Í sumar tók stjórn Hamars ákvörðun um að endurnýja heimasíðu Hamars.  Eldri síðan hefur þjónað sínum tilgangi ágætlega í gegnum árin en margt vantar þó upp á svo hún sé nútímaleg og notendavæn.  Nýja síðan verður notendavænni í alla staði, fyrir iðkendur,foreldra og þjálfara.  Linkar verða á síðunni inn á Facebook og Twitter og einnig verður aðvelt að setja inn efni á síðuna t.d með snjallsímum.

Það er fyrirtækið Vefþjónustan sf. sem sér um hönnun og uppsetningu.  Anton Tómasson  hefur verið  okkur í stjórn Hamars til halds og trausts við gerð síðunnar.

Á árinu hefur Hamar innleitt Nori skráningarkerfið.  Markmiðið er að allar deildir félagsins noti kerfið en það mun gjörbreyta allri vinnu og utanumhaldi vegna deilda Hamars.  Kerfið bíður upp á greiðslur með kreditkortum og einnig er mögulegt að dreifa greiðslum yfir árið.  

Það er von okkar að þetta muni stórbæta vinnuumhverfi þjálfara  ásamt því að vera til mikilla hagsbóta fyrir foreldra og iðkendur.

En aðeins af starfi félagsins sl. mánuði.  Í sumar stóð Hamar fyrir leikjanámskeiði í samstarfi við bæjaryfirvöld.  Námskeiðið lukkaðist með eindæmum vel þetta árið og vill stjórn Hamars færa Maríu Kristínu Hassing og hennar dyggu aðstoðarmönnum þakkir fyrir framúrskarandi störf í sumar.

Haldin voru 2 strandblakmót í sumar á nýja vellinum við sundlaugina.  Blakdeild Hamars sá um skipulagningu og utanumhald mótanna. Völlurinn hefur sannað gildi sitt rækilega og voru iðkendur sem komu víða að himinlifandi með völlinn og ekki síður með staðsetninguna sem er einstök.

Hamarshöllin kemur vel út og hefur gjörbyllt allri aðstöðu til íþróttaiðkunar í Hveragerði.  Möguleikar við nýtingu húsins eru miklir og mikil aukning er á notkun húsins  milli ára.

Ég vil að lokum í upphafi vetrar hvetja sem flesta til að iðka þær íþróttir sem í boði eru hjá Hamri. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á www.hamarsport.is

Kveðja

Hjalti Helgason

Formaður Hamars

Leikjanámskeiðið sem haldið var í sumar heppnaðist nokkuð vel og komin nokkur reynsla á þetta fyrirkomulag. Námskeiðið var í þetta skiptið með aðsetur í Íþróttahúsinu við Sunnumörk og gátu stjórnedur með því móti skipulagt tíma innanhúss ef veður væri hamlandi útiveru sem var þó afar sjaldan í ár. Ýmislegt var tekið sér fyrir hendur og brallað eins og sjá má á myndasafni hér fyrir neðan.

Umsjónarmaður leikjanámskeiðsins í sumar var María Kristín Hassing og hafði hún trausta aðstoðarmenn með sér einnig. Námskeiðið er hluti af samstarfssamning Hveragerðisbæjar og Íþróttafélagsins og kemur bærinn að námskeiðinu með ýmsum hætti en Íþróttafélagið sér um utanumhald. [nggallery id=6]

Á síðasta ári tók stjórn Hamars þá ákvörðun að taka upp notkun á skráningar- og greiðslukerfinu Nori sem mörg önnur íþróttafélög hér á landi hafa notað við góðan orðstír síðustu ár. Á þessu ári sem liðið er hafa forsvarsmenn deilda Hamars verið að læra á kerfið og feta sig áfram í notkun á því og er nú svo komið að í haust munu allar deildir hefja notkun á Nori. Með tilkomu þessa kerfis verður skráning iðkenda í íþróttir og námskeið á vegum Íþróttafélagsins Hamars mun einfaldara og fljótlegra heldur áður hefur verið. Kerfið reiknar sjálfkrafa systkinaafslátt, hægt er að dreifa greiðslum yfir marga mánuði og einnig er hægt að stjórna greiðslufyrirkomulagi, hvort það sé millifært, greitt með kreditkorti eða greiðsluseðill sendur heim, það er þó ákvörðun hverrar deildar fyrir sig hvernig greiðslufyrirkomulag er. Nori kerfið heldur svo utan um allar greiðslur sem koma inn og því verður allt miklu skilvirkara og álag á gjaldkera og þjálfara minnkar þar sem þeir geta þá fylgst með með einföldum hætti hvaða iðkendur hafa greitt og hverjir ekki.

Einfalt í notkun.

Fyrir foreldra og forráðamenn er kerfið einfalt í notkun. Það sem þeir þurfa að gera að fara á vefslóðina http://hamar.felog.is/, einnig er hægt að finna slóðina á vefsíðunni hér hægra megin. Þegar þangað er komið skrá foreldrar/forráðamenn sig inn og þegar innskráningu er lokið geta þeir svo séð hvaða námskeið og íþróttir eru í boði fyrir hvern iðkanda fyrir sig.

Nánari leiðbeiningar er að finna á http://nori.felog.is/.

 

Friðrik Sigurbjörnsson

Gjaldkeri aðalstjórnar

Íþróttafélagið Hamar

 

Accademia Acrobatica – Æfingaferð til Ítalíu

Fimleikadeild Hamars fór með elsta hóp deildarinna í æfingaferð til Ítalíu síðastliðinn Read more

Við fengum hann Hallgrím Brynjólfsson, betur þekktan sem Hadda í stutt spjall fyrir veturinn sem framundan er. Eins og flestir vita þá spila Hamarsstelpur aftur í deild þeirra bestu eftir eins árs dvöl í fyrstu deild þar sem liðið fór með sigur gegn Stjörunni í hörku einvígi.

Hvernig leggst veturinn í þig?

Hann leggst vel í mig, þetta verður fjör alla leið ef við leggjum okkur fram við verkefnið!

Ertu búinn að finna erlendan leikmann?

Já við erum búin að semja við stelpu sem heitir Diamber Johnson

Hvernig verður liðið skipað í vetur?

Manneskjum

Hvert er markmið vetursins?

Við tökum eitt skref í einu, förum í alla leiki til þess að sigra og sjáum svo hvert það leiðir okkur?

Ef þú mættir velja einn leikmann á íslandi í liðið þitt hver yrði fyrir valinu?

Er ekkert að pæla í öðrum leikmönnum öðrum en okkar eigin.

Fyrsti leikur er heima gegn Njarðvík, hvernig leggst hann í þig?

Mjög vel. Þetta verður hörkuleikur þar sem að tvö ólík lið mætast.

Eitthvað að lokum?

Ég hvet fólk til þess að mæta á völlinn og sjá stelpurnar spila í vetur, þetta verður skemmtilegt!

 

Við þökkum Hadda fyrir spjallið og hvetjum líkt og hann fólk til þess að mæta en stelpurnar mæta Njarðvík í fyrsta deildarleiknum þann 9. okt í Hveragerði.

Það hefur væntalega ekki farið fram hjá málkunnugum að hinn geðþekki  Bragi Bjarnason er tekin við þjálfarastarfinu hjá meistarflokki Hamars í körfunni og tekur þar við Lárusi Jónssyni sem horfin er á vit ævintýranna á suðrænni slóðum. Hamar spilar í 1.deildinni í vetur og ekki úr vegi að fá nýjan þjálfara strákanna til að svara nokkrum spurningum svona í byrjun vetrar. (mynd; Ívar, Lárus Ingi, Bragi og Birgir við undirskrift samnings)

Bragi Bjarnason var ráðinn til þess að koma og þjálfa Hamar í vetur og tekur hann við starfinu af Lárusi Jónssyni sem þurfti að hverfa á brott. Bragi mun líklega koma til með að vera spilandi þjálfari líkt og Lárus var og hlökkum við að sjá hann stýra brúnni.

 Hvernig leggst veturinn í þig?

Mjög vel. Erum með fjölbreyttan og sterkan hóp sem getur náð mjög langt. Sýnist 1. deildin geta orðið mjög spennandi í vetur og nokkur lið sem munu berjast um eftsta sætið og sé ég Hamar vera eitt af þeim.

 

Hvernig kemur kaninn inn í hópinn?

Hann smellpassar inn í liði. Flottur einstaklingur sem á eftir að gera aðra leikmenn góða í kringum sig. Mjög fær varnarmaður og þessi fyrstu leikir í Lengjubikarnum sýna mér að þetta verður án efa einn af bestu erlendu leikmönnunum í fyrstu deildinni.

Hvernig verður liðið skipað í vetur?

Við verðum með svona c.a. 13-14 manna hóp þegar allir verða komnir af stað. Nokkrir eru að kljást við smávægileg meiðsli og vonandi verða allir komir á fullt þegar deildin byrjar. Erum með góða blöndu í hópnum sem verður spennandi að setja saman. 

Hvert er markmið vetursins?

Markmið vetrarins fyrir liði á eftir að ræða innan hópsins en verður gert núna í september. Ég persónulega hef sett mér ákveðin markmið fyrir veturinn en kýs að halda þeim út af fyrir mig.

Ef þú mættir velja einn leikmann á íslandi í liðið þitt hver yrði fyrir valinu?

Góð spurning. Miðað við meiðslastöðuna núna þá væri ég til í að bæta við einum kjötskrokk í teiginn. Nokkrir kæmu sannarlega til greina.

Fyrsti leikur er heima gegn ÍA hvernig leggst hann í þig?

Spenntur. Erum núna á fullu í Lengjubikarnum og sjáum bætingu á liðinu eftir hvern leik svo við verðum klárir gegn ÍA í fyrsta leik. Klárum 2 stig í hús og leggjum af stað í veturinn af krafti.

Eitthvað að lokum?

Hvet alla að mæta í Frystikistuna á leiki karla- og kvennaliðsins í vetur. Ég man sjálfur eftir stemmningunni í húsinu þegar ég var að spila með Hamri forðum og langar mig virkilega að ná því upp aftur. Lið eiga að óttast það að mæta í Hveragerði og þá þurfa stuðningsmennirnir að fylla bekkina og hvetja sitt lið áfram.

 

Krakka og unglingablak

Seinasta vetur bauð blakdeild Hamars uppá blakæfingar fyrir krakka og unglinga. Um 25 krakkar komu á æfingar og skipt var í eldri og yngri hóp.

Í vetur býður Blakdeild Hamars uppá aftur uppá æfingar í tveimur aldursflokkum á eftirfarandi dögum:

Mánudaga og miðvikudaga í Hamarshöllinni:
15:00-16:00- 11 ára og yngri  (3. og 4. flokkur)
16:00-17:00- 12 ára og eldri   (5. og 6. flokkur)

 

Æfingar hefjast mánudaginn 9. september.

Þjálfari í vetur er Guðbergur Egill Eyjólfsson. Guðbergur Egill lék blak með HK, ÍS og KA og með landsliðum Íslands 1990-1999.  Hann varð m.a. nokkrum sinnum Íslands- og bikarmeistari með HK og ÍS. Guðbergur er nýfluttur í Hveragerði og mun jafnframt þjálfa meistaraflokka Þróttar í Reykjavík, karla og kvenna. Netfang þjálfara: hleskogar@hleskogar.is. Gsm : 863-3112

 

Blak er  skemmtileg íþrótt sem stunduð er um allt land.  

Opnir kynningatímar verða í byrjun og svo skráning á skráningardegi sem auglýstur verður síðar.

Nánari upplýsingar má sjá á www.hamarsport.is/blak.

Verið velkomin á blakæfingu.

 

Í eftirfarandi linkum á Youtube má sjá blak í sinni bestu mynd:

Brazil wins Women’s London 2012 Olympics: http://www.youtube.com/watch?v=mpRxavivngI

Mens volleyball final London Olympics 2012:  http://www.youtube.com/watch?v=ovujPi4vUQ4

Ný stjórn yngri flokka knattspyrnudeildar Hamars tók til starfa í byrjun árs.

Í vetur hafa æfingar gengið vel í Hamarshöllinni þrátt fyrir nokkrar mannabreytingar í þjálfaramálum. Stjórnin setti sér það markmið að ná að skrá kvennalið á Íslandsmót sem hafðist en það hafði ekki tekist í nokkurn tíma. Það er markmið nýrrar stjórnar að efla kvennaboltann til mikilla muna næstu misseri.

Sú nýbreytni átti sér stað í vetur að meistaraflokkur bauð öllum yngri flokka iðkendum á æfingu. Það var spilað farið í leiki og myndaðist mikið fjör í Hamarshöllinni. Æfingin endaði svo með flottri grillveislu.

Það var einnig markmið stjórnar að skrá alla flokka á Íslandsmót og yngstu flokkana á alla vega eitt stórt mót, ásamt öðrum dagsmótum. Liðin stóðu sig mjög vel á þeim mótum sem farið var á. Meðal annars lenti 6. flokkur í 3. sæti á Smábæjarleikunum á Blönduósi nú í sumar. Sameiginlegt lið Hamars/Ægis fékk verðlaun fyrir góða framkomu innan sem utan vallar á N1 mótinu á Akureyri. Í kringum stóru sumarmótin voru stofnuð foreldraráð sem voru skipuð áhugsasömum og duglegum foreldrum iðkenda og viljum við þakka þeim fyrir frábært starf. Foreldraráðin héldu utan um fjáraflanir fyrir mótin og var meðal annars seldur áburður sem sló í geng. Þeir iðkendur sem tóku þátt náðu að safna fyrir mótsgjöldum. Stefnt er að því næsta vor að halda áburðarsölu áfram.

Í júlí hefur knattspynudeildin haldið úti Knattspyrnuskóla fyrir börn fædd 2007-2008 í umsjón Ágústar Ö. Magnússonar (Ölla) og börn fædd 2001-2006 í umsjón Höllu Karenar Gunnarsdóttur og Sigurðar Gísla Guðjónssonar. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og stefnt er að því að vera með knattspyrnuskólann aftur næsta sumar.

Eitt af þeim markmiðum sem ný stjórn setti sér var að allir iðkendur yngri flokkanna fengu hettupeysur að gjöf frá deildinni. Stjórnin lagðist á eitt að safna auglýsingum á peysurnar og gekk það framar vonum. Stjórnin vill koma á framfæri góðum þökkum til þeirra fyrirtækja sem styrktu þetta verkefni. Iðkendur fengu peysurnar afhentar í byrjun júní og voru því allir klæddir fínu Hamarspeysunum á mótum sumarsins.

Næsta vetur verður ráðinn yfirþjálfari hjá knattspyrnudeildinni sem mun sjá um þjálfun allra flokka og mun hann hafa með sér einn aðstoðarþjálfara. Fyrstu æfingarnar munu hefjast kl. 13:00 í Hamarshöllinni og munu yngstu iðkendurnir fá fyrsta æfingatímann til þess að tengja starfið sem best við skólasel. Stefnt er að því að hafa námskeið í vetur ef áhugi er fyrir hendi svo sem markmannsþjálfun og spyrnutækni. Á vorin verða ráðnir fleiri þjálfarar undir umsjón yfirþjálfara en þeir munu sjá um einn til tvo flokka hver og fylgja þeim á mót. Allt þetta er gert til þess að fá markvissari þjálfun og nýta Hamarshöllina sem best.

Það von okkar í stjórn yngri flokka knattspyrnudeildar Hamars að þeir iðkendur sem nú eru skráðir haldi áfram að æfa af krafti næsta vetur og enn fleiri bætist í góðan hóp.

Með knattspyrnukveðju,

stjórn yngri flokka knattspyrnudeildar Hamars,

Ævar Sigurðsson

Þorsteinn T. Ragnarsson

Arnar Stefánsson

Þorkell Pétursson

Matthías Þórisson

Elínborg María Ólafsdóttir

 

Nú er vetrarstarfið að fara í gang hjá sunddeildinni. Það verður með hefðbundnu sniði. Í síðustu viku hófust æfingar hjá elsta hópnum og í þessari viku hefjast æfingar hjá öðrum hópum. Æft verður í Laugaskarði. Við hvetjum jafnt unga sem aldna til að skella sér í sund. Sund er allra meina bót og ein besta hreyfing sem völ er á.  Í vetur verður sund í boði fyrir alla og viljum við vekja sérstaka athygli á garpasundhópnum „Sundelítan“ sem er hópur „eldri“ sundmanna sem hittist og syndir saman tvisvar í viku undir leiðsögn Magga þjálfara. Allar frekari upplýsingar gefur Magnús í síma 8983067 eða maggitryggva@gmail.com.