöðum og Neskaupstað  árið 2001 og  spilaði að sjálfsögðu með. Einnig kom hann að liðsstjórn og var í leikmannahópi HSK liðsins sem keppti á landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki 2004.  Öldungamót blakara eru landsfræg og þar lagði Siggi sitt af mörkum og átti stóran þátt í að Hamar vann sér sæti í 1. deild í fyrsta sinn á því móti. Siggi hlaut að sjálfsögðu nafnbótina “blakmaður Hamars” í sinni tíð.  Tóku þau hjón fullan þátt í félagslífi deildarinnar og gleðistundirnar voru margar sem gott er að minnast nú. Hnjámeiðsli gerðu Sigga blakið erfitt hin seinni ár og eftir að þau hjón fluttu í Kópavog reyndu þau eftir megni að sækja árlegar blaksamkomur, eins og Daddamótið. Þau voru ávallt góð heim að sækja og til marks um gestrisni þeirra þá buðu þau fram hús sitt, í Kópavogi, fyrir bæði lið okkar í uppihald og gistingu þegar við tókum þátt í öldungamótinu í Garðabæ árið 2007. Við blakfélagar þökkum góðan félagskap og samfylgdina á mörgum keppnis og gleðistundum og vottum Huldu Línu, Vigni, Svandísi, Rakel Rebekku, mökum, barnabörnum og aðstandendum okkar dýpstu samúð.    

Valdimar Hafsteinsson

[nggallery  id=25]

 

 

Firma- og hópakeppni knattspyrnudeildar Hamars verður leikin laugardaginn 22. mars í Hamarshöllinni í Hveragerði. Það er alltaf gott veður í Hamarshöllinni og er hitastigið þar eins og á mildu vorkvöldi í Suður Evrópu. 

Nú er tækifæri fyrir lið, hópa og bara hverja sem er til að koma saman og leika fótbolta við bestu aðstæður á Suðurlandi. 

 

Fyrirkomulag mótsins: 
-Leikið er í liðum, 6 á móti 6.

-Leikið er eftir reglum KSÍ um keppni 7 manna liða. 
Stærð vallar er 42 x 32 metrar (1/4 af fullum velli). 

-Leiktími hvers leiks er 1 x 12 mín.

-Hvert lið leikur að lágmarki 4 leikir.

-Hver leikmaður er aðeins hlutgengur með einu liði í mótinu.

-Dómgæsla er í höndum mótshaldara. 

Verðlaun:

Öll þátttökulið fá viðurkenningu og verðlaun. Verðlaunapeningar verða veittir fyrir þrjú efstu sætin og hlýtur sigurliðið einnig bikar og vegleg verðlaun frá styrktaraðilum. 

Skráning:

Þátttöku ber að tilkynna í síðasta lagi mánudaginn 17. mars á netfangið avar75@gmail.com eða  í síma : 698-3706

Þar sem takmarkaður fjöldi liða kemst að gildir „fyrstur kemur, fyrstur fær“.

Með þátttökutilkynningunni er nauðsynlegt að með fylgi upplýsingar um nafn tengiliðs hjá viðkomandi liði ásamt símanúmeri og netfangi.

Þátttökugjald í firma- og hópakeppnina er kr. 15.000,- á lið sem ber að greiða um leið og mótshaldari hefur staðfest þátttöku viðkomandi liðs.

 

 

Búið er að draga í fyrstu tvær umferðir í Borgunarbikar karla. Fyrsta umferðin fer fram laugardaginn 3. maí en önnur umferðin er á dagskrá tíu dögum síðar.

Hamar fékk heimaleik á móti Snæfell sem spilaður er laugardaginn 3. maí.  Ef Hamar slær út Snæfell fáum við annan heimaleik þriðjudaginn 13. maí á móti KFR eða Álftanes.

Nýjasti leikmaður Hamars kemur frá Víking Reykjavík og heitir Matthías Ragnarsson.  Matthías er markmaður og er fæddur 1994.

Aðalfundur blakdeildar verður haldinn fimmtudaginn 13. febrúar kl. 21, í aðstöðuhúsinu við Hamarshöllina.

 Íþróttafélagið Hamar heldur aðalfund í Grunnskólanum í Hveragerði sunnudaginn 23. febrúar 2014 kl. 14.00

Fundarefni:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Reikningsskil.
4. Venjuleg aðalfundarstörf.
5. Önnur mál.
6. Verðlaunaafhending og lýst kjöri íþróttamanns Hamars.
7. Kaffiveitingar í boði Hamars.

Verið velkomin

Stjórnin